Hoppa yfir valmynd

Íslandssími ehf fær leyfi til að reka farsímaþjónustu og fjarskiptanet

Fréttasafn
14. febrúar 2001

Íslandssími ehf fær leyfi til að reka farsímaþjónustu og fjarskiptanet

Póst- og fjarskiptastofnun hefur í dag veitt Íslandssíma GSM ehf. leyfi til að reka GSM 900 fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet. Leyfið er veitt til 10 ára. Fyrir leyfið skal greiða sérstakt leyfisgjald sem ákveðið var með lögum nr. 152/2000 og nemur kr. 16,6 milljónum. Leyfisgjaldið rennur til ríkissjóðs. Landssími Íslands hf. og Tal hf. greiddu árið 1997 samsvarandi upphæð fyrir leyfi sín.

Íslandssími GSM ehf. fékk á síðasta ári leyfi til að reka DCS 1800 farsímakerfi og þjónustu sem opnuð verður almenningi eftir næstu mánaðarmót.

Í nýja leyfinu eru sérstök ákvæði um útbreiðslu kerfis og þjónustu. Íslandssími GSM ehf. skal innan 4 ára hafa byggt dreifikerfi sem gerir honum kleift að þjóna a.m.k. 80% þjóðarinnar miðað við fastan búsetustað. Ekki er samt gerð krafa um að Íslandssími GSM ehf. bjóði bæði GSM 900 og DCS 1800 þjónustu á sama svæðinu. Til þjónustusvæðis leyfishafa verða innan 4 ára að teljast a.m.k. 15 sveitarfélög utan Reykjavíkur sem hafa 1000 íbúa eða fleiri. Allir íbúar í þessum sveitarfélögum skulu njóta sambærilegrar þjónustu.

Póst- og fjarskiptastofnun auglýsti eftir umsóknum um eitt GSM 900 farsímaleyfi í ágúst 2000 og var umsóknarfrestur til 15. desember 2000. Aðeins ein gild umsókn barst.