Fjarskiptastofa áréttar að IP net Mílu er undir kvöðum
Fjarskiptastofa áréttar að IP net Mílu er undir kvöðum
Fjarskiptastofa hefur áréttað við Mílu að kvaðir samkvæmt ákvörðunum stofnunarinnar um heildsölumarkaði leigulína frá 2014 og 2015 gildi varðandi IP net (IP-MPLS kerfi) Mílu. Þar af leiðandi þarf Míla að uppfæra gildandi viðmiðunartilboð sitt fyrir leigulínur m.t.t. slíkrar þjónustu og skila Fjarskiptastofu kostnaðargreiningu varðandi verð fyrir þá þjónustu eigi síðar en 14. febrúar nk. Uppfært viðmiðunartilboð og kostnaðargreind verð taka ekki gildi fyrr en Fjarskiptastofa hefur samþykkt þau með formlegri ákvörðun, að undangengnu innanlandssamráði og samráði við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).
Til að tryggja jafnræði milli Símans og keppninauta þess félags, skal Míla bjóða öðrum áhugasömum fjarskiptafyrirtækjum sambærilega þjónustu með sömu skilmálum og kjörum og Síminn hefur notið frá 1. janúar 2021. Um bráðabirgðaverð er að ræða þar til Fjarskiptastofa hefur tekið lokaákvörðun um verðin. Þegar ákvörðun Fjarskiptastofu liggur fyrir skal bráðabirgðaverðið leiðrétt gagnvart Símanum og öðrum fjarskiptafyrirtækjum sem kunna að hafa fengið slíkan aðgang aftur til 1. janúar 2021.
Í bréfi til Mílu, dags. 16. desember sl., áréttaði Fjarskiptastofa að þjónusta félagsins á IP neti (IP-MPLS) sé undir kvöðum á heildsölumörkuðum leigulína, sbr. ákvarðanir PFS nr. 8/2014 (lúkningarhluti leigulína) og 21/2015 (stofnlínuhluti leigulína). Um er að ræða kvaðir um aðgang, jafnræði, gagnsæi, bókhaldslegan aðskilnað, eftirlit með gjaldskrá og færslu kostnaðarbókhalds.
Leigulínur eru mikilvæg aðföng fyrir fjarskiptafyrirtæki svo þau geti byggt upp fjarskiptanet sín og/eða veitt endanotendum (heimilum og fyrirtækjum) hina ýmsu fjarskiptaþjónustu. Leigulínur sem liggja um land allt milli símstöðva eða hnútpunkta kallast stofnlínur og leigulínur sem liggja frá símstöðvum/hnútpunktum til endanotenda eða í farsímasenda kallast lúkning leigulína. Skilgreining á leigulínu er fjarskiptaaðstaða sem gefur kost á gagnsærri flutningsgetu milli nettengipunkta sem felur ekki í sér skiptingu lína að ósk kaupanda (annars fjarskiptafyrirtækis).
Á heimasíðu Mílu kemur fram að IP net félagsins sé fullkomið fjarskiptanet, hannað til að veita hraða og örugga þjónustu til allra þéttbýlisstaða á landinu sem uppfyllir kröfur nútíma fjarskipta á hverjum tíma. IP netið samanstæði af 56 hnútpunktum dreifðum um allt land. Skráð fjarskiptafyrirtæki gætu keypt IP þjónustu í heildsölu hjá Mílu og nýtt hana til tengingar á eigin þjónustu, svo sem Interneti, talsíma (VoIP), sjónvarpi (IPTV) og farsímasendum, bæði til heimila og fyrirtækja. Með möguleika á forgangsröðun umferðar mætti stýra hvaða samskipti mættu ekki verða fyrir töfum og veita þeim forgang fram yfir önnur samskipti. Með einkanetum mætti tengja saman starfsstöðvar fyrirtækja og útibú við höfuðstöðvar, fyrirtæki til samstarfsaðila og fyrirtæki til þjónustuaðila eða samtengingu við hýsingaraðila. Verðskrá Mílu var sögð í vinnslu.
Með ákvörðun PFS nr. 20/2007 útnefndi stofnunin bæði Símann og Mílu með umtalsverðan markaðsstyrk og lagði viðeigandi kvaðir á bæði félögin. IP-MPLS kerfið var m.a. hjá Símanum á þeim tíma. Kostnaðargreind verð Símans fyrir umrædda þjónustu voru samþykkt af PFS á árinu 2011. Með sátt Símasamstæðunnar við Samkeppniseftirlitið 2013, sem uppfærð var 2015, fluttist öll heildsala samstæðunnar fyrir leigulínur til Mílu. Sáttin gerði ráð fyrir því að Síminn héldi þáverandi IP-MPLS kerfi sínu, en var gert skylt að veita Mílu aðgang að því kerfi meðan Míla byggði upp sambærilegt IP-MPLS kerfi til þess að bjóða heildsölu á xDSL og GPON þjónustu og var Mílu veittur eins árs frestur til að byggja upp eigið IP-MPLS kerfi. Það gerði Míla ekki heldur byggði upp MPLS-TP kerfi sem er ekki sambærilegt við IP-MPLS nema að hluta til. Með ofangreindum ákvörðunum PFS nr. 8/2014 og 21/2015 útnefndi PFS Mílu eitt fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk á viðkomandi leigulínumörkuðum og lagði viðeigandi kvaðir á félagið. Þar kom skýrt fram að IP-MPLS kerfi heyrðu undir þá markaði. Síminn var hins vegar ekki útnefndur áfram sem aðili með umtalsverðan markaðsstyrk og kvaðir voru felldar niður á það félag, þar sem félagið starfaði ekki lengur á heildsölumarkaði nema að takmörkuðu leyti.
Þann 1. janúar 2021 var umrætt IP-MPLS kerfi flutt frá Símanum til Mílu. Frá þeim tíma hefur Míla veitt Símanum þjónustu um umrætt IP net í heildsölu.
Fjarskiptastofa hafði orðið þess áskynja að Síminn og Míla litu svo á að umrætt IP kerfi væri ekki undir kvöðum. Þann 3. nóvember sl. sendi Fjarskiptastofa Mílu fyrirspurn og spurði hvort félagið liti svo á að umrædd þjónusta væri undanþegin kvöðum og ef svo væri þyrfti félagið að rökstyðja þá afstöðu. Í svari félagsins, dags. 25. nóvember sl., kom fram að félagið teldi að umrædd þjónusta væri ekki undir kvöðum samkvæmt framangreindum ákvörðunum. Byggði Míla fyrst og fremst á því að ekki væri um „tryggða“ bandvídd að ræða. Fjarskiptastofa er þessu ekki sammála, þar sem gildandi skilgreining á leigulínu gerir ekki slíka kröfu. Auk þess benti Fjarskiptastofa á að staðganga væri á milli hefðbundinna leigulína og samskiptareglna á borð við IP-MPLS.
Þessi afstaða stofnunarinnar hefur verið staðfest af úrskurðarnefnd í fyrri ákvörðunum.
Árétting Fjarskiptastofu til Mílu varðandi IP-MPLS þjónustu.pdf