Hoppa yfir valmynd

Íslenska farsímakerfið mælist sambærilegt öðrum evrópskum farsímakerfum í óháðum gæðaprófunum

Fréttasafn
09. janúar 2024

Íslenska farsímakerfið mælist sambærilegt öðrum evrópskum farsímakerfum í óháðum gæðaprófunum

Á nýliðnu ári ákvað Fjarskiptastofa að framkvæma í fyrsta sinn gæðaprófun, unna af óháðum utanaðkomandi aðila, á farnetskerfum fjarskiptafélaganna hér á landi.  

Til verksins var fengið þýska sérfræðifyrirtækið Rohde & Schwarz. Fyrirtækið hefur verið í fremstu röð þegar kemur m.a. að þráðlausum fjarskiptum og mælingum á gæðum þeirra. Fyrirtækið sem stofnað var fyrir 90 árum hefur höfuðstöðvar í Þýskalandi og starfsmenn þess eru  um 13.800 í 70 löndum. 

Tilgangur gæðaprófunarinnar, sem framkvæmd var í september og október sl., var að fá upplýsingar um gæði þeirrar þjónustu sem þrjú stærstu farsímafyrirtækin hér landi veita viðskiptavinum sínum þegar kemur að símtölum sem og gagnahraða við notkun internetsins þ.m.t. streymisþjónustu. 

Áhersla var lögð á þrjú mismunandi svæði, þ.e. höfuðborgarsvæðið, þéttbýli á landsbyggðinni með íbúafjölda yfir 1000 manns,  auk helstu þjóðvega. Prófunin náði til rúmlega 90% byggðra svæða landsins og fór þannig fram að eknir voru um 9 þúsund kílómetrar og mælingar gerðar samtímis. Hringd voru yfir 17 þúsund símtöl og yfir 160 þúsund gagnaprófanir voru gerðar. Þá var einnig kannað sérstaklega hver staðan væri í þremur helstu verslunarmiðstöðum landsins, Kringlunni, Smáralind og Glerártorgi en um hverja þeirra var  gengið  í nokkrar klukkustundir og mælingar gerðar. 

A map of iceland with blue lines

Description automatically generated
Á meðfylgjandi korti má sjá hvernig svæðunum var skipt upp, höfuðborgarsvæðið (gult) bæir (grænir) og þjóðvegir (bláir). 

Mælingaraðferðin sem notuð var er samræmd og stöðluð af European Telecommunications Standards Institute (ETSI) þar sem einkunn/stig eru gefin eftir niðurstöðu hvers þáttar sem mældur er og vægi hans í heildarniðurstöðu, annars vegar við mat á gæðum símtala og hins vegar gagnaflutnings. Við mælingarnar var líkt eftir dæmigerðri hegðun notenda á almenna farnetinu (símtölum, netvafri o.s.frv.).  

Gæðaprófun sem þessi veitir Fjarskiptastofu dýrmætt yfirlit á getu hvers farsímakerfis hér á landi auk þess að gera henni mögulegt að meta gæði allra farsímakerfanna út frá alþjóðlegum stöðlum og bera þau þannig saman við farsímakerfi erlendis sem prófuð hafa verið á sama hátt. 

Helstu niðurstöður sem beint snerta  upplifun viðskiptavina 

Símafyrirtækjunum, Síminn, Nova og Vodafone voru í lokin gefin heildareinkunn/stig á skalanum 0 – 1000, þar sem þúsund er hæsta einkunn, þegar allir þættir gæðaprófananna voru vegnir og teknir saman. Fyrirtækið sem hlaut hæstu heildareinkunnina fékk 742 stig en það sem fékk lægstu einkunnina fékk 712 stig, er niðurstaðan í samræmi við stöðuna hjá öðrum evrópskum fjarskiptafélögum. Fjöldi tæknilegra atriða var prófaður og var vægi þeirra mismunandi í heildareinkunninni. Fjarskiptafyrirtækin skiptust nokkuð á að koma best út í þessu atriðum og ekkert fyrirtækjanna var áberandi leiðandi í öllum atriðunum sem prófuð voru. 

Almennt stóðu fjarskiptafyrirtækin sig sérstaklega vel þegar kom að símtölum viðskiptavina þeirra á höfuðborgarsvæðinu, í bæjum og í verslunarmiðstöðvunum. Hins vegar geta þau bætt sig verulega á þjóðvegunum en þar áttu símtöl til að slitna, í undantekningartilfellum þó og í fáum tilvikum líka náðist ekki samband, helsta ástæðan fyrir þessu var vöntun á tengingu við farsímasendi.  

Þegar kemur að þeim tíma sem tekur að koma á tengingu og uppsetningu símtala þegar viðskiptavinir hringja þá eiga fyrirtækin það öll sameiginlegt að vera töluvert að baki því sem best gerist í  Evrópu. Þrátt fyrir að ástæða þessa sé ekki alveg sú sama á milli íslensku fyrirtækjanna er hér um tæknilega útfærslu að ræða sem fyrirtækin ættu öll að geta bætt hjá sér. 

Almennt voru talgæðin góð sem fjarskiptafyrirtækin buðu upp á í símtölum og þá sérstaklega hjá tveimur þeirra, sem nýta annars konar tækni en þriðja fjarskiptafyrirtækið. 

Meðalhraði netsambanda fjarskiptafyrirtækjanna þegar kom að niðurhali var  mjög góður hjá öllum þremur fjarskiptafyrirtækjunum á höfuðborgarsvæðinu og í bæjunum og ekki mikill munur á milli þeirra. Á þjóðvegunum hins vegar reyndist meðal niðurhalshraði netasambanda einungis um fjórðungur til þriðjungur þess sem hann var í þéttbýlinu og á það við öll fyrirtækin og skýringuna má leita m.a. í að þjóðvegirnir eru almennt ekki enn komnir með 5G senda. 

Meðalhraði netsambanda þegar kom að upphalshraða var góður og  sambærilegur milli fjarskiptafyrirtækjanna í þéttbýlinu og á þjóðvegum.  

Í verslunarmiðstöðvunum þremur var meðaltal niðurhalshraða netsambanda góður hjá tveimur af þremur fyrirtækjanna og sambærilegt við það sem er á höfuðborgarsvæðinu og í bæjunum, en eitt fyrirtækið reyndist með mun lakari niðurhalshraða sem og upphalshraða sem skýra má með vöntun þess á 5G sendum. 

Auk þessara þátta sem viðskiptavinir fjarskiptafyrirtækjanna finna beint fyrir þ.e. gæði símtala og gagnaflutnings voru mæld ýmis flókin tæknileg atriði sem áhrif hafa á þessi gæði þjónustunnar eins og t.d. ýmsar stillingar, uppsetningar kerfishluta o.fl.  

Gæðaprófanirnar hafa staðfest að íslensk fjarskiptafyrirtæki eru að standa sig ágætlega í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að farnetskerfinu og þá sérstaklega þegar tekið er tillit til þess hversu strjálbýlt landið er. 

Það er hins vegar rými til að gera betur og slík vinna er sífellt í gangi hjá fjarskiptafélögunum og þegar hafa einstaka úrbætur verið gerðar á grundvelli gæðaprófananna. Þá gerir Fjarskiptastofa ráð fyrir að þær ítarlegu upplýsingar úr gæðaprófunum Rohde & Schwarz, sem kynntar hafa verið fjarskiptafélögunum, muni auðvelda þeim að bæta þjónustustig sitt enn frekar. 

Unnið er að frekari greiningu á mælingunum úr gæðakönnuninni með fjarskiptafyrirtækjunum og Rohde & Schwarz og mun Fjarskiptastofa birta ítarlegri niðurstöður gæðamælinganna síðar. Fjarskiptastofa mun einnig halda áfram eigin gæðamælingum á árinu og birta niðurstöður þeirra reglulega. 

Frekari upplýsingar um þessa gæðakönnun veitir Þorleifur Jónasson sviðsstjóri Innviðasviðs hjá Fjarskiptastofu.