Hoppa yfir valmynd

Upplýsingar um R&TTE tilskipunina

Fréttasafn
01. mars 2000

Upplýsingar um R&TTE tilskipunina

Eitt af helstu markmiðum ESB/EES er að skapa eitt markaðssvæði, þar sem sömu reglur gilda á öllu svæðinu.
Einn þáttur á fjarskiptasviðinu hefur setið nokkuð eftir í þessari samræmingu en hann er samþykki á:
a. notendabúnaði sem tengist almennum fjarskiptanetum (símar, faxtæki o.s.frv.)
b. hverskonar radíótækjum (talstöðvar, útvarpssendar, fjarstýringar o.s.frv)
Um þennan búnað hafa gilt mismunandi reglur í hinum ýmsu löndum, sem hafa leitt til þess að framleiðendur/innflytjendur hafa orðið að fá samþykki fyrir búnaðinn í hverju landi fyrir sig, áður en heimilað er að setja búnaðinn á markað.
Hin nýja tilskipun felur í sér þá grundvallarbreytingu að í stað þess að stjórnvöld í hverju landi þurfi að samþykkja búnaðinn fyrirfram, áður en hann er settur á markað, er framleiðendum / innflytjendum gert kleyft að sannreyna eða láta sannreyna á eigin ábyrgð að búnaðurinn uppfylli grunnkröfur tilskipunarinnar og setja hann síðan á markað.
Í vissum tilvikum er framleiðanda / innflytjanda gert að tilkynna stjórnvöldum um fyrirætlan sína um að setja búnað á markað, en ekki er krafist formlegs samþykkis stjórnvalda. Þetta gildir eingöngu um radíóbúnað, þar sem tíðninotkun hefur ekki verið samræmd alls staðar á EES svæðinu.
Í mjög sérstökum tilvikum er aðildarríkjum heimilað að banna markaðssetningu og sölu á fjarskiptatækjum og að gera slík tæki upptæk.
Ákvæði tilskipunarinnar koma til framkvæmda innan ESB 8.4.2000.  Búist er við að tilskipunin taki gildi innan EES og þar með á Íslandi fljótlega eftir það.
Eldri gerðarsamþykki munu þó gilda í 1 ár frá gildistöku tilskipunarinnar á Íslandi.
Góðar upplýsingar (á ensku) má fá á
www.ero.dk (veljið "Fast Links" og "R&TTE info"). Auk nánari útskýringa á því, hvaða áhrif hinar nýju reglur munu hafa, má finna texta tilskipunarinnar á heimasíðunni.  Einnig má fá ítarlegar upplýsingar á vef Framkvæmdastjórnarinnar á http://europa.eu.int/comm/enterprise/rtte/
Mikilvægt er að innflytjendur fjarskiptatækja geri erlendum viðskiptavinum sínum ljóst að ákvæði tilskipunarinnar munu einnig gilda á Íslandi vegna aðildar okkar að EES.
1.mars 2000