Fjarskiptastofa kallar eftir samráði um drög að nýjum reglum um almenna heimild til að reka fjarkiptanet eða fjarskiptaþjónustu.
Fjarskiptastofa kallar eftir samráði um drög að nýjum reglum um almenna heimild til að reka fjarkiptanet eða fjarskiptaþjónustu.
Fjarskiptastofa birtir nú til samráðs drög að nýjum reglum um almenna heimild til að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu. Rekstur á almennri fjarskiptaþjónustu styðst við reglur um almenna heimild fremur en við sérstakar leyfisveitingar fyrir fjarskiptastarfsemi af hendi stjórnvalda. Fyrirkomulag starfsleyfisveitinga í fjarskiptum var aflagt hér á landi fyrir allmörgum árum síðan. Engu að síður má líta á reglur um almenna heimild sem nokkurs konar ígildi starfsleyfa fyrir fjarskiptafyrirtæki landsins.
Nýju reglurnar munu taka við af samnefndum reglum nr. 345/2005 og eru til nánari fyllingar á þeim réttindum og skyldum sem mælt er fyrir um 7. – 9. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022.
Að loknu samráði og úrvinnslu mögulegra athugasemda umsagnaraðila verða hinar nýju reglur settar með stoð í 4. mgr. 7. gr. fjarskiptalaga og munu öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.
Þó ekki sé um veigamiklar efnislegar breytingar er útlistun á skilyrðum almennrar heimildar í nýjum fjarskiptalögum í nokkuð breyttri mynd. Með innleiðingu tilskipunar (ESB) 2018/1972 í fjarskiptalög bætast síðan við sérstök skilyrði fyrir fjarskiptafyrirtæki sem rekja fjarskiptanet. Eru það skilyrði líkt og ákveðnar ráðstafanir til verndar lýðheilsu, kröfur er varða viðhald á heildstæði almennra fjarskiptaneta og virða þurfi takmarkanir á ólöglegu og skaðlegu efni.
Samráðsfrestur er til föstudagsins 26. maí nk.
Drög að nýjum reglum um almenna heimild til að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu.
Athugasemdir skulu berast með tölvupósti á netfangið: arnar@fjarskiptastofa.is