Hoppa yfir valmynd

Niðurstaða tíðnisamráðs – Endurnýjun tíðniheimilda og áformaðar kvaðir um útbreiðslu á háhraða farnetsþjónustu

Fréttasafn
09. desember 2021

Niðurstaða tíðnisamráðs – Endurnýjun tíðniheimilda og áformaðar kvaðir um útbreiðslu á háhraða farnetsþjónustu

Mynd með frétt

Almennt, tímabundin endurnýjun og tilefni endurskoðunar á skilmálum tíðniheimilda

Síðastliðið sumar efndi Fjarskiptastofa til opins samráðs um þær tíðniheimildir fyrir almenna farnetsþjónustu sem renna út á mismunandi tímum á árabilinu 2022-2023. Þegar ný fjarskiptalög hafa verið afgreidd á Alþingi er ætlunin að endurnýja velflest þessi tíðniréttindi til tuttugu ára. Meginniðurstaða samráðsins nú er að stíga milliskref og framlengja flest réttindin til skamms tíma eða til 31. mars 2023. Með því er m.a. verið að samræma gildistíma allra þessara tíðniréttinda sem er mikilvægt út frá skipulagi tíðnirófsins.

Vegna mikilvægis háhraða farnetsþjónustu fyrir samfélagið á komandi árum og áratugum er brýnt að búa svo um hnútana að allir notendur hafi aðgang að henni og að landfræðileg útbreiðsla þjónustunnar verði eins mikil og mögulegt er, þ.e. að hún nái a.m.k. til fjölfarinna landsvæði utan byggðar, s.s. á helstu stofnvegum landsins og vinsælum ferðmannastöðum.

Fjarskiptastofa telur að við endurnýjun heimilda til hagnýtingar á verðmætum tíðniauðlindum til langs tíma þurfi að endurskoða skilmála tíðniheimildanna og gera kröfur til áframhaldandi uppbyggingu háhraðaneta, útbreiðslu þjónustu og gæða hennar. Í samráðinu voru fyrirætlanir stofnunarinnar í þessum efnum kynntar markaðsaðilum og öðrum viðeigandi hagaðilum.

Endurýjaðar skuldbindingar um uppbyggingu

Í stutt máli má segja að Fjarskiptastofa ætli að gera kröfu til þess að almenn útbreiðsla á 5G þjónustu verði ekki lakari, þegar upp verður staðið, en gildir um farnetsþjónustur samkvæmt ríkjandi og eldri tækni. Einnig að miða gæði þjónustunnar við skilgreindar kröfur sem samtök evrópskra fjarskiptaeftirlitsstofnana (BEREC) hafa mótað. Stofnunin hefur einnig í hyggju að mæla fyrir um sértækar uppbyggingarkröfur. Annars vegar um að koma á 100% slitlausri háhraða farnetsþjónustu á stofnvegum landsins og hins vegar að hraða uppbygginu á 5G þjónustu í litlum og meðalstórum byggðakjörnum. Fjarskiptastofa hefur látið kostnaðarmeta fyrri kröfuna og birtir nú matið samhliða niðurstöðu samráðsins. Tekið skal fram að kostnaður við framkvæmdina er mismunandi eftir því hvaða sviðsmyndir eru skoðaðar.

Í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga er að finna lagaákvæði sem mynda grundvöll fyrir framangreindar forsendur, þ.e. um fyrirsjáanleika tíðniúthlutana til langs tíma og heimildir fjarskiptafyrirtækja til samstarfs og kvaðir sem Fjarskiptastofa getur lagt á þar að lútandi. Umræddar kvaðir hafa ekki verið mótaðar ennþá, t.d. hvað varðar uppbyggingarhraða og þá umgjörð sem verður búin um samstarf fjarskiptafyrirtækjanna til að takast á hendur þessa víðtæku uppbyggingu.

Almennt má segja að tíðnirétthafar hafi tekið vel í hugmyndir Fjarskiptastofu um uppbygginu á háhraða farnetsþjónustu til næstu ára. Hins vegar er eðlilegt að þeir geri fyrirvara um að hafa skoðun á því hvernig útfærslunni verður háttað, en hún liggur ekki fyrir á þessu stigi. Fjarskiptastofa stefnir að því að viðhafa sérstakt samráð við tíðnirétthafa um framangreind uppbyggingaráform næsta sumar.

Tíðniafnot fyrir neyðarfjarskipti og sjónarmið um þjóðaröryggi

Í samráðinu var einnig fjallað um þarfir neyðarfjarskipta, en tíðniheimild Öryggisfjarskipta ohf. fyrir TETRA á 400 MHz tíðnisviðinu rennur út nú um áramótin. Miðað við upplýsingar frá Neyðarlínunni ohf. um fyrirséð rekstrarumhverfi til næstu ára var það niðurstaðan að endurnýja þessa tíðniheimild til fimmtán ára með óbreyttum skilmálum. Í umsögn Neyðarlínunnar ohf. og þeirra ráðuneyta sem hafa umsjón með fjarskiptum, löggæslu og þjóðaröryggi var á hinn bóginn fjallað um þarfir neyðarfjarskipta í víðara samhengi og m.a. með tilliti til þjóðaröryggis. Er það álit þessara aðila að nægjanlegt öryggi þessar þjónustu til framtíðar litið sé ekki tryggt með því að úthluta tíðniheimild á 700 MHz tíðnisviðinu til almenns farnetsrekanda með forgang fyrir neyðarfjarskipti, eins og Fjarskiptastofa hafði í hyggju. Tíðnisvið fyrir neyðarfjarskipti þurfi að vera á forræði íslenska ríkisins eða aðila í eigu þess. Fjarskiptastofa telur eðlilegt að taka mið af þessum sjónarmiðum, enda er 700 MHz tíðnisviðið sérstaklega samræmt innan EES-svæðisins til að sinna neyðarfjarskiptum. Fjarskiptastofa ráðgerir því að efna til annars samráðs um fyrirhugaða úthlutun á 2x10 MHz tíðniheimild á 700 MHz tíðnisviðinu til Öryggisfjarskipta ohf. fyrir neyðarfjarskiptaþjónustu með kvöð um víkjandi forgang og samnýtingu tíðnisviðsins með fjarskiptafyrirtækjum sem veita almenna fjarskiptaþjónustu.

Útfösun á eldri farnetstækni og ráðstafanir því tengdu

Nú er svo komið að fljótlega er tímabært að hætta rekstri á eldri farnetstækni. Hér er átt við GSM og 3G þjónustu. Það er óhagkvæmt og ekki í samræmi við umhverfissjónarmið að halda úti og reka mörg farnetskerfi m.a. með kerfum sem ekki uppfylla þarfir nútímans. Samt sem áður þarf að meta sértækar þjónustuþarfir fyrir eldri tækni og grípa til viðeigandi mótvægisaðgerða, ef þörf er á. Miðað við umsagnir markaðsaðila þarf að gera tilteknar ráðstafanir í tíðnimálum vegna þessa. Niðurstaða Fjarskiptastofu um þetta hefur m.a. að geyma ákveðna málamiðlunartillögu sem ætlunin er að hrinda í framkvæmd.

Niðurstöður samráðs og birting gagna

Hægt er að kynna sér forsendur Fjarskiptastofu fyrir endurnýjun tíðniheimilda til næstu ára og athugasemdir hagaðila við þær í skjölunum hér fyrir neðan.