Hoppa yfir valmynd

Fyrirhuguð úthlutun á 700 MHz tíðniheimild til Öryggisfjarskipta fyrir háhraða neyðarfjarskiptanet

Fréttasafn
10. febrúar 2022

Fyrirhuguð úthlutun á 700 MHz tíðniheimild til Öryggisfjarskipta fyrir háhraða neyðarfjarskiptanet

Mynd með frétt

Útbreiðsla háhraða farnetsþjónustu nær nú til nánast allra heimila landsins og vinnustaða sem eru með heilsárs atvinnustarfsemi. Útbreiðsla þjónustunnar á landsvæðum sem ekki eru í byggð er sömuleiðis góð. Því er eðlilegt að almennt sé litið á farnetsþjónustu sem öryggistæki almennings þegar hætta steðjar að, auk þess sem viðbragðsaðilar þurfa í ýmsu tilliti að reiða sig á slíka þjónustu. 

Hins vegar er staðan sú að almenn farnet eru ekki sérhönnuð neyðarfjarskiptakerfi sem er ætlað að uppfylla ýtrustu kröfur til útbreiðslu og áfallaþols við erfiðustu og mest krefjandi aðstæður. Slíkur viðbúnaður er umfram það sem ætlast er til að fjarskiptafyrirtæki hafi með höndum á markaðsforsendum. 

Neyðarlínan hefur síðustu tæpa tvo áratugi rekið Tetra neyðarfjarskiptakerfið. Kerfið hefur aðallega verið notað fyrir talþjónustu, en að hluta til einnig fyrir gagnaflutning, s.s. upplýsingar um stöðu- og staðsetningar. Á undanförnum árum hafa neyðarfjarskipti þróast á þann veg að meiri þörf er fyrir gagnaflutning, t.d. varðandi miðlun á myndefni úr búkmyndavélum eða streymi myndefnis af vettvangi björgunaraðgerða. Í raun kalla þessar þarfir á kynslóðskipti neyðarfjarskiptakerfisins. 

Uppbygging og rekstur neyðarfjarskiptakerfis, sem uppfyllir þarfir nútímans, varðar ekki eingöngu almannaheill, heldur einnig þjóðaröryggishagsmuni sem felast í því að hið opinbera hafi yfir að ráða háhraða farneti fyrir neyðarfjarskipti og mögulega aðrar þjónustur í almannaþágu (ekki veittar á markaðsforsendum), þar sem ýtrustu ráðstafanir eru gerðar til að tryggja áfallaþol netsins gagnvart ytri ógnum, þ.á.m. við val á búnaði og öryggisráðstöfunum honum tengdum. Sjónarmið sem varða þjóðaröryggi var sérstakt áhersluatriði umsögnum stjórnvalda (ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnar, utanríkismála og dómsmála) sem lagðar voru fram í nýafstöðu samráði FST um endurskipulag tíðniúthlutana á árunum 2022-2023. 

Í ljósi þess að innan EES-svæðisins er 700 MHz tíðnisviðið, a.m.k. að hluta, ætlað til samræmdrar notkunar fyrir neyðarfjarskipti og vegna sjónarmiða tiltekinna umsagnaraðila í samráðinu að öruggast væri að tíðniforráð fyrir slíkt farnet væri á hendi hins opinbera eða félags í eigu þess, að þá taldi FST eðlilegt að kanna slíkt fyrirkomulag nánar. Eins og fram kom í niðurstöðuskjali samráðsins kallaði FST eftir upplýsingum frá Neyðarlínunni um uppbyggingaráform og fyrirhugaðan rekstur á háhraðaneti fyrir neyðarfjarskipti og á hvaða forsendum almennum fjarskiptafyrirtækjum byðist aðgangur að slíku kerfi með víkjandi forgangi. 

Neyðarlínan hefur nú afhent Fjarskiptastofu forsenduskjal, dags. 14. janúar 2022, þar sem félagið lýsir áformum sínum um að byggja upp og reka háhraða neyðarfjarskiptakerfi. Í skjalinu er farið yfir þróun og stöðu neyðarfjarskipta í nágrannalöndum, hvaða sjónarmiða félagið horfir til við fyrirhugaða uppbygginu háhraða farnetsins og með hvaða hætti önnur fjarskiptafyrirtæki gætu fengið aðgang að netinu. Farið er yfir nokkrar sviðsmyndir varðandi tilhögun rekstrarins og gerir Neyðarlínan grein fyrir hvaða sviðsmynd félagið telur að sé fýsilegust í þeim efnum. Varðandi aðgang annarra fjarskiptafyrirtækja að farnetinu að þá eru forsendur fyrir því ekki útfærðar með ítarlegum hætti, enda má ætla að það geti verið samningsatriði milli aðila, auk þess sem Neyðarlínan bendir á að þarfir almennu fjarskiptafyrirtækjanna geta verið mismunandi. 

Eftir að hafa rýnt forsenduskjal Neyðarlínunnar, sbr. og með tilvísun í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/2021 um Fjarskiptastofu, telur FST að málefnalegar forsendur standi til þess að úthluta A700 MHz tíðniheimildinni til Neyðarlínunnar (Öryggisfjarskipta ehf.)  til langs tíma eða til allt að 20 ára. Úthlutunin yrði bundin þeirri kvöð að veita þyrfti almennum farnetsrekendum aðgang að kerfinu með víkjandi forgangi. Með víkjandi forgangi er átt við að komið geti til fyrirsvaralausrar skerðingar á afköstum til almennrar fjarskiptaþjónustu vegna álags á fjarskiptanetinu vegna viðbragðs við neyðarástandi. 

Í ljósi þess að umrædd tíðniúthlutun er nokkuð frábrugðin tíðniúthlutunum til almennra fjarskiptafyrirtækja sem starfa á markaðsforsendum, auk þess sem úthlutunin varðar jafnframt réttindi annarra fjarskiptafyrirtækja til aðgangs að kerfinu, telur FST þörf á því að mæla fyrir sértæka skilmála í tíðniheimildinni m.a. um eftirgreinda þætti:    

a)      Auknar kröfur til rekstraröryggis og áfallaþols fjarskiptanetsins (kvöð)
b)      Aðgangur fjarskiptafyrirtækja að umframafkastagetu farnetsins (kvöð)
          -   Aðgangur að radíókerfi
          -   Samnýting á tíðnisviði
          -   Víkjandi forgangur aðgangsbeiðenda
c)      Vald Fjarskiptastofu til að skera úr um ágreining aðgangsbeiðanda og tíðnirétthafa um aðgang og samnýtingu, þ.m.t. um aðgangsverð og tæknilega skilfleti (kvöð)
d)      Jafna þátttöku tíðnirétthafa, með almennum farnetsrekendum, í kostnaði við uppbyggingu háhraðaþjónustu á stofnvegum. Þessi uppbygging hefur verið skilgreind og kostnaðarmetin miðað við ákveðnar sviðsmyndir. Ákvörðun um endanlega útfærslu liggur ekki fyrir (kvöð)
e)      Tíðniúthlutun yrði bundin þeirri forsendu að áætlanir Neyðarlínunnar um þróun, fjármögnun og uppbyggingu kerfisins gangi eftir og að gerður verði samningur við stjórnvöld um notkun netsins fyrir neyðar- og öryggisfjarskipti (kvöð)
f)       Notkun netsins vegna annarrar þjónustu á vegum hins opinbera í almannaþágu í samræmi við stefnumótun stjórnvalda og/eða lagasetningu þar að lútandi (heilmild/kvöð)

 Með vísan til 24. gr. laga nr. 25/2021 um Fjarskiptastofu er hagaðilum hér með gefinn kostur á að kynna sér forsenduskjal Neyðarlínunnar og koma á framfæri ábendingum við skjalið og fyrirhugaða tíðniúthlutun FST til félagsins. Jafnframt er hagaðilum gefið tækifæri til að koma á framfæri ábendingum um efni skilmála fyrirhugaðrar tíðniheimildarinnar, sem m.a. er ætlað tryggja fjarskiptafyrirtækjum sanngjarnan en víkjandi aðgang að farnetinu fyrir almenna farnetsþjónustu.

 Svarfrestur er veittur til 24. febrúar 2022. Ábendingar til Fjarskiptastofu skulu berast til Björns Geirssonar í netfangið bjorn@fst.is

 Forsenduskjal Neyðarlínunnar