Hoppa yfir valmynd

Samráð um endurútgáfu og ný skilyrði tíðniheimilda fyrir háhraða farnetsþjónustu

Fréttasafn
09. desember 2022

Samráð um endurútgáfu og ný skilyrði tíðniheimilda fyrir háhraða farnetsþjónustu

Í júní 2021 efndi Fjarskiptastofa (FST) til samráðs um endurskipulagningu tíðniúthlutana 2022-2023. Í samráðsskjali stofnunarinnar var lýst áformum um að endurnýja tíðniheimildir þriggja fyrirtækja, Nova, Símans og Sýnar, til áframhaldandi notkunar við rekstur farneta, til næstu 20 ára.

Að loknu samráði 2021 hófst vinna Fjarskiptastofu við nánari útfærslu á þeim skilyrðum sem boðuð höfðu verið. Þau drög sem nú eru lögð fram til samráðs fela í sér mótaðar hugmyndir um öll þau skilyrði sem áformað er að setja við endurútgáfu tíðniheimildanna. Áform Fjarskiptastofu fela í sér að skilyrði tíðniheimilda verða endurskoðuð og ný og breytt skilyrði verða sett fram.

Helstu nýmæli sem ráðgerð eru í skilyrðum tíðniheimilda varða útbreiðslu, hraða og gæðakröfur.  Í fyrsta lagi eru ákveðin almenn útbreiðsluskilyrði sem kveða á um að háhraða farnetsþjónusta skuli ná til ákveðins hlutfalls heimila og vinnustaða landsins með tilteknum hraðakröfum sem aukast með tímanum. Í öðru lagi er skylda til að byggja upp háhraða farnet sem nær til allra stofnvega með tilteknum hraða. Áform Fjarskiptastofu lúta að því að uppbyggingarkröfum á stofnvegum verði skipt á milli tíðnirétthafa og að fjarskiptainnviðir sem byggðir verða upp skv. þessum kröfum verði samnýttir.

Þeim sem telja sig hafa hagsmuna að gæta er hér með boðið að koma á framfæri athugasemdum við drög að tíðniheimildum og sjónarmiðum varðandi verkefnið í heild sinni. Sjá nánari leiðbeiningar um gerð umsagna í 7. kafla meðfylgjandi samráðsskjals.

Frestur til að skila umsögn í samráðinu er til og með 9. janúar 2023.

Samráðsskjal

Drög að tíðniheimild

Viðauki I: Hátternisreglur

Kostnaðaráætlun Mannvits