Hoppa yfir valmynd

Samráð um breytingar á mati á umtalsverðum markaðsstyrk í Rangárþingi eystra á markaði 3b, mati á því hvort Ljósleiðarinn og Tengir teljast hrein heildsölufyrirtæki og breyting á útfærslu kvaðar um tilkynningu jarðvegsframkvæmda og gildistöku þeirrar kvaðar gagnvart nýjum aðilum

Fréttasafn
23. janúar 2024

Samráð um breytingar á mati á umtalsverðum markaðsstyrk í Rangárþingi eystra á markaði 3b, mati á því hvort Ljósleiðarinn og Tengir teljast hrein heildsölufyrirtæki og breyting á útfærslu kvaðar um tilkynningu jarðvegsframkvæmda og gildistöku þeirrar kvaðar gagnvart nýjum aðilum

Í kjölfar tveggja samráða um drög að markaðsgreiningu á heildsölumörkuðum fyrir staðaraðgang með fasttengingu og miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur og útnefningar fyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk á landfræðilegum mörkuðum viðkomandi heildsölumarkaða hefur Fjarskiptastofu (FST) borist umtalsverðar athugasemdir hagsmunaaðila sem Fjarskiptastofa hefur tekið til meðferðar.

Í því samráði sem hófst 29. nóvember 2023 bárust athugasemdir um smásölustarfsemi aðila á markaði sem annars einbeita sér að heildsölumörkuðum fjarskipta. Sömuleiðis bárust athugasemdir sem FST hyggst bregðast við með breytingum á áður fyrirhugaðri kvöð um um tilkynningarskyldu á áætluðum jarðvegsframkvæmdum vegna útbreiðslu ljósleiðaralagna í aðgangsnetum.
Einnig hafa komið í ljós nýjar upplýsingar um samkeppnisaðstæður á markaði 3b í Rangárþingi Eystra sem sýndu fram á að þær væru með öðru sniði en áður var talið.

Hér birtir FST samráðsskjal um ofangreind þrjú atriði.

Óskar stofnunin nú viðbragða fjarskiptafyrirtækja og annarra hagsmunaaðila við þeim frumdrögum sem hér eru lögð fram, sbr. 6. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu.

Aukasamráð þetta er takmarkað við það samráðsskjal sem hér er lagt fram og þær breytingar sem þar er lýst. Ekki verður tekið við athugasemdum um önnur efnisatriði.

Frestur til að skila inn umsögnum og athugasemdum um þau drög sem hér eru lögð fram er til og með þriðjudagsins 6. febrúar 2024. Frestur til skila á athugasemdum verður ekki framlengdur.  

Beinir FST því sérstaklega til hagsmunaaðila að fara skal eftir leiðbeinandi tilmælum um umsagnir við markaðsgreiningar. Sjá leiðbeinandi tilmæli um umsagnir hagaðila í tengslum við markaðsgreiningar.

Við birtingu ákvörðunar í þessu máli FST hyggst birta athugasemdir sem berast í þessum samráðum öllum.  Því er þess óskað, ef athugasemdir innihalda gögn sem skulu njóta trúnaðar, að annað eintak fylgi  þar sem trúnaðargögn hafi verið afmáð.

Nánari upplýsingar veitir Guðmann Bragi Birgisson, netfang: gudmann@fjarskiptastofa.is

Samráðsskjalið er aðgengilegt hér á PDF formi.