Hoppa yfir valmynd

Upplýsingar vegna kvörtunar um jólapóst

Fréttasafn
08. janúar 2001

Upplýsingar vegna kvörtunar um jólapóst

Póst- og fjarskiptastofnun telur rétt að upplýsa fjölmiðla um niðurstöðu athugunar stofnunarinnar vegna kvörtunar Ólafs Guðmundssonar yfir þjónustu Íslandspósts hf. þar eð kvörtun Ólafs hefur fengið talsverða umfjöllun í fjölmiðlum.

Ólafur Guðmundsson kvartaði yfir þremur atvikum, mistökum í afhendingu myntar sem hann pantaði hjá Íslandspósti hf., mistökum í afhendingu bögguls sem honum var sendur frá Sauðárkróki og skemmda á böggli sem Ólafur sendi með hraðflutningsþjónustu TNT til Bandaríkjanna. Póst- og fjarskiptastofnun óskaði eftir upplýsingum frá Íslandspósti hf. vegna þessara atvika en það skal tekið fram að hraðflutningsþjónusta fellur ekki undir lög um póstþjónustu og þar af leiðandi ekki undir verksvið stofnunarinnar.

Íslandspóstur hf. hefur viðurkennt að mistök hafi leitt til þess að Ólafi Guðmundssyni hafi ekki verið tilkynnt um að mynt, sem hann pantaði og ætlaði að sækja sjálfur á afgreiðslu Íslandspósts, væri tilbúin til afhendingar. Í stað þess var hún send með ábyrgðarbréfi sem í fyrsta lagi hafði í för með sér aukakostnað fyrir Ólaf og í öðru lagi að í stað þess að geta nálgast hana 10. desember 2000 barst hún Ólafi fyrst 16. desember. Íslandspóstur hf. hefur tilkynnt að gjald fyrir ábyrgðarsendinguna verði endurgreitt.

Endanlegar upplýsingar liggja ekki fyrir um afhendingu böggulsins sem Ólafur Guðmundsson sendi í byrjun desember með hraðflutningsþjónustu TNT til Bandaríkjanna og hann telur að hafi ekki verið afhentur með eðlilegum hætti. Íslandspóstur hefur upplýst að málið sé enn í athugun.

Böggull var póstlagður á Sauðárkróki 18. desember 2000 til Ólafs Guðmundssonar og sendur heim til hans í Kópavogi 20. desember 2000. Ólafur telur að ekki hafi verið hringt dyrabjöllu eða bankað á dyr en tilkynningu stungið inn um bréfarifu um böggulinn. Ekki voru á miðanum upplýsingar um hvar hægt væri að nálgast böggulinn. Ólafur fór næstu daga ítrekað á pósthúsið í Kópavogi en böggulinn fannst ekki þrátt fyrir margar símhringingar í póstmiðstöð Íslandspósts hf. Böggullinn fékkst að lokum afhentur á pósthúsinu 27. desember.

Samkvæmt upplýsingum Íslandspósts segist bílstjórinn sem fór með böggulinn til Ólafs 20. desember hafa bæði hringt dyrabjöllu og bankað á dyr án þess að geta vakið á sér athygli. Hann hafi þá hringt í póstmiðstöðina og spurt hvað hann ætti að gera og fengið þau fyrirmæli að reyna ekki frekar en skilja eftir miða um böggulinn. Póst- og fjarskiptastofnun hefur spurt Íslandspóst hvort staðfest hafi verið af viðkomandi starfsmanni póstmiðstöðvarinnar að símtalið hafi átt sér stað og hefur verið fullvissuð um að svo hafi verið. Stofnunin telur sig ekki geta ályktað um það hvað valdið hafi þessum erfiðleikum að koma bögglinum til skila.

Íslandspóstur hf. hefur gefið skýringar á því hvers vegna böggullinn er fyrst tilbúinn til afhendingar á pósthúsinu í Kópavogi 27. desember 2000. Þegar böggullinn kom tilbaka úr árangurslausri heimsendingu 20. desember eru gerð þau mistök að hann er settur með bögglum sem áttu eftir að fara í útkeyrslu. Þar liggur böggullinn þangað til kl. 16,46 þann  22. desember þegar hann er skráður í útkeyrslu á ný og það uppgötvast að útkeyrsla hafi þegar átt sér stað en án árangurs. Böggulinn er nú settur með öðrum bögglum sem fara áttu í pósthúsið í Kópavogi og er að lokum afhentur Ólafi þar 27. desember eins og fyrr segir. Þar sem pósthúsið í Kópavogi var lokað 23. desember skiptir það hér ekki öllu máli að böggullinn var ekki sendur þegar í stað í pósthúsið þegar mistökin uppgötvast eins og þó hefði verið eðlilegt.

Íslandspóstur hefur harmað þessi mistök og sagst muni leita leiða til að þau endurtaki sig ekki. Póst- og fjarskiptastofnun hefur þar að auki móttekið greinargerð Íslandspósts um dreifingu á jólapósti í desember 2000. Þar kemur fram að um 200 þús. bögglar hafi verið póstlagðir í desember þar af um helmingur síðustu vikuna fyrir jól en þetta hafi skapað álag umfram það sem áætlað hafi verið og haft í för með sér vandræði í dreifingu. Talið er að ekki hafi tekist að afhenda um 2,5% fyrir jól eða um 2.500 böggla.

Á síðasta ári tók Íslandspóstur hf. upp það fyrirkomulag að heimsenda böggla og ábyrgðarbréf en áður voru viðtakendum sendir miðar um að vitja sendinganna á næsta pósthús. Póst- og fjarskiptastofnun hefur rætt hið nýja fyrirkomulag oftar en einu sinni við starfsmenn Íslandspósts og talið sýnt að erfiðleikar við afhendingu væru minni háttar. Kvörtun Ólafs og annarra sem hafa tjáð sig í fjölmiðlum benda hins vegar til þess að sumt megi betur fara og vill Póst- og fjarskiptastofnun sérstaklega benda á nauðsyn þess að á miðum sem skildir eru eftir þegar viðtakandi er ekki heima komi greinilega fram hvar vitja megi sendingarinnar.

Aðalvandamálið virðist hins vegar vera að póstmiðstöðin í Reykjavík réð ekki við það magn böggla sem barst vikuna fyrir jól. Álagið var að vísu meira en reiknað hafi verið með og stafar það líklega að hluta til af því að Þorláksmessu bar upp á laugardegi. Íslandspóstur hf. viðurkennir í greinargerð sinni að í álagi síðustu viku fyrir jól hafi margir flöskuhálsar komið fram í meðhöndlun böggla í póstmiðstöðinni í Reykjavík og einnig áberandi veikleiki í flokkun sendinga sem ekki tókst að afhenda við fyrstu heimsendingu. Póst- og fjarskiptastofnun telur að erfiðleikar við heimsendingar hafi hugsanlega þegar verið komnir fram vikuna þar á undan sbr. að ábyrgðarbréf til Ólafs Guðmundssonar er 4 daga í dreifingu innanbæjar.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur með bréfi til Íslandspósts hf. dagsett í dag komið tveimur ábendingum á framfæri. Í fyrsta lagi kanni Íslandspóstur hf. hvernig bæta megi fyrirkomulag við flokkun böggla í póstmiðstöðinni til þess að koma í veg fyrir endurtekningu á þeim erfiðleikum sem komu upp fyrir síðustu jól. Í öðru lagi er bent á að Þorláksmessu beri á þessu ári upp á sunnudag og að það sé þess vegna nauðsynlegt að almenningi verði kynnt rækilega fyrirfram með hvaða hætti móttöku pósts og dreifingu verði háttað fyrir næstu jól. Með hliðsjón af væntingum landsmanna um góða póstþjónustu fer stofnunin þess á leit að Íslandspóstur íhugi möguleika þess að halda uppi starfsemi laugardaginn 22. desember og á Þorláksmessu 2001 enda er gefið til kynna í greinargerð Íslandspósts að þessi möguleiki verði tekin til athugunar. Póst- og fjarskiptastofnun telur ekki ástæðu til frekari aðgerða stofnunarinnar að sinni.