Fréttasafn
13. maí 2005
Netsími- ný tækifæri. Ráðstefna 17. maí 2005
Nánar
Í tilefni af alþjóðlega fjarskiptadeginum þann 17. maí 2005 stóð Póst- og fjarskiptastofnun fyrir fjölsóttri ráðstefnu undir fyrirsögninni Netsími- ný tækifæri á Grandhóteli í Reykjavík. Þar voru kynntar helstu nýjungar í símaþjónustu á Netinu (VoIP), greint frá stefnumiðum stjórnvalda í fjarskiptum og varpað ljósi á hvaða leiðir aðrar Evrópuþjóðir hafa farið til að tryggja neytendum bestu þjónustu og kjör. Fyrirlesarar voru Alan Van Gaever sérfræðingur hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Daniel Voisard sérfræðingur hjá svissneska samgönguráðuneytinu, Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar og Arnþór Halldórsson framkvæmdastjóri HIVE.Allir fyrirlestrarnir voru teknir upp og er allt efni ráðstefnunnar, upptökur og kynningarglærur, aðgengilegt hér. Ávarp Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Sjá upptöku (í pop-up)Sjá upptöku Alain Van Gaever sérfræðingur framkvæmdastjórnar ESBHvernig er leitast við að tryggja samkeppni, öryggi og gæði í netsímaþjónustu á evrópska efnahagssvæðinu? (The EU Regulatory Perspective on VoIP). Sjá upplýsingar um fyrirlesarann, útdrátt úr erindi, upptökur og kynningarglærur. Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.Samþjónusta og samruninn. Sjá upplýsingar um fyrrilesarann, upptökur og kynningarglærur. Daniel Voisard, sérfræðingur í svissneska samgönguráðuneytinu. Breyttar forsendur í talsímaþjónustu. Svissneska leiðin í regluverki. (Evolution and convergence of new voice services - The Swiss telecom regulation). Sjá upplýsingar um fyrirlesarann, útdrátt úr erindi á ensku, upptökur og kynningarglærur. Arnþór Halldórsson framkvæmdastjóri HIVE.Að markaðssetja netsíma fyrir upplýsta og krefjandi neytendur. (Marketing VoIP services in a mature and demanding market). Sjá upplýsingar um fyrirlesarann, upptökur og kynningarglærur. Umræður. Ráðstefnustjóri var Þorsteinn Joð Með netsímaráðstefnunni tókst að skapa umræðugrundvöll fyrir fyrirtæki, sérfræðinga og stjórnvöld á sviði fjarskipta. Fengur var að því að heyra sjónarmið helstu sérfræðinga sem móta lög og reglur um netsímaþjónustu á evrópska efnahagssvæðinu, en íslensk fjarskiptalöggjöf tekur mið af tilskipunum ESB á þessu sviði. Einnig komu fram upplýsingar um íslensk fyrirtæki sem eru að undirbúa markaðssetningu á netsímaþjónustu. Um sjötíu manns sóttu ráðstefnuna. Sjá myndir af netsímaráðstefnunni 17. maí 2005. Sjá frekari upplýsingar um netsíma.
13. maí 2005
Fjarskiptaáætlun samþykkt
Nánar
Alþingi samþykkti 11.maí - á síðasta degi vorþings- nýja fjarskiptaáætlun fyrir tímabilið 2005-2010. Áætlunin var samþykkt með atkvæðum 56 þingmanna. 7 voru fjarverandi. Þá náðist sátt um breytingar á frumvarpi til fjarskiptalaga, þannig að fjarskiptafyrirtæki verði gert að geyma upplýsingar um fjarskiptaumferð í hálft ár í staðinn fyrir heilt. Ágreiningur var um þá grein frumvarpsins sem veitti lögreglu heimild til að afla upplýsinga um eiganda símanúmers og notanda IP-talna. Ákveðið var að halda ákvæðinu inni vegna öryggissjónarmiða og fela Póst- og fjarskiptastofnun að setja um það reglur svo það stangaðist ekki á við persónurétt og rétt til friðhelgi einkalífs. Sjá nýja fjarskiptaáætlun.
12. maí 2005
Framlengdur tilboðsfrestur vegna UHF-útboðs
Nánar
Tilboðsfrestur vegna útboðs á UHF-tíðnum fyrir stafrænt sjónvarp á landsvísu hefur verið framlengdur til 31. maí nk. kl. 11:00. Áður auglýstur tilboðsfrestur var 17. maí nk.Tilboð verða opnuð á fundi sem hefst um leið og hinn framlengdi tilboðsfrestur er liðinn. Fundað verður hjá Póst- og fjarskiptastofnun að Suðurlandsbraut 4, 2. hæð, sbr. lið 4.2. í útboðslýsingu. Leitast verður við að tilkynna bjóðendum hvort tilboði þeirra verður tekið eða hafnað á áður auglýstum tíma, 27. júní nk. Sjá útboðslýsingu.
9. maí 2005
Lítil verðvitund íslenskra símnotenda samkvæmt nýrri könnun IMG-Gallup
Nánar
Níu af hverjum tíu Íslendingum eiga farsíma. Hins vegar veit innan við fimmtungur þeirra hvað mínútan í farsímtali kostar. Enn færri eða rúm 11% viðskiptavina Síamns og 13%viðskiptavina OgVodafone vita hvað það kostar á hringja á milli síma hjá farsímafyrirtækjunum tveimur. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem IMG Gallup gerði fyrir Póst- og fjarskiptastofnun í apríl. Einnig kemur í ljós að tiltölulega fáir skipta um GSM þjónustuaðila, einungis tæplega 16% aðspurðra höfðu gert það á síðustu tveimur árum. Þá telur tæplega helmingur símnotenda upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum flóknar. Könnunin náði til tæplega 1300 manns á aldrinum 16-75 ára á landinu öllu. Svarhlutfall var rúmlega 62%. Sjá ítarlegar niðurstöður könnunar IMG-Gallup í apríl 2005 (pfd-snið 211KB) Sjá símaverð fjarskiptafyrirtækja í júní 2005 (pdf-snið 70 KB)
2. maí 2005
Sjónvarpssími
Nánar
Suðurkóreska símafyrirtækið TU Media hefur hafið sjónvarpsútsendingar um gervihnött fyrir notendur farsíma. Tilraunir með sendi- og móttökubúnað sem byggjast á DMB-tækni hafa staðið í fjóra mánuði. TU -Media rekur sjö kabalsjónvarpsstöðvar og 20 útvarpsstöðvar og geta þeir sem keypt hafa sér farsíma með móttökubúnaði fyrir stafræna sendingar nú tekið við þeim. Fyrirtækið hefur áform um að miðla efni frá fjörutíu öðrum sjónvarpsstöðvum með þessu móti. Eigendur móttökubúnaður eru hins vegar ekki margir og einungis tveir framleiðendur eiga sjónvarpsfarsíma á markaði. Hins vegar má búast við því að stór markaður skapist fyrir slíka síma á næstu árum. Sjá frétt um sjónvarpssímann.
29. apríl 2005
Póstburðargjöld innan lands lægst á Íslandi í norrænum samanburði
Nánar
Í tilefni af beiðni Íslandspósts hf. um hækkun póstburðargjalda 1. maí 2005 gerði Póst- og fjarskiptastofnun samanburðarkönnun á gjaldskrám fyrir póstþjónustu á Norðurlöndum.Bornar voru saman gjaldskrár fyrir bréf innan lands, fyrir bréf frá Norðurlöndum til annarra Evrópulanda og gjaldskrár fyrir bréf til landa utan Evrópu. Í ljós kom að póstburðargjöld innan lands eru lægst á Íslandi í öllum þyngdaflokkum bréfa. Finnar eru með lægstu póstburðargjöldin á bréf til annarra Evrópuríkja, en Íslandspóstur býður að jafnaði þriðja lægsta verðið. Lítill verðmunur er á á Norðrulöndum á póstburðargjöldum til landa utan Evrópu fyrir léttustu bréfin, en eru með því hærri hér á landi í þyngdaflokkunum 100-2000 gr. Í könnuninni er gert ráð fyrir gjaldskrárbreytingum Íslandspósts sem taka gildi 1. maí 2005. Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér í línuritum.
25. apríl 2005
Netsímanotendum fjölgar ört
Nánar
Stöðugt fleiri notfæra sér netsímann. Könnun sem gerð var í Danmörku í apríl 2005 sýndi að a.m.k. 200.000 manns notfæra sér daglega netsímalausnir og að hátt í sjö hundruð þúsund Danir vænti þess að vera búnir að koma sér upp búnaði fyrir netsíma innan hálfs árs. Þá kemur fram í könnuninni að notendur netsíma eru flestir á aldrinum 15-39 ára, en þeir sem eru komnir yfir fertugt virðast ekki eins ginkeyptir fyrir netsímalausnum. Þrjár milljónir Dana þekkja vel til netsíma-hugbúnaðar og því búast yfirvöld við því að notendum muni fjölga til muna á næstu mánuðum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áætlar að nær fimm milljónir Japana noti netsíma, ein milljón Bandaríkjamanna, en einungis 200.000 Frakkar og fimmtíu þúsund Bretar. Engar takmarkanir eru á framboði á netsímalausnum á evrópska efnahagssvæðinu og krefst slík þjónustu engra leyfisveitinga. Sjá frekari upplýsingar um netsíma.
17. apríl 2005
Samþjónusta lykilhugtak í nýrri fjarskiptaáætlun
Nánar
Samþjónusta er lykilhugtak í nýrri fjarskiptaáætlun sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur kynnt. Hugtakið nær til nýrra íslenskra viðmiða umfram reglur Evrópusambandsins um lágmarks-fjarskiptaþjónustu sem skylt er að veita, svokallaða alþjónustu. Stefnan er að Íslendingar verði í fremstu röð þjóða með hagkvæma, örugga, aðgengilega og framsækna fjarskiptaþjónustu. Með séríslenskum viðmiðum er markmiðið að háhraðatenging verði komin inn á hvert heimili árið 2007, að menntakerfið verði háhraðavætt eigi síðar en 2008, að farsímasamband verði á öllum helstu stofnvegum og hálendinu eigi síðar en í árslok 2006 og að stafrænu sjónvarpi, þar með talið Ríkissjónvarpinu, verði dreift um allt land og miðin eigi síðar en 2007. Sjá nýja fjarskiptaáætlun (pdf-snið) 2 Mb