Samráð um endurnýjun tíðniréttinda sem renna út á árunum 2022 til 2023
Samráð um endurnýjun tíðniréttinda sem renna út á árunum 2022 til 2023
Í febrúar og mars á árunum 2022 og 2023 mun gildistími allflestra tíðniheimilda fyrir almenna farnetsþjónustu hér á landi renna út. Við stöndum nú á tímamótum þar sem háþróuð og öflug fjarskiptækni mun hafa áhrif á alla samfélagsgerðina. Hefur þetta verið nefnt fjórða iðnbyltingin þar sem ýmsir innviðir samfélagsins verður stýrt af nettengdum hlutum sem útbúnir verða með gervigreind. Fjarskiptainnviðir og -þjónusta verða því nokkurs konar gangverk samfélagsins fremur en að vera einungis miðill samskipta og afþreyingar.
Uppbygging á umræddum fjarskiptainnviðum mun kosta umtalsverða fjárfestingu í fjarskiptanetum og búnaði. Með tilliti til þessa er almennt gert ráð fyrir að úthluta verði tíðniheimildum til langs tíma til þess að fjarskiptafyrirtæki öðlist tækifæri til þess að endurheimta fjárfestinguna. Þá er fyrirséð að á tilteknum landsvæðum muni uppbygging ekki standa undir sér á markaðsforsendum og að til þurfi að koma samstillt átak hagsmunaaðila til sameiginlegrar uppbyggingar á fjarskiptainnviðum og samnýtingu á þeim.
Vegna mikilvægis háhraða farnetsþjónustu fyrir samfélagið á komandi árum og áratugum er mikilvægt að búa svo um hnútana að allir notendur hafi aðgang að henni og að landfræðileg útbreiðsla hennar verði eins mikil og mögulegt er, þ.e. að hún nái a.m.k. til fjölfarinna landsvæði utan byggðar, s.s. á helstu stofnvegum landsins og vinsælum ferðmannastöðum.
Í frumvarpi til nýrra fjarskiptalaga er að finna lagaákvæði sem mynda grundvöll fyrir framangreindar forsendur, þ.e. um fyrirsjáanleika tíðniúthlutana til langs tíma og heimildir fjarskiptafyrirtækja til samstarfs og kvaðir sem Póst- og fjarskiptastofnun getur lagt á í þeim efnum.
Í ljósi þess að fjarskiptalagafrumvarpið hlaut ekki afgreiðslu á nýloknu þingi getur ekki komið til langtímaúthlutunar á tíðnum að svo stöddu. Til að bregðast við þessu hefur PFS í hyggju að grípa til tiltekinna bráðbirgðaráðstafana. Annars vegar að endurnýja gildistíma tíðniheimilda sem eru að renna út á þessu ári og því næsta til 31. mars 2023 og hins vegar að gefa núverandi tíðnirétthöfum kost á nýjum úthlutunum tíðna til sama tíma. Umræddar skammtímatíðniheimildir verða með óbreyttum skilmálum hvað varða útbreiðslu og gæði þjónustu.
Í samráðsskjalinu fjallar PFS m.a. um þær hugmyndir sem stofnunin hefur varðandi nýtingu tíðnirófsins og frekari útbreiðslu háhraðafarneta s.s. á stofnvegum landsins og í meðalstórum byggðakjörnum.
Frestur til að skila umsögn í samráðinu er veittur til 31. ágúst 2021.
Viðauki I - Yfirlit yfir gildistíma tíðniheimilda