Hoppa yfir valmynd

Fyrirhuguð skammtímaúthlutun til Sýnar á D3600 MHz tíðniheimildinni fyrir 5G þjónustu

Fréttasafn
16. febrúar 2022

Fyrirhuguð skammtímaúthlutun til Sýnar á D3600 MHz tíðniheimildinni fyrir 5G þjónustu

Vorið 2020 úthlutaði Fjarskiptastofa (FST) tíðniheimildum á 3,6 GHz tíðnisviðinu fyrir 5G farnetsþjónustu til þriggja starfandi 4G farnetsrekenda að undangengnu almennu og opnu samráði. Þetta voru fjarskiptafyrirtækin: Nova ehf., Síminn hf. og Sýn hf. Forsendur FST voru m.a. þær að í ljósi tæknilegrar stöðu 5G tækninnar þyrfti að byggja hana ofan á ríkjandi 4G tækni. Því taldi Fjarskiptastofa að umrædd úthlutun væri málefnaleg og rökrétt ráðstöfun til tæknilegrar framþróunar háhraða farneta hér á landi. Hins vegar stóð stofnunin frammi fyrir óvissu varðandi þróun fjarskiptalöggjafar og útfærslu á tilteknum öryggisráðstöfunum  af hálfu stjórnvalda til að tryggja þjóðaröryggishagsmuni varðandi örugga birgðakeðju á farnetsbúnaði. Því taldi stofnunin rétt að úthluta tíðniheimildunum eingöngu til skamms tíma eða til 31. desember 2021.

Í úthlutuninni var gert ráð fyrir því að fjarskiptafyrirtækin gætu öðlast rétt til endurnýjunar á tíðniheimildunum til lengri tíma ef 5G þjónusta væri byggð upp í samræmi við tiltekin skilgreind viðmið FST um skilvirka nýtingu. Nova ehf. og Síminn hf. byggðu upp 5G farnet í samræmi við viðmið FST innan tilskilinna tímamarka og öðluðust því rétt til langtímaúthlutunar. Í ljósi þess að framangreindir óvissuþættir voru enn til staðar við lok gildistíma tíðniheimildanna þann 31. desember 2021 var langtímaúthlutuninni slegið á frest. Tíðniheimildir til félaganna tveggja voru því endurnýjaðar til skamms tíma eða til 31. mars 2023.

Nú hefur Fjarskiptastofu borist umsókn frá Sýn hf. um nýja skammtímaúthlutun á 3,6 GHz tíðnisviðinu (D3600 MHz tíðniheimildin). Í umsókn sinni vísar Sýn hf. m.a. til framangreindra óvissuþátta og truflana í aðfangakeðjum vegna heimsfaraldurs COVID-19 sem hafi valdið töfum á 5G uppbyggingu á vegum félagsins. Nú hafi félagið sett sér tímasetta uppbyggingaráætlun sem geri ráð fyrir umfangsmikilli 5G uppbyggingu sem nái fram til fyrsta og annars ársfjórðungs 2023. Á þeim grundvelli fer Sýn hf. fram á skammtíma úthlutun á D3600 tíðniheimildinni til sama tíma og aðrir 5G farnetrekendur hafa fengið eða 31. mars 2023. Að áliti Sýnar hf. fælist engin mismunun milli aðila vegna þessa, þar sem skuldbindandi uppbyggingaráform félagsins gangi lengra en þau skilgreindu viðmið um uppbygginu sem FST mælti fyrir um í fyrri tíðniúthlutun á þessu tíðnisviði.

FST hefur yfirfarið umsókn og tímasetta uppbyggingaráætlun Sýnar hf. og getur fallist á að áætlunin geri ráð fyrir talsverðri uppbyggingu á 5G farneti fram til fyrri hluta árs 2023. Þessu til viðbótar er Sýn hf. tilbúin til þess að skuldbinda sig til að byggja upp og bjóða 5G þjónustu í tíu byggðakjörnum á landsbyggðinni, þar af í níu byggðakjörnum sem í dag hafa ekki aðgang að 5G þjónustu eða ljósleiðara. Enn fremur að félagið taki á sig skuldbindingu um að á þessu tímabili verði settir upp a.m.k. 40 5G sendar sem við lok uppbyggingaráætlunar nái útbreiðslu þjónustu til rúmlega 20% landsmanna. Rétt er að taka fram að sjálf uppbyggingaráætlunin gerir ráð fyrir töluvert meiri uppbyggingu en sem þessum skuldbindingum nemur.

FST telur að með slíkum skuldbindingum Sýnar hf. myndi ný úthlutun til félagsins ekki fela í sér ívilnandi framlengingu á gildistíma fyrri tíðniheimildar sem öðrum 5G farnetsrekendum hefði ekki staðið til boða og þannig skapað ójafnræði milli þeirra. Skuldbindingarnar nýrrar úthlutunar væru aðrar og meiri og forsendur því ekki sambærilegar.    

Samkvæmt. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu ber stofnuninni með starfsemi sinni að stuðla að aðgengilegum, greiðum, hagkvæmum, skilvirkum og öruggum fjarskiptum. Henni ber að gæta að samkeppnisskilyrðum, m.a. með því að ýta undir hagnýta notkun tíðna og númera og viðhafa skilvirka stjórn á notkun þessara gæða og gæta jafnræðis við meðferð mála sem varða fjarskiptafyrirtæki sem búa við sömu aðstæður, sbr. b.- og c.-liði 6. gr. laganna. Þá skal Fjarskiptastofa stuðla að framförum á fjarskiptamarkaði, m.a. með því að greiða fyrir hagkvæmri uppbyggingu fjarskipta sem byggð er á samnýtingu eða samstarfi, að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna.

Það er mat Fjarskiptastofnunar að skammtímaúthlutun á D3600 MHz tíðniheimildinni til Sýnar hf. til 31. mars 2023, á grundvelli þeirra skuldbindinga sem fram koma í umsókn félagsins, sé málefnaleg og í þágu lögbundinna verkefna stofnunarinnar og þeirra markmiða sem henni er ætlað að stefna að, einkum að auka aðgang notenda að háhraða fjarskiptaþjónustu og viðhalda samkeppni á viðkomandi markaði með því að skapa sambærilegar forsendur og aðstæður fyrir fjarskiptafyrirtæki til samkeppni.  

Samkvæmt framangreindu er það ætlun Fjarskiptastofu að samþykkja umsókn Sýnar hf. og úthluta félaginu D3600 MHz tíðniheimildina á 3,6 GHz tíðnisviðinu til 31. mars 2023 samkvæmt þeim skilmálum sem kveðið er á um í tíðniheimild. Fjarskiptastofa byggir fyrirhugaða ákvörðun sína einnig, að meginhluta, á þeim almennu sjónarmiðum sem lágu til grundvallar þeirri ráðstöfun að úthluta tíðniheimildum fyrir 5G þjónustu til starfandi 4G farnetsrekenda sem rakin voru í samráði um tíðniúthlutunina vorið 2020. Með vísan til sjónarmiða um jafnræði markaðsaðila við meðferð mála hjá stofnuninni er einnig rétt að geta þess að forsendur og skilyrði fyrir endurnýjun á D3600 MHz tíðniheimild Sýnar hf. til lengri tíma er háð því að félagið uppfylli þær skuldbindingar um uppbyggingu á 5G farneti sem það hefur tekist á hendur fyrir 31. mars 2023.  Að því leyti hefur Sýn hf. ekki fengið afslátt af kröfum um skilvirka nýtingu tíðnisviðsins, heldur hafa verið gerðar auknar kröfur til félagsins um uppbyggingu sem því er ætlað að standa við.

Með vísan til 24. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu er hagaðilum nú boðið að koma á framfæri ábendingum við fyrirhugaða ákvörðun stofnunarinnar. Frestur til þess er veittur til 24. febrúar 2022.
Ábendingar til Fjarskiptastofu skulu berast til Björns Geirssonar í netfangið bjorn(hjá)fst.is.