Númer
15/2022
Heiti
Kostnaðarskipting milli Orkufjarskipta hf. og Ljósleiðarans ehf. vegna plægingar fjarskiptalagna frá Svínhólum að Almannaskarði
Dagsetning
30.12.2022
Málaflokkur
Uppbygging, samnýting, aðgangur o.fl.
Lagagreinar
- gr. Meðferð ágreiningsmála.
- gr. Samhæfing mannvirkjagerðar.
Reifun
Þann 27. apríl 2022 barst Fjarskiptastofu erindi frá Ljósleiðaranum ehf. (Ljósleiðarinn) sem varðaði beiðni Ljósleiðarans um þátttöku í tilteknum verkefnum sem Orkufjarskipti hf. (Orkufjarskipti) væri að fara af stað með í Sveitarfélaginu Hornafirði og í Skaftárhreppi. Í framhaldi af móttöku þessa erindis leitaði Fjarskiptastofa sátta með aðilum og leiddi sú sáttaumleitan til þess að aðilar gerðu með sér sátt, dags. 24. maí 2022, um að Ljósleiðarinn fengi að taka þátt í umræddum verkefnum. Í sáttinni var kveðið á um að Fjarskiptastofa skyldi taka ákvörðun um kostnaðarskiptingu milli aðila í fyrsta áfanga fyrrnefndra verkefna þ.e. leiðin milli Svínhóla og Almannaskarðs. Jafnframt hafa aðilar samkvæmt sáttinni möguleika á að vísa kostnaðarskiptingu í öðrum áföngum til Fjarskiptastofu ef með þarf. Ákvörðun þessi snýr eingöngu að kostnaðarskiptingu á leiðinni milli Svínhóla og Almannaskarðs.
Í umræddum áfanga var plægður niður ljósleiðarastrengur fyrir Orkufjarskipti og svokallað þríburarör fyrir Ljósleiðarann, en það eru þrjú rör saman í kápu. Í þessum áfanga voru það aðeins Orkufjarskipti og Ljósleiðarinn sem samnýttu framkvæmdina.
Í lögum 125/2019 um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta er ekki að finna leiðbeiningar um hvernig kostnaði skuli skipt þegar jarðvegsframkvæmdir eru samnýttar. Fjarskiptastofa byggði ákvörðun sína á því hver líklegur kostnaður yrði við lagningu hvorrar tegundar lagna fyrir sig og skipti jarðvinnukostnaði í þeim hlutföllum. Aflað var ráðgjafar frá sérfræðingi á sviði ljósleiðaralagninga. Niðurstaðan var sú að þar sem lagning þríburarörs er mun dýrari en lagning strengs þá væri eðlileg skipting á jarðvinnukostnaði 65% fyrir þríburarör en 35% fyrir ljósleiðarastreng. Sumir hlutar framkvæmdarinnar voru sérgreindir og tilheyrðu öðrum aðilanum eingöngu og bar hvor aðili sinn kostnað vegna þeirra þátta. Þá voru nokkrir liðir sem ekki var talin ástæða til að gera greinarmun á kostnaðarþátttöku s.s. vegna sameiginlegs efnis fyrir merkingar og brúarfestingar og vegna hönnunar og var þeim kostnaði skipt jafnt. Orkufjarskipti gerðu kröfu um að Ljósleiðarinn bæri einn kostnað vegna eftirlits með verkinu í einn mánuð vegna tafa sem urðu á verkinu vegna aðkomu Ljósleiðarans og var fallist á það.
Tengt efni
Ekkert tengt efni skráð