Hoppa yfir valmynd

Reglur um númeraflutning

Fréttasafn
24. ágúst 2000

Reglur um númeraflutning

Póst- og fjarskiptastofnun hefur samið reglur um númeraflutning og taka þær gildi þegar þær hafa öðlast birtingu í Stjórnartíðindum.
Helstu atriðin eru eftirfarandi:
1. Frá 15. september 2000 verður mögulegt fyrir símanotendur í fastanetum að flytja með sér símanúmer sín þegar þeir færa viðskipti sín frá einu símafyrirtæki til annars.
2. Frá 15. febrúar 2001 skulu notendur eiga þess kost að flytja númer sín milli númerasvæða. Sama á að gilda skipti notandi um þjónustu hjá símafyrirtæki t.d. úr venjulegum talsíma í samnet.
3. Frá 1. júní 2001 skulu notendur í farsímanetum eiga þess kost að flytja með sér númer sín þegar þeir skipta um þjónustuveitanda.
 
Símanotendur geta haft samband við símafyrirtækið sem þeir óska að eiga viðskipti við og pantað númeraflutning. Pöntunin má vera skrifleg, munnleg eða á rafrænu formi. Símafyrirtækin sem hlut eiga að máli munu ákveða hvenær númeraflutningur geti átt sér stað en stefnt er að því að svo verði innan 10 vinnudaga frá pöntun.
Númeraflutningi fylgir ákveðinn kostnaður vegna umskráningar og er notendum sem vilja skipta um símafyrirtæki bent á að kynna sér hvort nýja fyrirtækið taki á sig kostnaðinn eða hvort notandinn verður ábyrgur fyrir honum. Ekki er leyfilegt að innheimta kostnað sem hefði hvort sem er hlotist við það að áskrifandinn segir upp þjónustu hjá gamla fyrirtækinu.
Samgönguráðherra fól Póst- og fjarskiptastofnun í september 1999 að setja reglur um númeraflutning. Stofnunin bauð fjarskiptafyrirtækjunum þátttöku í vinnuhóp til að undirbúa reglurnar og hafa verið haldnir 19 fundir í vinnuhópnum. Auk þess að fjalla um númeraflutning aðstoðaði vinnuhópur við gerð reglna um forval og fast forval sem settar voru 1. apríl 2000.

Fréttatilkynning 24.ágúst.2000