Hoppa yfir valmynd

Fjarskiptastofa kallar eftir samráði um heildsölugjaldskrá Mílu fyrir aðgang að afriðlabúnaði

Fréttasafn
10. febrúar 2022

Fjarskiptastofa kallar eftir samráði um heildsölugjaldskrá Mílu fyrir aðgang að afriðlabúnaði

Fjarskiptastofa hefur lokið við yfirferð á kostnaðargreiningu Mílu ehf. á heildsölugjaldskrá fyrir aðgang að afriðlabúnaði (48 V) í tækjahúsum fyrirtækisins. Fjarskiptastofa kallar eftir samráði um forsendur og niðurstöðu kostnaðargreiningarinnar.

Stofnunin hyggst samþykkja kostnaðargreiningu Mílu ehf. en í henni var reiknað endurstofnverð á þeim búnaði sem notaður er við veitingu þjónustunnar. Þá er fjárfestingar- og rekstrarkostnaður reiknaður í samræmi við mismunandi kostnað eftir staðsetningu hýsingar á búnaðinum og tekur gjaldskráin mið af því. Miðað er við sömu gjaldskrárflokka og gert er í gjaldskrá fyrir aðstöðuleigu.

Miðað við þá tekjuaukningu sem þessi gjaldskrá felur í sér er að jafnaði um 15% hækkun að ræða miðað við núverandi innheimtu gjalda fyrir þessa þjónustu.

Í meðfylgjandi drögum er forsendum og aðferðum við greiningu á kostnaði lýst nánar. Í viðauka I er lýsing á því hvernig vegið meðaltal fjármagnskostnaðar er ákvarðað.

Hér með er fjarskiptafyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna þeirra draga sem hér liggja fyrir, sbr. 24. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu. Allar athugasemdir skulu gerðar með greinanlegum hætti þar sem vísað skal í þá liði sem um ræðir. Þegar Fjarskiptastofa hefur metið framkomnar athugasemdir og gert þær breytingar á frumdrögunum sem stofnunin telur nauðsynlegar mun Fjarskiptastofa senda drögin til ESA til samráðs áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til 3. mars nk.

Nánari upplýsingar veitir Hulda Ástþórsdóttir (netfang: hulda(hjá)fjarskiptastofa.is).

Drög að ákvörðun
Viðauki I