Fjarskiptastofa og Aurbjörg birta verðsamanburð fjarskiptaþjónustu
Fjarskiptastofa og Aurbjörg birta verðsamanburð fjarskiptaþjónustu
Fjártæknifyrirtækið Aurbjörg hefur útbúið verðsamanburð á helstu fjarskiptaþjónustu til neytenda í samstarfi við Fjarskiptastofu, sem nú er birtur á heimasíðu fyrirtækisins, aurbjorg.is
Verkefnið kemur til þar sem með 70. grein laga um fjarskipti, nr. 70/2022 er Fjarskiptastofu veitt heimild til að framkvæma verðsamanburð á helstu verðum fjarskiptaþjónustu til neytenda eða að fela óháðum aðila að útbúa slíkan samanburð.
Í samræmi við lögin útvistaði Fjarskiptastofa verkefninu til vefsíðunnar Aurbjargar, sem hefur til þessa og á eigin vegum haldið úti samanburði á verðum farnetsþjónustu. Vefsíðan Aurbjörg er rekin af fyrirtækinu Two Birds ehf. í því markmiði að auka fjármálalæsi, auka gagnsæi og aðstoða neytendur við ákvarðanir. Ýmis þjónusta Aurbjargar er veitt gegn áskriftargjaldi, en umræddur verðsamanburður verður öllum opin.
Fjarskiptafyrirtækin koma upplýsingum um verð sín gegnum sjálfvirk vefskil sem Aurbjörg heldur úti í þeim tilgangi. Aðgangur fjarskiptafyrirtækja að þessum vefskilum er opinn þeim aðilum sem vilja nýta kerfi Aurbjargar og taka þátt í þessum verðsamanburði.
Fjarskiptastofa hvetur notendur fjarskiptaþjónustu til að skoða og nýta sér þessa auknu þjónustu við neytendur.