Númer
10/2018
Heiti
Brot Símans á bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga
Dagsetning
03.07.2018
Málaflokkur
Fjölmiðlar
Lagagreinar
- gr. Flutningsréttur á myndefni.
Reifun
Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), nr. 10/2018, kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hf. (Síminn) hafi brotið gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem leggur bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Með stoð í 4. mgr. 54. gr. fjölmiðlalaga leggur PFS 9.000.000 kr. stjórnvaldssekt á Símann sem greiðist í ríkissjóð, en hámarks sektarheimild er 10.000.000 kr.
Þann 1. október 2015 stöðvaði Síminn dreifingu ólínulegs myndefnis Sjónvarps Símans yfir kerfi Vodafone. Með ólínulegu myndefni er átt við það sem í daglegu tali er kallað spilun á myndefni eftir pöntun (VOD) s.s. tímaflakk, frelsi og leiga á myndefni. Síðan þá hefur viðskiptavinum sjónvarpsþjónustu Vodafone ekki staðið sú þjónusta til boða, eins og raunin var fyrir þann tíma. Þeir neytendur sem hafa kosið að kaupa aðgang að ólínulegu sjónvarpsefni Símans (Sjónvarp Símans Premium) hafa því þurft að vera með myndlykil frá Símanum, þar sem viðkomandi efni hefur síðan þá eingöngu verið dreift yfir IPTV kerfi Símans og myndlykla Símans. Áskrift að efninu hefur þar með eingöngu verið í boði gegnum dreifikerfi Símans og þá nær eingöngu á neti Mílu, dótturfélags Símans.
Aðilar að málinu eru fjórir, þ.e. Sýn hf. (Vodafone) og Gagnaveita Reykjavíkur ehf. (GR) sem kvörtuðu til PFS yfir meintu broti Símans, og Síminn og dótturfélag þess, Míla ehf. (Míla), sem mótmælt hafa því að brot hafi átt sér stað.
PFS hefur komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi ekki sýnt raunverulegan samningsvilja gagnvart Vodafone til að semja um lausn sjónvarpsdreifingarinnar á því tímabili sem liðið er frá því að umræddar breytingar á fyrirkomulagi sjónvarpsþjónustu Símans voru kynntar til sögunnar þann 1. október 2015.
Það er mat PFS að Síminn hefði, að einhverju leyti, getað takmarkað þau skaðlegu áhrif sem umræddar ráðstafanir höfðu á GR í samkeppni við Mílu á markaði fyrir undirliggjandi fjarskiptanet með því að ná samningi um aðgang að ljósleiðaraneti GR áður en Síminn réðst í umræddar breytingar. Hvað þann þátt málsins varðar er það niðurstaða PFS að Síminn hafi á því tímabili sem liðið er frá því að brotið var framið ekki komið fram með sanngjarna og eðlilega aðgangsbeiðni að neti GR.
Þó Síminn hefði flutt IPTV þjónustu sína yfir net GR er það mat PFS að það eitt og sér hefði ekki komið í veg fyrir brotið, því hið ólínulega myndefni, Sjónvarp Símans Premium, væri enn einungis dreift yfir IPTV kerfi og myndlykla Símans. Þar hefði með nokkrum hætti brot Símans verið yfirfært á net GR.