Hoppa yfir valmynd

Niðurstaða úttektar á fjárhagslegum aðskilnaði Ljósleiðarans innan OR samstæðunnar

Fréttasafn
18. febrúar 2022

Niðurstaða úttektar á fjárhagslegum aðskilnaði Ljósleiðarans innan OR samstæðunnar

Með ákvörðun nr. 1/2022 birtir Fjarskiptastofa (FST) niðurstöðu sína varðandi framkvæmd á fjárhagslegum aðskilnaði Ljósleiðarans ehf. innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Úttektin tók til tímabilsins 2018-2020 og byggði á bókhalds- og rekstrargögnum þessara ára. Eftirlit FST með framkvæmd á fjárhagslegum aðskilnaði er viðvarandi verkefni stofnunarinnar sbr. 36. gr. fjarskiptalaga.  

Í úttekt FST kom  fram að áætlanir Ljósleiðarans gera ráð fyrir að rekstrarafkoma skili fullnægjandi arðsemi á líftíma viðskiptalíkans félagsins miðað við ávöxtunarkröfu FST, auk þess að standast mat á endurheimtanlegu virði fjárfestinga sem sjóðskapandi rekstrareining.

Samanburður á fjárhagslegum lykiltölum Ljósleiðarans við önnur helstu fjarskiptafélög landsins bera ekki með sér að lykiltölur séu frábrugðnar en hjá öðrum félögum t.d. er varðar EBITDA og eiginfjárhlutfall en hlutfall vaxtaberandi skulda deilt með EBITDA er þó hæst hjá Ljósleiðaranum í samanburðinum.

Með ákvörðun PFS nr. 3/2019 voru sett skilyrði um meðferð sjóðspott innan samstæðunnar með setningu hámarks skuldar Ljósleiðarans við sjóðspott OR. Eins og fram kemur í úttekt stofnunarinnar var framkvæmd Ljósleiðarans og OR ekki að öllu leyti í samræmi við ofangreinda kvöð. Að fengnum þeim skýringum sem gefnar voru um ástæður þess er ekki ástæða til einhverra sérstakra aðgerða af hálfu stofnunarinnar vegna þessa, enda um óveruleg frávik að ræða sem fullnægjandi skýring hefur verið gefin á af hálfu Ljósleiðarans.

Í samræmi við fyrirmæli, í ákvörðun PFS nr. 3/2019, er ekki lengur það skilyrði í nýjum lánasamningi félagsins að lánveitanda sé heimilt að segja samningi upp eða gjaldfella hann ef eignarhlutur OR fari undir 50%. Ljósleiðarinn hefur því brugðist við þeim kvöðum sem lögð voru á fyrirtækið með ákvörðun PFS nr. 3/2019, að því er varðar fjármögnun félagsins sem og með skilmála í nýjum lánssamningi um eignarhlut OR í Ljósleiðaranum.

Þá kom ekkert fram við skoðun á verðlagningu á þjónustu milli Ljósleiðarans og OR um að þau viðskipti séu á einhvern hátt óeðlileg.

Jafnframt hefur við skoðun á þeim gögnum sem Ljósleiðarinn hefur sent FST, bæði þeim sem stofnuninni eru sent reglulega, sbr. ákvörðun PFS nr. 39/2010, sem og þeim viðbótargögnum sem kallað hefur verið eftir sérstaklega í úttektinni benda ekki til þess að tekjur af starfsemi OR sem nýtur einkaréttar eða verndar séu notaðar til að styrka fjarskiptastarfsemi Ljósleiðarans, í samkeppni við önnur fyrirtæki á markaði.

Af öllu framangreindu virtu er það niðurstaða FST að fjárhagslegur aðskilnaður OR og  Ljósleiðarans, á árunum 2018 til 2020, hafi verið í samræmi við  36. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Ákvörðun FST nr. 1/2022 - Niðurstaða úttektar á fjárhagslegum aðskilnaði Ljósleiðarans innan OR samstæðunnar