Hoppa yfir valmynd

Niðurstaða frumathugunar Fjarskiptastofu á framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar Orkufjarskipta hf. innan fyrirtækjasamstæðu Landsvirkjunar

Fréttasafn
30. ágúst 2023

Niðurstaða frumathugunar Fjarskiptastofu á framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar Orkufjarskipta hf. innan fyrirtækjasamstæðu Landsvirkjunar

Að frumkvæði Fjarskiptastofu með vísun í 10. gr. fjarskiptalaga nr. 70/2022 hóf stofnunin frumathugun á framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar Orkufjarskipta hf. innan fyrirtækjasamstæðu Landsvirkjunar. Orkufjarskipti hf. er fyrirtæki í jafnri eigu Landsvirkjunar og Landsnets og er tilgangur félagsins að eiga og reka öruggt fjarskiptakerfi til raforkustýringar og leigja aðgang að því sem tök eru á og lög heimila.

Frumathugun Fjarskiptastofu fólst m.a. í því að óska eftir upplýsingum um skiptingu tekna frá tengdum og ótengdum aðilum, á hvaða svæðum Orkufjarskipti hf. veitir þjónustu til ótengdra aðila, afrit af lánasamningum félagsins og upplýsingar um styrki sem fyrirtækið hefur fengið á sl. 10 árum í tengslum við uppbyggingu á fjarskiptakerfi, frá hverjum styrkurinn er og í hvaða tilgangi. Við frumathugun stofnunarinnar hafði hún einnig ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2021 til hliðsjónar ásamt því að skoða gjaldskrá Orkufjarskipta hf., afskriftartíma ljósleiðara og þjónustusamning fyrirtækisins við Landsvirkjun og Landsnet.

Fjarskiptastofa upplýsti Orkufjarskipti hf. um að frumathugun stofnunarinnar á framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar gæti líka varpað ljósi á hvort að fyrirtækið starfi að öllu leyti á markaðsforsendum, t.d. hvað varðar lánsfjármögnun uppbyggingarverkefna, eða að það verði talið njóta ríkisstuðnings að einhverju marki. Slíkt kynni að hafa þýðingu varðandi stöðu fyrirtækisins m.t.t. 8. gr. laga nr. 125/2019 um hagkvæma uppbyggingu háhraðaneta, en ákvæðið fjallar um samhæfingu mannvirkjagerðar. Skoðun Fjarskiptastofu á ofangreindum gögnum tæki því einnig til þessa álitaefnis.

Niðurstaða frumathugunar Fjarskiptastofu bendir ekki til þess að tilefni sé til að stofnunin kanni með ítarlegri hætti framkvæmd fjárhagslegs aðskilnaðar Orkufjarskipta hf. innan fyrirtækjasamstæðu Landsvirkjunar, en stofnunin gerði þó athugasemd við þjónustusamning um fjarskiptaþjónustu þar sem fram kemur í fylgiskjali III um aðstöðu á tengistað að kaupandi taki ekki gjald fyrir aðstöðu, raffæðingu né raforkunotkun. Að mati Fjarskiptastofu samrýmist slíkt fyrirkomulag ekki 10. gr. fjarskiptalaga þar sem segir að fyrirtæki skuli halda fjarskiptastarfsemi sinni fjárhagslega aðskilinni eins og um óskyld fyrirtæki væri að ræða.

Að því er varðar mat á stöðu Orkufjarskipta hf. m.t.t. 8. gr. laga nr. 125/2019 um hagkvæma uppbygginu háhraðaneta, en ákvæðið fjallar um samhæfingu mannvirkjagerðar, að þá telur stofnunin að niðurstaða frumathugunarinnar gefi ekki tilefni til að fjalla nánar um möguleg álitaefni þar að lútandi.

Drög að niðurstöðu frumathugunar Fjarskiptastofu var send til Orkufjarskipta hf. og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um efni skýrslunnar og var frestur veittur til 21. ágúst 2023, til að koma á framfæri við Fjarskiptastofu mögulegum athugasemdum og upplýsa hvort fallist væri á framkvæmd úrbóta í samræmi við frumniðurstöðu stofnunarinnar. 

Fjarskiptastofu barst svar frá Orkufjarskiptum hf. með bréfi dags. 23. ágúst 2023 þar sem fram kom að félagið gerir engar athugasemdir við niðurstöðu frumathugunar Fjarskiptastofu og fellst á að framkvæma það úrbótaratriði sem fjallað var um í skýrslunni. Samkvæmt svari Orkufjarskipta hf. mun félagið gera breytingar til úrbóta fyrir n.k. áramót í samræmi við niðurstöðu frumathugunar Fjarskiptastofu þ.e. að kaupandi þurfi að taka gjald fyrir aðstöðu á tengistað, raffæðingu og raforkunotkun.

Frumathugun FST á fjárhagslegum aðskilnaði Orkufjarskipta án trúnaðar.pdf