Hoppa yfir valmynd

Íslenskur fjarskiptamarkaður í tölum - Tölfræðiskýrsla Fjarskiptastofu fyrir fyrri hluta ársins 2021 komin út

Fréttasafn
29. nóvember 2021

Íslenskur fjarskiptamarkaður í tölum - Tölfræðiskýrsla Fjarskiptastofu fyrir fyrri hluta ársins 2021 komin út

Mynd með frétt

Tvisvar á ári safnar Fjarskiptastofa upplýsingum frá skráðum fjarskiptafyrirtækjum hér á landi um ýmsar stærðir í rekstri og þjónustu á sviði fjarskipta. Upp úr þeim tölum vinnur stofnunin tölfræðiskýrslur sem sýna upplýsingar um helstu stærðir og fyrirtæki á íslenskum fjarskiptamarkaði. Markmiðið er að bæta upplýsingagjöf og auka gagnsæi á þessum markaði og eru skýrslur stofnunarinnar í samræmi við þær skýrslur sem systurstofnanir Fjarskiptastofu í nágrannalöndum okkar gefa út.

Skýrslan sem nú er birt sýnir tölfræði um fjarskiptamarkaðinn á fyrri helmingi ársins  2021. Hún inniheldur tölulegar upplýsingar um helstu þætti á markaðnum og samanburð við stöðuna á árunum á undan. Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, föstum internettengingum og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði. 
Hægt er að skoða gögnin frá hinum ýmsu sjónarhornum á Gagnatorgi Fjarskiptastofu.
Gagnatorginu er skipt í 4 yfirflokka; farsímanet, breiðband, IPTV og fastanet og þar undir eru 9 flokkar sem hægt er að skoða útfrá t.d. tímabilum og þjónustuveitendum.

Meðal helstu tölulegu upplýsinga um fyrri hluta íslenska fjarskiptamarkaðarins árið 2021 má nefna:

  • Þróun fyrri ára innan talsíma heldur áfram þar sem bæði notendum og mínútum fækkar milli ára og er fækkun viðskiptavina og mínútna aðallega hjá heimilum en ekki fyrirtækjum. Áskrifendum að heimasíma fækkar um 8,5% milli ára og mínútum fækkar um 14,3%. Síminn og Vodafone eru stærstu fyrirtækin á markaði fyrir heimasíma með tæp 90% hlutdeild um mitt ár 2021.  
  • Heildarfjöldi farsímaáskrifta fjölgar lítillega milli ára. Fjölgun er í samningsbundnum áskriftum en fyrirfram greiddum áskriftum fækkar hins vegar. Fjöldi mínútna úr farsímum var um 552 millj. mínútna á tímabilinu en var á fyrri hluta ársins 2020 um 558 millj. mínútna og er fækkunin því um 1% milli ára þrátt fyrir fjölgun farsímaáskrifta. Fjarvinna vegna kórónuveirunnar er líkleg skýring á þessari fækkun milli ára en mínútum úr farsíma fjölgaði mjög mikið á fyrri hluta ársins 2020 vegna fjarvinnu. M2M kortum á farsímaneti fjölgaði mikið milli ára eða úr 58 þús. í tæp 300 þús. kort um mitt ár 2021 en þetta eru farsímakort þar sem tæki eru í sjálfvirkum samskiptum við önnur tæki sem á ensku kallast Machine-to-Machine eða M2M. 
    Gagnamagn á farsímaneti heldur áfram að aukast milli ára eða tæp 31% eins og undanfarin ár í tengslum við innleiðingu á 4G. Í farsímanetum er hlutfallslega meira gagnamagn notað í símum en í öðrum tækjum sem eru eingöngu fyrir gagnanotkun, t.d. spjaldtölvum eða 4G netbúnaði.  
  • Internettengingum fjölgar lítillega milli ára, en mikil aukning er í ljósleiðaratengingum samhliða fækkun í xDSL tengingum. Um mitt ár 2021 voru ljósleiðaratengingar tæp 72% allra internettenginga og fer fjöldi ljósleiðaratenginga nú í fyrsta sinn yfir 100.000 tengingar.
  • Heildargagnamagn á fastaneti jókst um tæp 17% milli ára og er um 88% gagnamagnsins vegna niðurhals en 12% vegna upphals.
  • Áskrifendur með sjónvarp yfir IPTV voru 88.289 um mitt ár 2021, en voru 89.248 árið á undan og hefur því fækkað um rúm 1% milli ára.
  • Velta á fjarskiptamarkaði jókst á fyrri hluta ársins 2021. Tekjur af heimasíma og fastaneti fóru lækkandi en tekjur af farsímarekstri, gagnaflutningi og internetþjónustu, sjónvarpsþjónustu og annarri fjölmiðlun farið hækkandi.
  • Fjárfesting á fjarskiptamarkaði er aðallega í fastaneti, m.a. vegna lagningar ljósleiðara og farsímarekstri.

 

Tölfræðiskýrslan í heild
Ásamt skýrslunni er birt Excel skjal með bakgrunnsupplýsingum skýrslunnar í töflum og myndum. Smelltu hér til að sjá töflu um helstu stærðir á fjarskiptamarkaði. Töfluna er einnig er að finna í skýrslunni sjálfri.