Hoppa yfir valmynd

Landsréttur staðfestir brot Símans á fjölmiðlalögum

Fréttasafn
30. júní 2022

Landsréttur staðfestir brot Símans á fjölmiðlalögum

Með dómi Landsréttar, dags. 24. júní sl., sýknaði dómurinn Fjarskiptastofu (FST) og Sýn hf. (Sýn) af öllum kröfum Símans hf. (Síminn) um að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) nr. 10/2018 yrði felld úr gildi eða að sekt Símans yrði a.m.k. lækkuð eða felld niður. Þann 1. júlí 2021 varð PFS að Fjarskiptastofu (FST). Í kjölfar ofangreinds dóms Landsréttar stendur umrædd ákvörðun PFS því að fullu.

Í ofangreindri ákvörðun PFS komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið gegn bannákvæði 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem leggur bann við því að fjölmiðlaveita beini viðskiptum viðskiptamanna sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki. Með stoð í 4. mgr. 54. gr. fjölmiðlalaga lagði PFS 9 milljóna króna stjórnvaldssekt á Símann sem greiða skyldi í ríkissjóð, en hámarksheimild er 10 milljónir króna.

Þann 1. október 2015 stöðvaði Síminn dreifingu ólínulegs myndefnis Sjónvarps Símans yfir kerfi Sýnar (þá Vodafone). Með ólínulegu myndefni er átt við það sem í daglegu tali er kallað spilun á myndefni eftir pöntun (VOD) s.s. tímaflakk, frelsi og leiga á myndefni. Síðan þá hefur viðskiptavinum sjónvarpsþjónustu Sýnar ekki staðið sú þjónusta til boða, eins og raunin var fyrir þann tíma. Þeir neytendur sem kusu að kaupa aðgang að ólínulegu sjónvarpsefni Símans (Sjónvarp Símans Premium), á þeim tíma sem ákvörðunin náði til, þurftu því að vera með myndlykil frá Símanum, þar sem viðkomandi efni var á tímabilinu eingöngu dreift yfir IPTV kerfi Símans og myndlykla þess félags. Áskrift að efninu var því eingöngu í boði gegnum dreifikerfi Símans og þá nær eingöngu á neti Mílu, dótturfélags Símans, en t.d. ekki á ljósleiðarakerfi Ljósleiðarans ehf. (áður Gagnaveita Reykjavíkur ehf.). 

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að framangreindum fjölmiðlalögum kom fram að ákvæðinu væri ætlað að gera notendum kleift að velja bæði myndefni og fjarskiptafyrirtæki án þess að binda sig í viðskiptum við eitt tiltekið fjarskiptafyrirtæki með því að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem hafa bæði yfir að ráða myndefni og fjarskiptanetum misnoti þá aðstöðu sína. Þá væri markmiðið að brjóta upp slíkt lóðrétt eignarhald á efni og dreifingu, þar sem hvati gæti verið fyrir einstaka fjölmiðalþjónustuveitendur að reyna að beina viðskiptum sínum að tengdu fjarskiptafyrirtæki. 

Að mati PFS hefði verið ljóst að þegar Síminn réðst í framangreindar breytingar þá stóðu félaginu til boða leiðir til að koma í veg fyrir að framangreint ástand skapaðist. Í fyrsta lagi hefði félagið getað samið við Sýn um aðgang þess félags að umræddu ólínulegu myndefni gegn eðlilegu endurgjaldi ef Síminn hefði kosið að gera slíkan samning og félögin hefðu náð saman á viðskiptalegum forsendum. Í öðru lagi hefði Síminn getað boðið upp á fullnægjandi aðgang að efninu um hið opna internet (OTT) við dreifingu á ólínulegu myndefni sínu sem væri óháð fjarskiptakerfum eða fjarskiptanetum. Þá komst PFS að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði ekki sýnt raunverulegan samningsvilja gagnvart Sýn á því tímabili sem málið náði til, þannig að unnt hefði verið að líta svo á að það hefði í raun verið Sýn sem hefði komið í veg fyrir að Síminn hefði, með samningum við Sýn, getað losnað undan brotinu. 

Þá var það mat PFS að Síminn hefði a.m.k. getað takmarkað skaðleg áhrif umræddra ráðstafana á Ljósleiðarann ehf. í samkeppni við Mílu á markaði fyrir undirliggjandi fjarskiptanet með því að ná samningi um aðgang að ljósleiðaraneti Ljósleiðarans áður en Síminn hefði ráðist í umræddar breytingar. Að mati PFS hefði sú leið ein og sér hins vegar ekki komið í veg fyrir brotið, þar sem fjarskiptahluti Símans hefði samt sem áður áfram verið eina sjónvarpsdreifikerfið sem hið ólínulega myndefni stæði til boða á. Síminn samdi svo við Ljósleiðarann eftir að ofangreind ákvörðun PFS var tekin, eða sumarið 2020, og hóf að veita þjónustu á ljósleiðaraneti Ljósleiðarans í ágúst 2021.  

Síminn bar fyrir sig á fyrri stigum að umrætt bannákvæði næði aðeins til línulegrar myndmiðlunar en PFS féllst ekki á það í ákvörðun sinni. Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfesti þá ákvörðun PFS með úrskurði sínum nr. 3/2016. Síminn skaut þeim úrskurði til héraðsdóms, sem féllst að hluta til á kröfur Símans með dómi sínum þann 1. júlí 2020 í máli nr. E-3251/2018. Fjarskiptastofa, Sýn og Síminn áfrýjuðu þeim dómi til Landsréttar, sem hefur nú staðfest hina upprunalegu ákvörðun PFS.