Hoppa yfir valmynd

Ekki verið að afturkalla gildandi rekstrarleyfi Tals hf.

Fréttasafn
20. desember 2000

Ekki verið að afturkalla gildandi rekstrarleyfi Tals hf.

Með fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum í gær skýrði Póst- og fjarskiptastofnun frá umsóknum sem bárust eftir að auglýst var eftir umsóknum í þriðja farsímaleyfið í 900 MHz tíðnisviðinu. Umsóknarfrestur rann út 15. desember 2000 og bárust tvær umsóknir sem vísuðu til auglýsingarinnar, frá Íslandssíma ehf. og Tal hf.

Tekið var sérstaklega fram í fréttatilkynningunni í gær að tvö leyfi hefðu áður verið veitt fyrir GSM farsímarekstri í 900 MHz tíðnisviðinu og að leyfishafar væru Landssími Íslands hf. og Tal hf.  Þetta virðist hafa valdið þeim misskilningi hjá sumum að verið væri að afturkalla gildandi rekstrarleyfi Tals hf. Póst- og fjarskiptastofnun telur þess vegna rétt að staðfesta að rekstrarleyfi Tals hf. fyrir GSM farsíma í 900 MHz tíðnisviðinu sem upphaflega var gefið út 23. júlí 1997 er í fullu gildi og rennur ekki út fyrr en 31. desember 2007.