Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa úthlutar Öryggisfjarskiptum tíðniheimild á 700 MHz tíðnisviðinu fyrir háhraða neyðarfjarskiptanet

Fréttasafn
30. maí 2022

Fjarskiptastofa úthlutar Öryggisfjarskiptum tíðniheimild á 700 MHz tíðnisviðinu fyrir háhraða neyðarfjarskiptanet

Fjarskiptastofa hefur úthlutað Öryggisfjarskiptum ehf. tíðniheimild á 700 MHz tíðnisviðinu til notkunar í fyrirhuguðu háhraða neyðarfjarskiptaneti.

Öryggisfjarskipti ehf. er í eigu ríkisins og Neyðarlínunnar ohf. Fyrirtækið hefur áform um að hefja uppbyggingu háhraða farnets, sem byggt verður á nýjustu tæknilausnum, fyrir viðbragðs- og neyðaraðila. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í síðasta lagi í lok árs 2024. Kerfið mun bjóða upp á margfalda gagnaflutningsgetu miðað við núverandi neyðarfjarskiptakerfi, TETRA, sem verið hefur í notkun síðustu tvo áratugi. Kerfið mun t.d. gera mögulegt að streyma myndefni af vettvangi björgunaraðgerða til stjórnstöðvar.

Til þess að stuðla að sem bestri nýtingu á tíðnisviðinu, verður tíðnirétthafa gert að heimila öðrum farnetsrekendum að nýta umfram afkastagetu netsins, með því að veita aðgang með víkjandi forgangi að netinu og/eða tíðnisviðinu.

Sú kvöð fylgir jafnframt heimildinni, að rétthafa ber að taka jafnan þátt, með öðrum farnetsrekendum, í uppbyggingu háhraðaþjónustu á stofnvegum.

Tíðniheimild þessi er gefin út að undangengnu opnu samráði, sem fram fór í febrúar 2022. Í samráðinu voru kynnt áform Fjarskiptastofu um að gefa út tíðniheimildina og þau skilyrði sem henni áttu að fylgja. Engin andmæli bárust í samráðinu.

Slóð samráðs: https://www.fjarskiptastofa.is/fjarskiptastofa/tolfraedi-og-gagnasafn/frettasafn/frett/fr%C3%A9ttir/fyrirhugud-uthlutun-a-700-mhz-tidniheimild-til-oryggisfjarskipta-fyrir-hahrada-neydarfjarskiptanet

Tíðniheimild (PDF)