Hoppa yfir valmynd

Kærumáli um bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu vísað frá úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála

Fréttasafn
12. janúar 2024

Kærumáli um bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu vísað frá úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála

Með úrskurði í kærumáli úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála (ÚFP) nr. 1/2023 frá 20. desember 2023 var kæru Mílu hf. og Ljósleiðarans ehf. á ákvörðun Fjarskiptastofu (FST) nr. 9/2023 til bráðabirgða vísað frá. Var það gert á þeim forsendum að um væri að ræða bráðabirgðaákvörðun í stjórnsýslumáli sem enn væri ólokið með endanlegri stjórnvaldsákvörðun. Að áliti ÚFP er slík ákvörðun ekki kæranleg nema í undantekningartilvikum, þegar nauðsynlegt þykir fyrir áframhaldandi meðferð máls sem til meðferðar hjá stjórnvaldi. Við mat á því hvort nauðsynlegt sé að taka hina kærðu bráðabirgðaákvörðun til umfjöllunar telur ÚFP að m.a. verði að líta til lögmætis hennar, hvort gætt hafi verið að meðalhófi og hvort slíkar röksemdir hafi verið færðar fram þannig að nauðsyn sé fyrir frekari málsmeðferð.

Aðdragandi þessa kærumáls á sér nokkra sögu. FST lauk markaðsgreiningu á heimtauga- og bitastraumsmörkuðum (3a og 3b) með ákvörðun FST nr. 5/2021 í október 2021, sem leysti af hólmi eldri greiningu á viðkomandi mörkuðum frá 2014. Skömmu eftir að ákvörðunin var tekin tilkynnti Síminn um að félagið ætlaði að selja Mílu til franska fjárstýringarfyrirtækisins Ardian, en því ferli lauk ekki formlega fyrr en með samþykkt Samkeppniseftirlitsins á samruna Ardian og Mílu um miðjan september  2022. Meðal annars vegna þessara breytinga á eignarhaldi félagsins kærðu Míla og Síminn ákvörðun FST frá 2021. Úrskurður ÚFP féll þann 29. desember 2022. Felldi ÚFP þá niður þær kvaðir sem tengdust því að Síminn og Míla hafi verið lóðrétt samþætt fyrirtæki, eins og þau voru þegar ákvörðun FST var tekin, auk þess að fella niður útnefningu Símans sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk, en að öðru leyti hróflaði nefndin ekki við greiningunni, þ.m.t. skilgreiningu þjónustumarkaða, skilgreiningu landfræðilegra markaða (þá einn landfræðilegur markaður með mismunandi kvöðum eftir svæðum), mat á samkeppnisstöðunni og útnefningu Mílu sem SMP aðila. Nefndin markaði úrskurði sínum gildistíma til 15. september 2023 og lagði fyrir FST að ljúka nýrri greiningu á umræddum mörkuðum fyrir þann tíma.    

FST hóf nýja greiningu af fullum krafti strax í byrjun janúar 2023. Þegar á leið kom í ljós að FST yrði ekki unnt að ljúka nýrri greiningu innan þessara tímamarka, með tilheyrandi innanlandssamráði, sumarfríum og samráði við ESA. Nýja greiningin er mjög flókin og viðamikil, þar sem m.a. varð snemma ljóst að meta þurfti staðgöngu milli fastaneta og farneta, auk þess að afmarka fjölda landfræðilegra markaða, með tilheyrandi SMP mati á þeim á hvorum markaði. Að lokum varð það niðurstaða samráðsskjals FST sem birt var þann 15. september 2023, eftir ítarlega rannsókn, að landfræðilegir markaðir hvors heildsölumarkaðar um sig yrðu um 40 eða samtals um 80 landfræðilegir markaðir. Ljóst er að slík greining er gríðarlega umfangsmikil, tímafrek og flókin.  

Um það leyti sem stærsti hluti markaðsgreiningarnar var tilbúinn til innanlandssamráðs um miðjan september sl. (allt nema kvaðirnar), og tímafrestur sem ÚFP hafði sett FST var að renna út, var orðið ljóst að Míla liti svo á að félagið myndi losna undan öllum kvöðum frá 15. september 2023, þar til endanleg ákvörðun FST liti dagsins ljós, sem þá leit út fyrir að gæti verið í byrjun mars á þessu ári. Því taldi FST nauðsynlegt að taka umrædda bráðabirgðaákvörðun nr. 9/2023 til að koma í veg fyrir réttaróvissu á markaðnum. Í ákvörðuninni lagði FST því á Mílu sömu kvaðir og giltu á félaginu skv. úrskurði ÚFP frá 29. desember 2022. Í bráðabirgðaákvörðuninni ákvað FST einnig að láta hæfilegan aðlögunarfrest, við niðurfellingu kvaða á Mílu á fjölmörgum landfræðilegum mörkuðum (þar sem um 80% landsmanna búa), hefjast.

Eins og fyrr segir kærðu bæði Míla hf. og Ljósleiðarinn ehf. bráðabirgðaákvörðun FST, en þó út frá mismunandi forsendum. Með úrskurði ÚFP liggur nú fyrir að bráðabirgðarákvörðunin var ekki kæranleg og stendur hún því óhögguð til 1. mars 2023 eða þar til endanleg ákvörðun FST um niðurstöðu markaðgreiningarinnar liggur fyrir og leysir hana af hólmi.  

Úrskurður ÚFP 1/2023 (pdf)