Hoppa yfir valmynd

Samráð um þörf fyrir endurnýjun á alþjónustukvöð Mílu

Fréttasafn
12. júlí 2022

Samráð um þörf fyrir endurnýjun á alþjónustukvöð Mílu

Við afnám einkaréttar á fjarskiptaþjónustu þann 1. janúar 1998, varð til nýtt hugtak í fjarskiptarétti svo kölluð alþjónusta. Með alþjónustu er leitast við að jafna aðgang landsmanna að tiltekinni lágmarks fjarskiptaþjónustu óháð búsetu. Æ síðan hefur Míla ehf. (og forverar hennar) borið kvöð um að veita alþjónustu.

 Þar sem um er að ræða lágmarksréttindi notenda til aðgangs að tilteknum þáttum fjarskiptaþjónustu hefur þörf fyrir kvöðina farið minnkandi á undanförnum árum. Helgast það af tæknibreytingum, mikilli uppbyggingu á næstu kynslóðar fjarskiptanetum á undanförnum árum og breytingum á fjarskiptalöggjöf sem liðkað hefur fyrir tæknilega útfærslu á alþjónustu.

Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 30/2013 var verulega dregið úr umfangi þeirra alþjónustuskyldna sem gilt höfðu á fjarskiptamarkaðinum hér á landi. En með ákvörðuninni var það niðurstaða stofnunarinnar að ekki væri ástæða til að mæla fyrir um alþjónustuskyldur í tengslum við aðgang að talsímaþjónustu, aðgang að gagnaflutningsþjónustu og reksturs almenningssíma. Í dag hvílir eingöngu á Mílu ehf. kvöð um að útvega lögheimilum og vinnustöðum tengingu við hið almenna fjarskiptanet, sbr. ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 31/2017. Alþjónustukvöðin gildir til 31. desember 2022.  

Fjarskiptastofa metur nú hvort þörf sé á því að viðhalda kvöðinni með endurnýjun hennar eða hvort forsendur eru til þess að láta kvöðina renna sitt skeið.  

Áður en ákvörðun er tekin um hvort ástæða sé til að leggja á fjarskiptamarkaðinn einstakar alþjónustuskyldur, tengdar þjónustu innan alþjónustu, verðlagningu þjónustunnar og aðgengi að þjónustunni er gert ráð fyrir að stofnunin framkvæma markaðskönnun. Tilgangur hennar er fyrst og fremst að meta hvort markaðurinn sjálfur um land allt hafi leyst eftirspurn eftir alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og verðlagningu hennar sé viðunandi. Ef niðurstaða markaðskönnunar er á þá leið að neytendur hafi ekki aðgang að skilgreindri lágmarksþjónustu er gert ráð fyrir að FST geti útnefnt fjarskiptafyrirtæki með skyldu til að veita alþjónustu. Við málsmeðferð gilda almennar stjórnsýslureglur.  

Fjarskiptastofa hefur tekið saman skjal þar sem farið yfir stöðu fjarskiptamála m.t.t. til aðgangs landsmanna að alþjónustu og frumniðurstöðu um þörf fyrir alþjónustuútnefningu. Stofnunin óskar nú eftir samráði við hagaðila um forsendur hennar og frumniðurstöðu, auk þess sem lagðar eru fram tilteknar spurningar sem varða eftirspurn og framboð á alþjónustu. Það er frumniðurstaða Fjarskiptastofu, þegar horft er til útbreiðslu fjarskiptaþjónustu og núverandi gæða hennar á landinu öllu, að ekki sé þörf á alþjónustukvöðum nema í fáum undantekningartilvikum. Að áliti stofnunarinnar er sú alþjónustukvöð sem hvílir á Neyðarlínunni, sbr. ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 9/2020 fullnægjandi til mæta slíkum tilvikum. Fjarskiptastofa hyggst því ekki endurnýja alþjónustukvöð Mílu ehf. sem rennur út um næstu áramót.

Frestur til að skila athugasemdum við samráðsskjalið og fyrirhugaða ákvörðun Fjarskiptastofu er veittur til 15. ágúst nk.

Samráðsskjal um þörf fyrir endurnýjun á alþjónustukvöð Mílu