Hoppa yfir valmynd

Aðgerðir íslenskra fjarskiptafyrirtækja í þágu ríkisborgara Úkraínu

Fréttasafn
30. mars 2022

Aðgerðir íslenskra fjarskiptafyrirtækja í þágu ríkisborgara Úkraínu

GSM simi

Íslensk stjórnvöld hafa verið samstíga bandalags- og samstarfsríkjum í aðgerðum til stuðnings Úkraínu vegna innrásar Rússlands. Fjarskiptastofa tekur þátt í starfi BEREC sem  er samstarfsvettvangur evrópskra eftirlitsaðila á sviði fjarskipta. Stuttu eftir að innrásin hófst hvatti BEREC evrópsk fjarskiptafyrirtæki til að styðja við og létta á byrðum ríkisborgara Úkraínu en þá höfðu þegar allmörg fjarskiptafyrirtæki í Evrópu gripið til ýmissa ráðstafana í þessum tilgangi.

Fjarskiptastofa hefur því óskað eftir upplýsingum frá íslenskum fjarskiptafyrirtækjum um ráðstafanir í þágu flóttafólks frá Úkraínu. Samkvæmt svörum fyrirtækjanna sem stofnuninni hafa borist hafa fjarskiptafyrirtækin brugðist vel við umleitunum fulltrúa fyrir móttöku flóttamanna um aðstoð. Dæmi um aðstoð sem íslensku fjarskiptafyrirtækin hafa veitt eru t.a.m.:

  • Afhent SIM-kort með inneign til handa flóttafólki og aukahluti fyrir farsíma.  
  • Kostnaður vegna símtala til Úkraínu hefur verið felldur niður.
  • Reiki kostnaður viðskiptavina fjarskiptafyrirtækjanna sem eru í Úkraínu hefur verið felldur niður.

 

Fjarskiptastofa hefur yfirsýn yfir þessar og aðrar ráðstafanir fjarskiptafyrirtækjanna varðandi stríðsátökin og mun halda áfram að fylgjast með stöðunni eftir því sem þörf er á. Auk þess hefur stofnunin áfram nánar gætur á þróun mála og er í nánu samstarfi við evrópskar systurstofnanir sínar varðandi upplýsingamiðlun, samhæfingu og samstarf  á sviði fjarskipta- og netöryggis.