Hoppa yfir valmynd

Fyrsta íslenska skráning fjarskiptatíðna fyrir gervihnattakerfi

Fréttasafn
16. september 2021

Fyrsta íslenska skráning fjarskiptatíðna fyrir gervihnattakerfi

Mynd með frétt

Fjarskiptastofa hefur, í fyrsta sinn, sent skráningu á fjarskiptatíðnum fyrir gervihnattakerfi til Alþjóðafjarskiptasambandsins (ITU).

Tíðnirnar verða notaðar til fjarskipta milli jarðstöðva og gervitungla í eigu fyrirtækisins Lunasonde. Lunasonde mun starfrækja nokkur gervitungl sem nota nýja ratsjártækni til að taka myndir af jarðlögum undir yfirborði jarðar. Kerfinu er ætlað að kortleggja staðsetningu grunnvatns, steinefna og annarra jarðfræðilegra auðlinda á tveggja kílómetra dýpi að meðaltali, til að aðstoða við að fylgjast með og varðveita auðlindir fyrir allt mannkyn í samræmi við sjálfbær markmið Sameinuðu þjóðanna. Kerfið gæti einnig nýst til að spá fyrir um náttúruvá, t.d. með því að greina kvikusöfnun neðanjarðar. Höfuðstöðvar Lunasonde eru í Bandaríkjunum, en félagið hefur stofnað dótturfyrirtæki á Íslandi, Lunasonde Iceland ehf., sem sækir um skráninguna. Meira um Lunasonde: https://www.lunasonde.com/

Skráningar tíðna hjá ITU eru að meginstefnu afgreiddar eftir reglunni “fyrstur kemur, fyrstur fær”. Ekki er því um að ræða ráðstöfun á takmörkuðum tíðniréttindum sem tilheyra Íslandi sérstaklega. Skráning tíðna hjá ITU er forsenda þess að nota tíðnir í gervihnattafjarskiptum og er skráningakerfi ITU ætlað að koma í veg fyrir skaðlegar truflanir á milli kerfa. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setti reglugerð um skráningu gervihnattatíðna árið 2019: https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/srn/nr/21448

Skráningin er gerð í samstarfi við fyrirtækið IceSat ehf., en móðurfyrirtæki þess ManSat Ltd. hefur starfað á þessu sviði síðan árið 1998. ManSat gerði fimm ára samstarfssamning við Fjarskiptastofu árið 2019. Samningur þessi er þáttur í viðleitni stjórnvalda til þess að mynda tengsl við geimiðnaðinn og leita tækifæra í þessari sívaxandi atvinnugrein.