Fréttasafn
28. ágúst 2007
Úrskurðarnefnd staðfestir ákvörðun PFS um aðgang Símans að málsgögnum vegna OR
Nánar
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur endanlega staðfest ákvörðun PFS frá því í desember 2006 um aðgang Símans að málsskjölum vegna Orkuveitu Reykjavíkur.Forsaga málsins er að í nóvember 2006 barst PFS krafa Símans um aðgang að gögnum í máli vegna ákvörðunar stofnunarinnar um fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptastarfsemi OR frá öðrum rekstri fyrirtækisins. PFS ákvarðaði að Símanum yrðu afhent öll málsgögn, með þeim takmörkunum sem leiða af 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.Sjá ákvörðun PFS 11. desember 2006. Orkuveita Reykjavíkur kærði ákvörðun PFS til úrskurðarnefndar þann 19. desember og krafðist einnig frestunar á réttaráhrifum ákvörðunar PFS. Úrskurðarnefnd birti úrskurð sinn um frestun réttaráhrifa ákvörðunar PFS þann 21. desember þar sem þeirri kröfu OR er hafnað. Nú hefur úrskurðarnefnd sent frá sér endanlegan úrskurð í málinu þar sem ákvörðun PFS frá 11. desember 2006 er staðfest. Endanleg ákvörðun úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli 15/2006, 27. ágúst 2007 (PDF)
21. ágúst 2007
Samráð um markaðsgreiningu á heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang
Nánar
PFS hefur sent hagsmunaaðilum til umsagnar frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 12, heildsölumarkaði fyrir breiðbandsaðgang (bitastraumsaðgang að háhraðatengingum). Frestur til að skila athugasemdum er til 24. september n.k. PFS mun endurskoða markaðsgreininguna með hliðsjón af þeim athugasemdum sem berast áður en greiningin er send Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til samráðs. Að teknu tilliti til umsagnar ESA verður ákvörðun stofnunarinnar birt hlutaðeigandi fyrirtækjum. Helstu niðurstöðurHelstu niðurstöður frummarkaðsgreiningarinnar eru þær að heildsölumarkaður fyrir breiðbandsaðgang nái aðeins yfir xDSL tækni um koparheimtaugar, en ekki aðra tækni eins og t.d. um örbylgju, ljósleiðara og gervitungl. ADSL tækni er sú xDSL tækni sem er langmest notuð hér á landi. Viðkomandi markaður nær til landsins alls. Það var niðurstaða PFS að ekki ríki virk samkeppni á viðkomandi markaði og að Síminn hf. hafi umtalsverðan markaðsstyrk á markaðinum. Í því ljósi hyggst PFS útnefna Símann hf. með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi markaði og leggja tilteknar kvaðir á félagið til að greiða fyrir aukinni samkeppni. Sjá nánar - bréf til hagsmunaaðila og frumdrög að markaðsgreiningu á markaði 12
10. ágúst 2007
Ákvörðun PFS í ágreiningsmáli um gjaldtöku fyrir hlerun
Nánar
PFS hefur birt ákvörðun sína (nr. 14/2007) í ágreiningsmáli lögreglustjórans í Reykjavík (nú lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu) og Og fjarskipta ehf. (Vodafone) vegna gjaldtöku fyrir hlerun. Í ákvörðunarorðum segir m.a.:" Og fjarskiptum ehf. er heimilt að krefja embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um greiðslu vegna reikninga sem eru tilkomnir vegna beiðna um hlerun er berast félaginu utan skrifstofutíma og eru vegna greiðslu á bakvaktarútkalli til tæknimanns." Ákvörðun PFS nr. 14/2007 í ágreiningsmáli um gjaldtöku fyrir hlerun (PDF)
31. júlí 2007
PFS samþykkir nýtt viðmiðunartilboð Símans hf. um samtengingu talsímaneta með fyrirmælum um breytingar.
Nánar
Með ákvörðun nr. 13/2007, frá 25. júlí 2007, samþykkti PFS að nýtt viðmiðunartilboð Símans hf. um samtengingu talsímaneta taki gildi frá og með 1. ágúst 2007 með þeim breytingum á skilmálum sem mælt er fyrir um í viðauka við ákvörðunina. Fyrirhuguð hækkun Símans hf. á samtengiverðum var enn fremur hafnað.Sjá ákvörðunina í heild: (ákvörðunin pdf)(viðaukinn pdf)
4. júlí 2007
Úrskurðarnefnd staðfestir niðurstöðu PFS um aðgang og upphaf símtala í farsímanetum
Nánar
Þann 3. júlí 2007 staðfesti úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála í úrskurði sínum nr. 2/2007 ákvörðun PFS um markað 15, um upphaf og aðgang símtala í farsímanetum. Í ákvörðun sinni komst PFS m.a. að þeirri niðurstöðu að Síminn hefur umtalsverðan markaðsstyrk fyrir aðgang og upphaf símtala í almennum GSM og NMT farsímanetum. Í framhaldi af útnefningunni leggur PFS m.a. eftirfarandi kvaðir á Símann hvað varðar GSM farsímanet: kvöð um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað og eftirlit með gjaldskrá. Varðandi kvöð um aðgang þá er Símanum gert skylt að verða við eðlilegum og sanngjörnum beiðnum um innanlands reiki, samnýtingu og samhýsingu, aðgang til endursölu og um sýndarnetsaðgang. Varðandi kvöð um eftirlit með gjaldskrá þá skal Síminn birta viðmiðunartilboð fyrir aðgang að GSM farsímaneti sínu og þjónustu, aðgangsverð fyrir endursölu, sýndarnet og innanlandsreiki. Verð fyrir aðgang til endursölu og fyrir sýndarnet skal reiknaður með smásölu mínus aðferðinni fyrst um sinn. Smásala mínus skal vera að lágmarki 35% miðað við hreinan sýndarnetsaðgang og að lágmarki 25% fyrir endursöluaðgang miðað við eðlilegan rekstrarkostnað og hæfilegan hagnað. Prósentan skal svo vera breytileg eftir því hversu mikill aðgangur að innviðum farsímanetsins er keyptur. Með úrskurði þessum er það von PFS að veigamiklum hindrunum sé rutt úr vegi þess að keppinautum Símans verði gert kleift að byggja upp og þróa GSM farsímaþjónustu í samkeppni við Símann með þeim hætti að fá aðgang að innviðum farsímakerfa Símans til að bjóða eigin þjónustu að hluta til eða í heild. Markmið fjarskiptalöggjafarinnar og PFS með markaðsgreiningunni er að greina stöðu samkeppni á fjarskiptamarkaði og leggja á viðeigandi kvaðir til að efla samkeppi, sé hún ekki talin vera nægjanlega virk eins og sú niðurstaða sem nú liggur fyrir gefur til kynna. Það er von stofnunarinnar að með þessu mikilvæga skrefi muni samkeppni á farsímamarkaði eflast, neytendum til hagsbóta. Nánari upplýsingar veitir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri PFS, s. 510-1500 Sjá úrskurðinn í heild (pdf) Endanlegar ákvarðanir fyrir markað 15
2. júlí 2007
Síminn hækkar mínútuverð fyrir notkun fastasíma
Nánar
Frá og með 1. júlí hækkaði Síminn verð þegar talað er milli heimasíma (fastasíma) úr 1,75 kr í 1,85 kr á mínútuna, eða um 5,7%. Jafnframt hækkar verð fyrirtækisins þegar hringt er úr heimasíma í GSM hjá Símanum úr 16 kr. í 17. kr á mínútuna eða um 6,25%. Sjá verðskrá Símans PFS birtir mánaðarlega verðsamanburð á fjarskiptaþjónustu hér á vefnum.Sjá verðsamanburð fjarskiptaþjónustu í júní 2007.
28. júní 2007
Amitelo AG og IceCell ehf fá tíðniheimildir fyrir GSM 1800 farsímakerfi
Nánar
PFS hefur úthlutað tveimur fyrirtækjum tíðniheimildum fyrir GSM 1800 farsímakerfi. Fyrirtækin eru Amitelo AG og IceCell ehf. sem er sá hluti móðurfyrirtækisins BebbiCell AG sem mun starfa hér á landi.Útboðið var auglýst 2. febrúar sl. og voru tilboð opnuð 3. apríl að viðstöddum fulltrúum bjóðenda og fulltrúum fjölmiðla. Hvor tíðniheimild gildir fyrir allt landið og felur í sér eitt eftirtalinna tveggja tíðnisviða, sem hvert um sig er samtals 2 x 7,4 MHz , alls 14,8 MHz 1) 1751,1-1758,5 MHz / 1846,1-1853,5 MHz 2) 1758,7-1766,1 MHz / 1853,7-1861,1 MHz Tíðniheimild Amitelo AGTíðniheimild IceCell ehf Fjögur fyrirtæki lögðu fram tilboð í GSM 1800 tíðniheimildirnar en fyrirfram var ákveðið að ekki yrði úthlutað fleiri en tveimur tíðniheimildum.Stigafjöldi umsókna var reiknaður á þann veg að prósentutala útbreiðslu við hvorn áfanga fékk mismunandi vægi þannig að því fyrr sem útbreiðslu væri náð fengjust fleiri stig. Uppgefnar tölur um útbreiðslu og uppbyggingarhraða voru lesnar upp við opnun tilboða ásamt útreiknuðum stigum fyrir hvert tilboð. Heildarstigafjöldi bjóðenda skv. tilboðum: Amitelo AG 127,5 stig BebbiCell AG 123,0 stig Núll-Níu ehf 118,0 stig IP fjarskipti ehf 97,5 stig Sjá nánar: Frétt um opnun tilboða frá 3. apríl 2007 Fundargerð frá opnun tilboða 3.apríl 2007(PDF) Útboðsauglýsing frá 2. febrúar 2007 Útboðslýsing (PDF) Fyrirspurnir og svör vegna útboðs á tveimur GSM 1800 tíðniheimildum
26. júní 2007
PFS hefur hafnað umsókn IP-fjarskipta ehf um tíðniheimild fyrir GSM 1800 farsímakerfi
Nánar
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið ákvörðun um að hafna umsókn IP-fjarskipta ehf. um tíðniheimild fyrir GSM 1800 farsímakerfi. Er umsókn IP-fjarskipta ehf. hafnað á grundvelli ónógra upplýsinga í tilboði fyrirtækisins um fjárhagsstöðu og tæknilega getu, sem krafist var samkvæmt kafla 2.4 í útboðslýsingunni , auk þess sem lýsingu á uppbyggingu á fyrirhuguðu fjarskiptaneti vantaði í tilboðið.Í ákvörðuninni segir m.a.:"...er það álit Póst- og fjarskiptastofnunar að umsókn IP-fjarskipta ehf. sé haldin verulegum annmörkum og að í ljósi meginreglunnar um jafnræði sé ekki unnt að heimila fyrirtækinu að bæta úr henni að liðnum útboðsfresti. Því er það niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar að ekki verði komist hjá því að hafna umsókn IP-fjarskipta ehf." Ákvörðun PFS nr. 12/2007 um höfnun á umsókn IP-fjarskipta ehf. um tíðniheimild fyrir GSM 1800 (PDF)