Hoppa yfir valmynd

Vegna frétta frá Bandaríkjunum um að 5G hafi áhrif á hæðarmæla í flugvélum

Fréttasafn
03. janúar 2022

Vegna frétta frá Bandaríkjunum um að 5G hafi áhrif á hæðarmæla í flugvélum

Mynd með frétt

Undanfarið hafa birst fréttir um að stærstu flugfélög BNA hafi farið fram á að innleiðingu 5G þar í landi verði frestað vegna truflana á flughæðarmæla flugvéla frá 5G sendum. Fjarskiptastofa hefur verið að skoða þetta síðan seint á árinu 2020 og hefur m.a. verið í sambandi við Samgöngustofu, Isavia og fleiri aðila út af þessu.

Fjarskiptastofa tekur þátt í starfi Evrópskra fjarskiptaeftirlitsaðila (CEPT) og innan þess samstarfs hefur farið fram talsvert umfangsmikil vinna í einni af tækninefndum þeirra samtaka, ECC (WG PT1) sem hefur frá því vorið 2021 gert rannsóknir á þessu mögulega vandamáli. Meðal annars hafa prófanir verið gerðar í Noregi og Frakklandi en ekkert hefur komið fram í þeim um að hæðarmælar flugvéla í Evrópu verði fyrir truflunum en tíðnisvið sem notað er fyrir 5G í Evrópu er á 3.4 – 3.8 GHz. Rannsóknum er þó haldið áfram.

Framleiðendur hæðarmæla munu einnig vera að uppfæra tækin en þau tæki sem eru hugsanlega viðkvæm munu vera komin til ára sinna. Þorleifur Jónasson, sviðsstjóri innviðasviðs Fjarskiptastofu segir að stofnunin muni áfram fylgjast með framvindu mála og einnig munu áfram verða framkvæmdar reglulegar mælingar á því að útsendur styrkur 5G sendabúnaðar nálægt flugleiðum hér á landi sé innan þeirra marka sem tilgreindir eru í stöðlum og tilteknir í tíðniheimildum sem Fjarskiptastofa hefur gefið út.

Bandaríkin nota hærra tíðnisvið fyrir 5G en Evrópa og er það nær þeirri tíðni sem hæðarmælarnir nota (4.2 GHz), þess vegna er væntanlega meiri hætta á truflunum þar í landi en í Evrópu.

Nánari upplýsingar veita Þorleifur Jónasson, sviðsstjóri fjarskiptainnviðasviðs, netfang: thorleifur@fjarskiptastofa.is eða Hörður R. Harðarsson, sérfræðingur á fjarskiptainnviðasviði netfang: hordur@fjarskiptastofa.is.