Salan á Mílu og hlutverk Fjarskiptastofu
Salan á Mílu og hlutverk Fjarskiptastofu
Á fréttasíðu Innherja á Vísi þann 6. apríl 2022 birtist viðtal við forstjóra Símans hf. sem skilja má með þeim hætti að Fjarskiptastofa væri að torvelda sölu félagsins á Mílu ehf. sem nú er til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Ekki var leitað sjónarmiða Fjarskiptastofu áður en viðtalið var birt og telur hún því rétt að gera grein fyrir eftirfarandi.
Lóðrétt samþætting heildsölu- og smásöluþjónustu innan sama fyrirtækis eða samstæðu, sem býr yfir umtalsverðum markaðsstyrk, hefur almennt verið talin fela í sér hættu á samkeppnishindrunum eða skekktri samkeppnistöðu fyrirtækja á tengdum markaði. Þetta á einnig við á fjarskiptamarkaði þar sem fyrirtæki innan Símasamstæðunnar hafa þurft að gæta sín sérstaklega á því að haga markaðsaðgerðum sínum innan ramma laganna vegna markaðsstöðu sinnar. Það hefur ekki alltaf tekist sem skyldi og nægir þar að vísa í þau fjölmörgu brotamál sem Samkeppniseftirlitið hefur haft til úrlausnar á fjarskiptamarkaði á umliðnum árum. Hefur Símasamstæðan einnig gert sátt við Samkeppniseftirlitið um lok mála sem varðar m.a. umrædda samþættingu samstæðunnar í þeim tilgangi að draga úr skaðlegum samkeppnislegum áhrifum hennar. Með sama hætti hafa fjölmargar ákvarðanir Fjarskiptastofu fjallað um hegðun Símasamstæðunnar á markaði. Það er eðlilegt og rökrétt að fyrrum einkarétthafi og markaðsráðandi aðili við opnun markaðarins fyrir samkeppni sé andlag þess hluta regluverksins sem sérstaklega er ætlað að opna markaðinn fyrir samkeppni.
Nú hefur verið gerður samningur um sölu Mílu ehf. úr Símasamstæðunni og því útlit fyrir að hin fyrrnefnda lóðrétta samþætting gæti þar með mögulega verið úr sögunni. Þessi viðskipti eru álitin samruni í skilningi samkeppnislaga og er málið nú til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu. Þar sem að bæði Samkeppniseftirlitið og Fjarskiptastofa hafa sérgreindu hlutverki að gegna á fjarskiptamarkaði þá gera lög ráð fyrir að stofnanirnar tvær setji sér sameiginlegar reglur um meðferð og úrlausn fjarskiptamála. Í tilefni af samrunamálinu sem leiðir af sölunni á Mílu ehf. hefur Samkeppniseftirlitið nú virkjað 9. gr. reglnanna og óskað eftir aðkomu Fjarskiptastofu að því, m.a. með umsagnarbeiðni um hvort að samruninn kalli á ítarlegri málsmeðferð hjá Samkeppniseftirlitinu. Hefur Samkeppniseftirlitið einnig boðið öllum hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum að senda inn umsögn um samrunann með tilkynningu á heimasíðu sinni. Er málið á forræði Samkeppniseftirlitsins sem mun í samræmi við lögbundið hlutverk sitt meta möguleg samkeppnisleg áhrif samrunans út frá framangreindum umsögnum og gögnum málsins. Niðurstaða málsins hjá Samkeppniseftirlitinu getur verið sú að samruninn verði samþykktur óbreyttur, samruninn samþykktur með skilyrðum eða honum hafnað.
Almennt telur Fjarskiptastofa að sala Mílu ehf. út úr Símasamstæðunni geti haft jákvæð áhrif fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði. Hins vegar liggur fyrir af opinberri umfjöllun um viðskiptin að Síminn hf. og Míla ehf. hafi gert með sér ítarlegan þjónustusamning til langs tíma. Samningsbundið samstarf fyrirtækjanna ræður miklu um hvort að í reynd sé dregið úr neikvæðum áhrifum af lóðréttri samþættingu í starfsemi félaganna tveggja þrátt fyrir breytt eignarhald á Mílu ehf. Í umsögn sinni til Samkeppniseftirlitsins fór Fjarskiptastofa yfir stöðuna á viðeigandi undirmörkuðum fjarskipta sem Míla starfar á, en IP-MPLS kerfi Mílu er að mati Fjarskiptastofu m.a. hluti af þeim mörkuðum. Lagði stofnunin mat á hvaða áhrif fyrirhugað samstarf fyrirtækjanna tveggja gæti haft á samkeppni og framþróun á fjarskiptamarkaði með hliðsjón af tilteknum ákvæðum samstarfssamningsins. Var í umsögninni því m.a. hvatt til þess að Samkeppniseftirlitið myndi skoða nánar tiltekin atriði í þjónustusamningnum að þessu leyti.
Þess ber að geta að í 6. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu kemur m.a. fram að stofnunin skuli stuðla að samkeppni á sviði fjarskipta með því m.a. að vinna gegn gegn röskun eða takmörkun á samkeppni á fjarskiptamarkaði og er framangreind umsögn stofnunarinnar liður í því hlutverki hennar.