Hoppa yfir valmynd

Samráð um endurútgáfu og ný skilyrði tíðniheimilda fyrir háhraða farnetsþjónustu – framlengdur skilafrestur

Fréttasafn
10. janúar 2023

Samráð um endurútgáfu og ný skilyrði tíðniheimilda fyrir háhraða farnetsþjónustu – framlengdur skilafrestur

Þann 9. desember 2022 efndi Fjarskiptastofa til samráðs um endurútgáfu og ný skilyrði tíðniheimilda fyrir háhraða farnetsþjónustu.

Í samráðsskjalinu kom m.a. fram að þau fyrirtæki sem hlut eiga að máli væru að vinna að gerð verkáætlunar sem ætlað væri að vera viðauki með tíðniheimildum. Verkáætluninni er ætlað að endurspegla kröfur um sértæka uppbyggingu og skipta verkþáttum á milli tíðnirétthafa. Vinnuhópur umræddra fyrirtækja hefur lagt fram drög að verkáætlun og er hún nú lögð fram sem hluti af yfirstandandi samráði.

Fjarskiptastofa tekur fram að með framlagningu draga að verkáætlun er verið að leita eftir sjónarmiðum um innihald hennar. Drögin eru framlag vinnuhóps viðkomandi fjarskiptafélaga og felur framlagning þeirra til samráðs ekki í sér að Fjarskiptastofa samþykki innihald draganna eins og þau liggja fyrir. Ljóst er að vinna þarf verkáætlunina frekar með tilliti til þeirra athugasemda sem koma fram í samráðinu og Fjarskiptastofa áskilur sér allan rétt til þess að setja fram breytingatillögur að eigin frumkvæði síðar í ferlinu.

Þeir aðilar sem telja sig hafa hagsmuna að gæta eru hvattir til þess að kynna sér efni verkáætlunarinnar og skoða það í samhengi við þau skjöl sem lögð voru fram 9. desember sl.

Á samráðstímanum hafa Fjarskiptastofu borist spurningar um gjöld fyrir endurútgáfu tíðniheimilda. Af því tilefni skal það áréttað að um innheimtu gjalda fyrir endurútgáfu þessara tíðniheimilda fer samkvæmt bráðabirgðaákvæði III í lögum um fjarskipti nr. 70/2022:

  a.  3.500.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 880–915 og 925–960 MHz-tíðnisviðunum,
  b.  1.000.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 1710–1785/1805–1880 MHz og 1920–1980/2110–2170 MHz-tíðnisviðunum,
  c.     350.000 kr. fyrir hvert úthlutað MHz af tíðnisviði á 3,4–3,8 GHz-tíðnisviðinu.

Gjöldin eru miðuð við að tíðniheimildir gildi í 20 ár. Gjaldið greiðist í fjarskiptasjóð. Gjaldtaka þessi er algjörlega óháð þeim kostnaði sem mun falla á fjarskiptafyrirtæki við að uppfylla  útbreiðslukröfur sem koma til með að fylgja tíðniheimildum og lögin heimila ekki að afsláttur sé veittur af gjöldunum.

Vegna framlagningar ofangreindrar verkáætlunar í dag, hefur Fjarskiptastofa ákveðið að framlengja umsagnarfrest í samráði þessu til 16. janúar nk.

Drög að verkáætlun