Hoppa yfir valmynd
Ákvarðanir

Númer

4/2023

Heiti

Viðmiðunartilboð Mílu fyrir aðstöðuleigu

Dagsetning

08.06.2023

Málsaðilar

Málaflokkur

Kostnaðargreining

Lagagreinar

Engin lög skráð

Reifun

Með heimild í 2. mgr. 49. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022 samanber 2. mgr. 8. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/19/EB hefur Fjarskiptastofa gert breytingar á uppfærðu viðmiðunartilboði Mílu, að teknu tilliti til athugasemda hagsmunaaðila. Þessar breytingar eru taldar upp í viðauka I og útskýrðar nánar í ákvörðun 4/2023. Þann 8. maí sl. voru ákvörðunardrögin send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Samráðinu lauk 5. júní sl. og hefur Fjarskiptastofa þegar móttekið álit ESA sem fylgir með í viðauka IX við ákvörðun þessa. ESA gerði engar athugasemdir við ákvörðunardrögin.

Ákvörðun Fjarskiptastofu fjallar um nýtt viðmiðunartilboð Mílu fyrir hýsingu. Tilboðið leysir af hólmi eldra viðmiðunartilboð Mílu frá 3.júní 2014. Helstu áherslur og breytingar fólust í að tekinn var inn nýr liður er sneri að rafrænni undirskrift/rafrænu samþykki þjónustukaupa. Þá var viðauki þrjú um tækniskilmála sameinaður við viðauka eitt sem fjallaði um grunnþjónustu og gerður var nýr viðauki er fjallar um verklags- og öryggisreglur. Fjallað er um skilmála viðmiðunartilboðsins aðra en þá er snúa að verðum í máli þessu.

Viðmiðunartilboðið er til komið vegna ákvarðana Póst- og Fjarskiptastofnunar/Fjarskiptastofu í málum nr. 8/2014, um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir lúkningarhluta leigulína (markaður 6 samkvæmt tilmælum ESA um viðkomandi markaði frá 5. nóvember 2008),  21/2015 um útnefningu fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumarkaði fyrir stofnlínuhluta leigulína (fyrrum markaður 14 samkvæmt leiðbeiningum ESA frá 2004) og 5/2021 um útnefning fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk og álagningu kvaða á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang með fasttengingu og miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur (markaðir 3a og 3b samkvæmt leiðbeiningum ESA frá 2016).

Í framangreindum ákvörðunum var Míla útnefnt fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á viðeigandi mörkuðum og lagðar voru kvaðir á félagið meðal annars um aðgang og jafnræði.

Með ákvörðun 4/2023 hafa verið gerðar breytingar á viðmiðunartilboði Mílu hf. með tilliti til athugasemda sem bárust frá fjarskiptafyrirtækjum í samráði sem stóð frá 28. september 2022 til 19. október 2022.  Athugasemdir bárust frá þremur fjarskiptafyrirtækjum: Snerpu ehf., Ljósleiðaranum ef. og Sýn hf. Í kjölfar samráðsins voru helstu athugasemdir hagsmunaaðila sendar Mílu hf. og er afstaða Mílu hf. til þeirra afmörkuð í ákvörðuninni. Í þessari ákvörðun eru athugasemdir hagsmunaaðila vegnar á móti afstöðu Mílu hf. og tekin er afstaða til þess hvort breyta þurfi tilteknum þáttum viðmiðunartilboðsins. Þær breytingar sem gerðar hafa verið leggja ekki á, draga til baka, né breyta  kvöðum sem Míla hf. er undir þar sem þær lúta að mestu að nánari afmörkun á orðalagi viðmiðunartilboðsins.