Nýjar verklagsreglur um skráningu og miðlun upplýsinga um áskrifendur númera í fastlínu- og farsímakerfum.
Nýjar verklagsreglur um skráningu og miðlun upplýsinga um áskrifendur númera í fastlínu- og farsímakerfum.
Birtar hafa verið nýjar reglur um skráningu og miðlun upplýsinga um áskrifendur sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum. Póst- og fjarskiptastofnun hefur unnið að endurskoðun á verklagsreglunum með hliðsjón af því hvernig slík skráning og miðlun hefur gengið fyrir sig frá því nýtt fyrirkomulag um miðlun símaskrárupplýsinga tók gildi þann 1. júlí 2014. Við endurskoðunina yfirfór stofnunin öll ákvæði verklagsreglnanna og var hagsmunaðilum gefinn kostur á því að koma með athugasemdir og tillögur að breytingum á meðan henni stóð. Þá var jafnframt kallað eftir frekara samráði við hagsmunaaðila um þær breytingar sem stofnunin hugðist gera á reglunum.
Helstu breytingar sem gerðar voru á verklagsreglunum eru eftirfarandi:
- Breytingar hafa verið gerðar á orðskýringum. Þar má sjá nýtt hugtak, áskrifanda, sem er samhljóða skilgreiningu hugtaksins í fjarskiptalögum. Auk þess hefur hugtakið heimilisfang í grunnupplýsingum verið skilgreint sem það heimilisfang sem áskrifandi lætur fjarskiptafyrirtæki í té við upphaf viðskipta eða síðar til að árétta hvaða heimilisfang átt er við.
- Í 3. gr. reglnanna er áréttað að tilkynni áskrifandi um breytingar á grunnupplýsingum í númera- og vistfangaskrá beri fjarskiptafyrirtæki að breyta skráningunni til samræmis, þannig að hún innihaldi réttar grunnupplýsingar á hverjum tíma.
- Nýtt ákvæði í 4. gr. sem ætlað er að koma til móts við óskir upplýsingaþjónustuveitna um að hægt sé að leita eftir ákveðnum grunnupplýsingum en önnur grunnfærsla birtist. Sem dæmi um slíkt er þegar fyrirtæki er með stórar númeraseríur og vill ekki að öll númer séu sýnileg en vilja að aðalnúmer birtist þegar leit er framkvæmd. Ákvæðið kveður því á um tvö ný svæði í númera- og vistfangaskrá, annars vegar svæðið Birta færslu og hins vegar svæðið Tengt símanúmer. Svæðið Birta færslu segir til um hvort birta skuli grunnupplýsingarnar og er gildið Já sjálfgefið. Tengt símanúmer segir til um þá grunnupplýsingafærslu sem skal birta sem leitarniðurstöðu við færslu sem ekki skal birta
- Í 6. gr. er tekinn af allur vafi um að sömu reglur gilda um skráð frelsisnúmer og önnur númer.
- Í 7. gr. reglnanna er það áréttað að eingöngu það fjarskiptafyrirtæki sem þjónustar áskrifanda á hverjum tíma getur breytt grunnupplýsingum og er skylt að miðla öllum breytingum sem áskrifandi óskar eftir til allra þjónustuveitna. Heimild þjónustuveitandans til að gera samning við þriðja aðila um að hann megi gera breytingar á grunnupplýsingum er enn inni í reglunum, en áréttað að öllum slíkum breytingum sé miðlað aftur til fjarskiptafyrirtækis og þannig aðgengilegar öllum þeim sem hafa heimild til að reka upplýsingaþjónustu um símanúmer. Þá skulu allar færslur og breytingar í númera- og vistfangaskrá auðkenndar í þeim tilgangi að tryggja réttleika og rekjanleika allra breytinga á grunnupplýsingum.
- Í 9. gr. er búið að fjarlægja tæknilega tengingu við það XML skráarsnið sem PFS setti á sínum tíma upp sem leiðbeinandi snið þar sem ljóst er að ekki er verið að fylgja því skráarsniði í dag.
Hér fyrir neðan má nálgast hinar nýju verklagsreglur.