Hoppa yfir valmynd

Og Vodafone með umtalsverða markaðshlutdeild á markaði fyrir farsímanet

Fréttasafn
16. júlí 2003

Og Vodafone með umtalsverða markaðshlutdeild á markaði fyrir farsímanet

Og Vodafone úrskurðað með umtalsverða markaðshlutdeild á markaði fyrir farsímanet og þjónustu.

Póst og fjarskiptastofnun hefur úrskurðað að Og Vodafone hafi umtalsverða markaðshlutdeild á markaði fyrir farsímanet og farsímaþjónustu. Ennfremur hefur stofnunin úrskurðað að Og Vodafone hafi ekki umtalsverða markaðshlutdeild á samtengingarmarkaði.

Forsaga máls þessa er sú að í desember sl. krafðist Landssími Íslands hf. þess að Og Vodafone yrði útnefnt með umtalsverða markaðshlutdeild bæði á farsíma- og samtengingarmarkaði. Úrskurður stofnunarinnar er kveðinn upp að undangenginni ítarlegri gagnaöflun frá báðum fjarskiptafélögunum.

Útnefning Og Vodafone sem félags með umtalsverða markaðshlutdeild hefur í för með sér skyldu til að verða við beiðnum um tengingu við fjarskiptanet félagsins, gæta jafnræðis og veita aðgang að nauðsynlegum upplýsingum vegna samtenginga.

Stofnunin mun hins vegar ekki, að svo stöddu, krefjast kostnaðargreiningar heildsöluþjónustu Og Vodafone, enda er slík kvöð tengd umtalsverðri markaðshlutdeild á samtengingarmarkaði.