Hoppa yfir valmynd

Opið samráð um stefnu Fjarskiptastofu um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits með rekstraraðilum stafrænna grunnvirkja

Fréttasafn
21. september 2021

Opið samráð um stefnu Fjarskiptastofu um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits með rekstraraðilum stafrænna grunnvirkja

Mynd með frétt

Fjarskiptastofa birtir drög að stefnu stofnunarinnar um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits með rekstraraðilum stafrænna grunnvirkja á grundvelli laga nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða (NIS-löggjöfin). Fjarskiptastofa ber samkvæmt 2. mgr. 27.gr. reglugerðar nr. 866/2020 að setja sér stefnu um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits. 

Fjarskiptastofa hefur m.a. eftirlit með framkvæmd NIS-laganna gagnvart rekstraraðilum nauðsynlegrar þjónustu á sviði stafrænna grunnvirkja. Stafræn grunnvirki eru skilgreind í lögunum sem tengi- og skiptipunktar, þjónustuveitendur lénsheitakerfis og skráningarstofur höfuðléna. Það eru þó ekki allir aðilar sem reka framangreinda þjónustu sem falla innan gildissviðs laganna. Viðkomandi rekstraraðili þarf einnig að teljast vera mikilvægur í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. Þannig eru settar ákveðnar kröfur í lögunum og framangreindri reglugerð sem uppfylla þarf svo aðili teljist rekstraraðili nauðsynlegrar þjónustu í skilningi laganna.  

Fjarskiptastofa fer einnig með hlutverk ráðgefandi samhæfingarstjórnvalds á grundvelli laganna svo samræmi og jafnræði allra aðila sé sem best tryggt við framkvæmd laganna.

Meginmarkmið eftirlits Fjarskiptastofu er það stuðla að auknu öryggi og viðnámsþrótti net- og upplýsingakerfa rekstraraðila stafrænna grunnvirkja gagnvart áhættum og atvikum sem steðja að kerfunum og tryggja með sem bestum hætti virkni umræddrar þjónustu. Í drögunum er sett fram högun eftirlits og eftirlitsáætlun til lok ársins 2023.

Fjarskiptastofa gefur aðilum nú kost á að koma fram með athugasemdir og sjónarmið við umrætt skjal og óskar á sama tíma eftir farsælu samstarfi við aðila á þessu sviði.  Frestur til að skila inn umsögnum og ábendingum til Fjarskiptastofu er veittur til 12. október 2021 og skulu sendar í netfangið fjarskiptastofa(hjá)fjarskiptastofa.is.

Fjarskiptastofa mun í framhaldinu vinna úr innsendum athugasemdum áður en endanleg stefna er birt.

Drög að stefnu Fjarskiptastofu um fyrirkomulag og framkvæmd eftirlits með rekstraraðilum stafrænna grunnvirkja – Samráðsskjal