Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa úthlutar Sýn tíðniheimild á 3,6 GHz tíðnisviðinu

Fréttasafn
21. mars 2022

Fjarskiptastofa úthlutar Sýn tíðniheimild á 3,6 GHz tíðnisviðinu

Fjarskiptastofa hefur úthlutað fjarskiptafyrirtækinu Sýn hf. (Vodafone) tíðniheimild á 3,6 GHz tíðnisviðinu fyrir 5G þjónustu. Úthlutunin er til skamms tíma eða til 31. mars 2023, eins og á við um aðrar tíðniheimildir sem hafa verið úthlutaðar á þessu tíðnisviði. Í síðasta mánuði efndi Fjarskiptastofa til samráðs við hagaðila um forsendur þessarar ráðstöfunar og hefur stofnunin nú yfirfarið þær athugasemdir sem henni bárust. Niðurstaða Fjarskiptastofu er að samþykkja beri umsókn Sýnar hf. um tíðniúthlutun. Það sé í samræmi við fjarskiptalög og í þágu þeirra lögbundnu markmiða sem stofnunin vinnur að.

Samkvæmt skilmálum tíðniheimildarinnar hefur Sýn skuldbundið sig til þess að ráðast í  umfangsmikla uppbyggingu á næstu tólf mánuðum, en sérstaklega er kveðið á um uppbyggingu og útbreiðslu þjónustu í tilteknum byggðakjörnum á landsbyggðinni sem í dag búa hvorki við 5G þjónustu né aðgang að ljósleiðara. Þegar þessi uppbygging bætist við þá sem þegar er áformuð af hálfu hinna farnetsfyrirtækjanna (Símanum og Nova) er ljóst að  á þessu ári eru framundan stórstíg framfaraskref hvað varðar aðgang landsmanna að nýjustu og öflugustu farnetsþjónustu sem í boði er. Þessi uppbygging er í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunar Alþingis fyrir árin 2019-2033, en þar er mörkuð sú stefna að Íslendingar verði meðal forystuþjóða í hagnýtingu fimmtu kynslóðar farneta, sbr. lið 2.1.1. í áætluninni.

Sýn - Tíðniheimild á 36 GHz (Lokaeintak) -til birtingar.pdf