Hoppa yfir valmynd

Kærumáli um málsmeðferð FST um gildi kvaða á IP-MPLS neti Mílu lýkur með frávísun

Fréttasafn
08. mars 2022

Kærumáli um málsmeðferð FST um gildi kvaða á IP-MPLS neti Mílu lýkur með frávísun

Akvordun

Þann 7. mars s.l. kvað úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála (ÚFP) upp úrskurð um frávísun á kærumáli Mílu ehf. (Míla) sem hafði sprottið af áréttingu Fjarskiptastofu (FST) til Mílu frá 16. desember 2021 sem fólu í sér leiðbeiningar stofnunarinnar til félagsins um þær kvaðir sem í gildi væru og tækju til IP-MPLS nets þess.

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda og skýringar sem rétt þykir að rekja í stuttu máli.

 IP-MPLS net er eitt meginburðarlag fyrir gagnaflutning í fastlínunetum. Í raun er um að ræða tæknilegar samskiptareglur sem mynda fjarskiptanet ofan á hefðbundnar stofnlínutengingar. Fyrirséð er að slík tækni muni í vaxandi mæli taka við af hefðbundnum stofnlínutenginum.

 Með ákvörðunum Fjarskiptastofu nr. 8/2014 og nr. 21/2015 útnefndi stofnunin Mílu eitt fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk á leigulínumörkuðum og lagði viðeigandi kvaðir á félagið. Þar kom skýrt fram, að mati FST, að IP-MPLS kerfi heyrðu undir þá markaði, þótt Míla starfrækti ekki slíkt kerfi um þær mundir. Kerfið var þá í eigu og á forræði Símans hf. (Síminn) og eingöngu rekið til innri nota Símans á smásölustigi á grundvelli sátta Símasamstæðunnar við Samkeppniseftirlitið, sbr. ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins nr. 6/2013 og 6/2015. Samkvæmt þeim bar Símanum þó að veita Mílu aðgang að því kerfi, svo Míla gæti uppfyllt heildsölukvaðir sínar.

Þann 1. janúar 2021 færðust tilteknir kerfisþættir, þ.m.t. umrætt IP-MPLS kerfi, frá Símanum til Mílu. Frá þeim tíma hefur Míla veitt Símanum heildsöluþjónustu um IP-MPLS kerfið og er ætlun Mílu að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum heildsöluviðskipti um þetta kerfi. FST hafði orðið þess áskynja að Míla liti mögulega svo á að heildsöluþjónusta um umrætt IP-MPLS kerfi væri ekki undir kvöðum, sem m.a. fæli í sér að skylda félagsins til að veita öðrum fjarskiptafyrirtækjum en Símanum aðgang að kerfinu á jafnréttisgrundvelli með sömu kjörum og þjónustugæðum væri ekki til staðar. Halda ber til haga að slíkar kvaðir, á lóðréttu samþættu fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, geta einnig virkað á þann veg að slíkur aðili getur t.d. ekki mismunað í verði eða afgreiðslutíma eða veitt sértæka afslætti af þjónustunni til tengds fjarskiptafyrirtækis til að efla stöðu sína (færa viðskipti til sín) á heildsölustigi. Með öðrum orðum eru kvaðir sem FST leggur á lögum samkvæmt ætlaðar til að viðhalda og efla samkeppni á fjarskiptamarkaði neytendum til hagsbóta.

Þann 3. nóvember 2021 sendi stofnunin Mílu fyrirspurn og óskaði eftir formlegri afstöðu félagsins til gildis kvaða varðandi IP-MPLS kerfið. Svar Mílu barst. 25. nóvember s.á., og var á þá leið að félagið liti ekki svo á að kerfið væri undir kvöðum samkvæmt ofangreindum ákvörðunum FST.

Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og sem viðleitni til að forðast það að færa málið strax í formlegt ákvörðunarferli, sem mögulega hefði getið falið í sér ákvörðun um að Míla hafi brotið gegn kvöðum í ofangreindum ákvörðunum, taldi FST rétt þann 16. desember 2021, að árétta það við Mílu að FST liti svo á að umræddar kvaðir hvíldu á Mílu vegna IP-MPLS kerfisins. FST leit svo á að um væri að ræða óbindandi tilmæli eða leiðbeiningar til Mílu að fara eftir umræddum kvöðum á þessu stigi. FST leit því ekki svo á að um sérstaka formlega ákvörðun væri að ræða, enda var umrædd stjórnvaldsathöfn ekki undirbúin og unnin í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. FST var fyllilega meðvituð um að til formlegs ákvörðunarferlis gæti komið, sinnti Míla ekki framangreindum óbindandi tilmælum/leiðbeiningum. Skoraði FST á Mílu að bæta úr þessu fyrir 14. febrúar 2022 með því að senda FST uppfært viðmiðunartilboð og kostnaðargreind verð fyrir IP-MPLS þjónustu til yfirferðar og samþykktar.  

Míla kaus á hinn bóginn að kæra umrædda áréttingu FST á þeim forsendum að um væri að ræða formlega stjórnvaldsákvörðun sem krafist væri ógildingar á. Krafðist Míla einnig að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað. Lagðist stofnunin gegn þeirri kröfu og tók m.a. fram að stofnunin teldi ekki að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun væri að ræða, en tók fram að frekari rökstuðningur fyrir þeirri skoðun myndi koma fram í seinni greinargerð stofnunarinnar um efnislegan þátt kærunnar. FST gafst þó ekki kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum þar að lútandi við úrskurðarnefnd fjarskipta og póstmála (ÚFP).

Með úrskurði ÚFP frá 11. febrúar s.l. var fallist á kröfu Mílu um frestun réttaráhrifa. Þar komst nefndin jafnframt að þeirri niðurstöðu að um hafi verið að ræða formlega stjórnvaldsákvörðun af hálfu FST en ekki áréttingu. Tók nefndin sérstaklega fram að úrskurðurinn tæki á engan hátt til efnis málsins, þ.e. til þess hvort þjónusta um umrædd IP-MPLS net heyrði undir kvaðir eða ekki.

Niðurstaða ÚFP um frestun réttaráhrifa fól augljóslega í sér að árétting FST til Mílu frá 16. desember 2021 væri haldin verulegum formannmörkum sem leitt gætu til ógildingu hennar. Með tölvupósti FST til Mílu, dags. 15. febrúar 2022, var félagið upplýst um að stofnunin hygðist afturkalla umrædda áréttingu.

Með ákvörðun FST nr. 3/2022 var árétting stofnunarinnar til Mílu frá 16. desember 2021 afturkölluð. Í forsendum FST fyrir afturkölluninni segir m.a. eftirfarandi:

“Eins og fyrr segir var það alls ekki ætlun FST að taka stjórnvaldsákvörðun um [gildandi kvaðir á IP-MPLS neti Mílu] á þessu stigi og var málið því ekki undirbúið og unnið sem stjórnsýslumál. Af forsendum tilvitnaðs úrskurðar er hins vegar ljóst, að mati úrskurðarnefndar, að með áréttingu FST var tekin sérstök stjórnsýsluákvörðun sem í ljósi stöðunnar er haldin verulegum formannmörkum og er því ógildanleg. Þá skiptir hér einnig máli að um er að ræða íþyngjandi ákvörðun gagnvart Mílu ehf. og er ógilding hennar í samræmi við kröfugerð félagsins í umræddu kærumáli.”

Þrátt fyrir afturköllun FST var kærumál Mílu þó enn til meðferðar hjá ÚFP. Í ljósi afturköllunar FST á hinni kærðu áréttingu var það á endanum niðurstaða ÚFP að Míla hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um efnisþátt kærumálsins og vísaði ÚFP því kærunni frá.