Hoppa yfir valmynd

Verklagsferill fyrir heimtaugaleigu og hýsingu

Fréttasafn
02. janúar 2001

Verklagsferill fyrir heimtaugaleigu og hýsingu

Vinnuhópur, sem Póst- og fjarskiptastofnun kom á fót í ágúst 2000 með þátttöku fjarskiptafyrirtækja sem talin voru eiga hagsmuna að gæta, hefur náð samkomulagi um verklag fyrir heimtaugaleigu. Heimtaugar eru koparsímalínur sem tengja notendur við næstu símstöð. Slíkar línur hafa nær undantekningarlaust verið lagðar af Landssíma Íslands hf.

Samkvæmt verklagsreglunum geta fjarskiptafyrirtæki sem ekki eiga hagkvæman kost á eigin heimtaugum leigt þær af Landssíma Íslands hf. annað hvort til að veita talsímaþjónustu eða gagnaflutningsþjónustu eins og ADSL. Jafnframt gera reglurnar ráð fyrir að Landssími Íslands hf. leigi fjarskiptafyrirtækjunum aðstöðu fyrir símabúnað þeirra í símstöðvum þar sem því verður við komið en að öðrum kosti koma fjarskiptafyrirtækin sér fyrir í nágrenni símstöðvar.

Litið er á heimtaugaleigu sem mikilvægan áfanga í að koma á samkeppni á fjarskiptamarkaðinum og jafna aðstöðumun fyrirtækjanna. Reglur um heimtaugaleigu hafa verið í gildi í nokkrum löndum Vestur-Evrópu en munu taka gildi í flestum öðrum um þessi áramót.

Símnotendur geta nú pantað talsímaþjónustu og/eða ADSL gagnaflutningsþjónustu hjá fleirum en einu fyrirtæki. Símnotendur gera samning við fjarskiptafyrirtæki um þjónustu sem þeir vilja þiggja hjá fyrirtækinu og það sendir umsókn um leigu á heimtaug símnotandans til Landssíma Íslands hf. Afhending heimtaugar skal eiga sér stað eigi síðar en 20 dögum eftir móttöku umsóknar fjarskiptafyrirtækisins.

Undir verklagsreglurnar hafa skrifað Hringiðan ehf., Íslandssími hf. og Landssími Íslands hf. ásamt Póst- og fjarskiptastofnun. Öðrum fjarskiptafyrirtækjum er heimill aðgangur að samkomulaginu.

Póst- og fjarskiptastofnun kann þakkir þeim fyrirtækjum sem tekið hafa þátt í störfum vinnuhópsins og lagt sitt af mörkum til að auka samkeppni á fjarskiptamarkaðinum.