Fréttasafn
28. febrúar 2005
Gagnleg tölfræði í ársskýrslu 2003
Nánar
Ársskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir árið 2003 er komin út. Þar segir að tvíkeppni ríki á íslenskum fjarskiptamarkaði og undir slíkum kringumstæðum sé meginviðfang stofnunarinnar að veita fyrirtækjum þétt aðhald og tryggja hag neytenda. Þá er bent á að óheppilegt sé til lengri tíma litið að fjölmiðlar með veruleg ítök í dreifingu hafi tök á að takmarka aðgang keppinauta að dreifikerfum. Dreifikerfi hljóðvarps og sjónvarps hérlendis eru yfirleitt undir stjórn þeirra sem framleiða og dreifa efni. Úrskurðað var á árinu 2003 að markaðshlutdeild Og Fjarskipta á farsíma- og samtengimarkaði væri umtalsverð, sem þýðir að leggja má á fyrirtækið kvaðir til að jafna samkeppnisstöðu. Stofnunin ákvað jafnframt að Landssímanum bæri að lækka heildsöluverð inn í farsímanet sitt um fimmtán af hundraði. Á árinu 2003 voru settar reglur um staðsetningu og fyrirkomulag afgreiðslustaða fyrir póstsendingar, en eins og kunnugt er hefur Íslandspóstur hin síðari ár gengið til samstarf við banka, sparisjóði og verslanir í þeim efnum Jafnframt voru settar reglur um gæði í póstþjónustu. Í árskýrslunni eru birtar niðurstöður árlegra gæðakannana á því hversu fljótt póstur berst til neytenda innanlands. Þá kemur fram að á árinu 2006 verði einkaréttur Íslandspósts á póstsendingum bréfa færður niður í 50 grömm. Greinargott yfirlit yfir þróun á íslenskum fjarskiptamarkaði er í ársskýrslunni, en með nýjum lögum um fjarskipti sem tóku gildi 2003 var kveðið á um markaðsgreiningu í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins. Hér má sækja ársskýrsluna á pdf sniði. Ársskýrsla 2003 Nýjustu tölfræðiupplýsingar
25. febrúar 2005
Athugasemdir við útboð á UHF rásum fyrir 1. mars
Nánar
Frestur er veittur til þess að koma að athugasemdum til þriðjudags 1. mars 2005 kl 16:00. Sjá frétt 10.2.2005.
10. febrúar 2005
Útboð á UHF rásum fyrir stafrænt sjónvarp
Nánar
Hjá Póst- og fjarskiptastofnun er nú á lokastigi undirbúningur undir útboð rása fyrir stafrænt sjónvarp á UHF tíðnisviðinu. Í fyrsta áfanga verða boðnar í heild allt að 10 UHF rásir um allt land, þ.m.t. á Reykjavíkursvæðinu. Hverjum aðila verður þó aðeins heimilt að bjóða í tvær rásir. Gert er ráð fyrir að 5 sjónvarpsdagskrár rúmist á einni stafrænni UHF rás. Hér er stuttur úrdráttur úr drögum að útboðslýsingu fyrir UHF tíðnirnar, þar sem fram koma meginatriði fyrirkomulags útboðsins. Vakin er sérstök athygli að kröfunni um útbreiðslu, en í útboðinu er gert ráð fyrir að innan tveggja ára skuli stafræn sjónvarpsþjónusta á UHF tíðnisviði ná til a.m.k. 98% heimila landsmanna. Hagsmunaaðilum er hér með boðið að koma að athugasemdum sínum varðandi fyrirhugað útboð og skulu þær berast PFS fyrir 25. febrúar 2005 kl 16:00
17. desember 2004
Óljós símakostnaður vegna númeraflutnings - tilkynning
Nánar
Þann 1. október síðastliðinn var farsímanotendum gert mögulegt að flytja númer sín með sér vilji þeir eiga viðskipti við annað farsímafyrirtæki. Borið hefur á kvörtunum frá notendum um hækkun á símreikningum sem rekja má til þess að viðkomandi hafi hringt í númer sem áður var hjá sama farsímafyrirtæki og viðkomandi en vegna breytinganna er nú hjá öðru farsímafyrirtæki. Verð símtala milli farsímafyrirtækja eru allt að 120% hærri en verð símtala milli notenda sem eru hjá sama farsímafyrirtæki.Svipuð staða er uppí í löndum þar sem númeraflutningur er skylda. Almennt hefur lausnin verið sú að tryggja að farsímanotendur geti nálgast upplýsingar um í hvað net er hringt og þannig vitað hver verður kostaður af viðkomandi símtali. Farsímafélögin á Íslandi hafa þegar mætt þessu með því að bjóða notendum að fletta upp á vefsíðum sínum í hvaða kerfi notandi er. Sjá t.d. http://www.siminn.is/control/index?pid=6116 (Neðst á síðunni)http://www.ogvodafone.is/index.aspx?GroupId=750(Efst á síðunni) Hérlendis sem og annars staðar er verið að kanna aðrar lausnir t.d með því að veita upplýsingarnar gegnum talvél, smáskilaboð (SMS) eða þjónustuver. Neytendur eru hvattir til að kynna sér vel hvaða áhrif það getur haft á símreikninga þeirra að skipta um þjónustuveitanda. Þannig breytingar geta haft áhrif bæði til hækkunar eða lækkunar, allt eftir því hvort mikið eða lítið er hringt á milli kerfa.
25. nóvember 2004
Úrskurðarnefnd: Núll-níu ehf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun
Nánar
Úrskurður í máli nr. 6/2004; Núll níu ehf. gegn Póst- og fjarskiptastofnun.
5. nóvember 2004
Nýr vefur PFS opnaður - Neytendakönnun og VoIP
Nánar
Nýr vefur Póst- og fjarskiptastofnunar opnaður: Upplýsingar úr nýrri neytendakönnun. Ný tegund símþjónustu líkleg til að skapa aukna samkeppni á símamarkaðnum. Í dag opnaði samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, nýjan vef Póst- og fjarskiptastofnunar. Er vefurinn á vefslóðinni www.pfs.is. Markmið vefsins er að auðvelda aðgengi að upplýsingum um póst- og fjarskiptamál á einum og sama stað. Í tilefni opnunarinnar eru nú birtar upplýsingar úr neytendakönnun sem gerð var til að kanna hegðun neytenda á fjarskiptamarkaði. Í könnuninni kom m.a. fram að 99% fólks á aldrinum 16-24 ára eiga eða hafa aðgang að GSM síma. Þá eru flestir viðskiptavnir sem hafa heimilissíma og fyrirfram greidd farsímakort hjá Símanum á aldrinum 55-75 ára meðan þeir eru flestir á aldrinum 25-34 ára hjá Og Vodafone. Helsta svar við spurningunni um hvað réði vali á þjónustuaðila fyrir heimilissíma og GSM síma hjá viðskiptavinum Símans var að þeir hafa bara alltaf verið þar en verð réð helst vali hjá viðskiptavinum Og Vodafone. Rúm 20% segjast einhvern tíman hafa skipt um þjónustuaðila fyrir heimilissíma og GSM síma en tæp 80% hafa aldrei skipt. Verð var helsta ástæða fyrir því að skipt var um þjónustuaðila en ánægja með þjónustuna hjá þeim sem aldrei hafa skipt. Sjá má ofangreindar niðurstöður á vef PFS: www.pfs.is Einnig er birt á vefnum kynningarrit um mikilvæga nýjung, talsímþjónustu með svo kallaðri Voice over IP (VoIP) tækni. Með slíkri þjónustu má búast við aukinni samkeppni á heimilis- og fyrirtækjasímamarkaðinum. Með þessari nýju tækni má búast við lægra verði á símtölum, samhæfni símkerfis við tölvunet heimila og fyrirtækja og að hægt verður að hefja símtöl eða taka á móti þeim alls staðar þar sem net-tenging er til staðar. Líklegt er að þessi tækni auðveldi nýjum fyrirtækjum að koma inn á fjarskiptamarkaðinn. Almenningi og fyrirtækjum er boðið að senda athugasemir og ábendingar vegna VoIP til Póst- og fjarskiptastofnunar í pta@pta.is eða skriflega fyrir 20. nóvember 2004.
11. október 2004
Framlengdur frestur til að skila umsögnum um drög að reglum um skilyrt aðgangskerfi.
Nánar
Ákveðið hefur verið að framlengja frest til þess að skila umsögnum um drög að reglum um skilyrt aðgangskerfi og notendabúnað fyrir stafrænt sjónvarp. Fresturinn er framlengdur til 15. október nk.
30. september 2004
Númeraflutningur mögulegur í farsímakerfum
Nánar
Frá og með 1. október 2004 verður mögulegt fyrir GSM farsímanotendur að skipta um farsímafyrirtæki og halda óbreyttu GSM símanúmeri. Breytingin nær bæði til þeirra sem hafa fyrirfram og eftirágreidda þjónustu. Til þess að skipta um farsímafyrirtæki þurfa notendur að hafa samband við það fyrirtæki sem þeir óska að eiga viðskipti við og gera samning með skriflegum eða rafrænum hætti. Viðkomandi fyrirtæki mun síðan sjá um að númerið verði flutt. Það er von Póst- og fjarskiptastofnunar að möguleikinn á að flytja GSM farsímanúmer á milli farsímafyrirtækja muni efla samkeppni á farsímamarkaði sem er neytendum til góða.