Hoppa yfir valmynd

Dómsmál um framlengdan gildistíma alþjónustukvaða Mílu

Fréttasafn
11. apríl 2022

Dómsmál um framlengdan gildistíma alþjónustukvaða Mílu

Dómur5 Héraðsdóms

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 7. apríl s.l. hefur dómstóllinn hafnað kröfu Mílu ehf. um ógildingu á úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála í máli nr. 4/2020 sem varðaði kæru félagsins á tilkynningu Fjarskiptastofu til Mílu ehf., þann 31. ágúst 2021, þess efnis að gildistími alþjónustukvaða sem hvíla á félaginu væri framlengdur til 31. desember 2022. Var þetta gert með vísun til sérstaks áskilnaðar í ákvörðun Fjarskiptastofu nr. 31/2017 um alþjónustuútnefningu Mílu ehf. sem félagið kærði ekki á sínum tíma.   

Míla ehf. taldi að með tilkynningu Fjarskiptastofu til félagsins hefði stofnunin tekið nýja stjórnvaldsákvörðun sem haldin væri annmörkum bæði hvað varðar form og efni. Að áliti Fjarskiptastofu var aftur á móti einungis um að ræða framkvæmd á gildandi ákvörðun og kæra Mílu því lögð fram löngu eftir að kærufrestur á ákvörðuninni rann út. Í kærumáli fyrir úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála féllst nefndin á frávísunarkröfu Fjarskiptastofu á grundvelli þessara sjónarmiða.

Í dómsmáli sem nú hefur gengið um úrskurð úrskurðarnefndar hefur kröfu Mílu ehf. á ógildingu hans verið hafnað. Fellst dómurinn ekki á sjónarmið Mílu að um nýja og sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða. Í dóminum er m.a. bent á að efni ákvörðunarinnar og raunveruleg þýðing hennar fyrir Mílu ehf., þ.m.t. ákvæðis um framlengingu, hafi legið fyrir þegar á árinu 2017. Undir þeim kringumstæðum yrði ekki séð að sérstök efni stæðu til þess að telja framlengingu kvaðarinnar vera stjórnvaldsákvörðun eða ákvörðun sem væri í öllu falli kæranleg. Ákvæði 60. og 70 gr. stjórnarskrárinnar stæðu því heldur ekki í vegi.

Af niðurstöðu dómsmálsins leiðir að alþjónustukvaðir Mílu ehf. samkvæmt ákvörðun Fjarskiptastofu nr. 31/2017 standa óhaggaðar til 31. desember 2022.