Hoppa yfir valmynd

Úrskurðarnefnd breytir að hluta til ákvörðun Fjarskiptastofu um markaðsgreiningar vegna sölu Símans hf. á Mílu hf. sem heimiluð var tæpu ári eftir að Fjarskiptastofa tók hina umrædda ákvörðun

Fréttasafn
11. janúar 2023

Úrskurðarnefnd breytir að hluta til ákvörðun Fjarskiptastofu um markaðsgreiningar vegna sölu Símans hf. á Mílu hf. sem heimiluð var tæpu ári eftir að Fjarskiptastofa tók hina umrædda ákvörðun

Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála (nefndin), dags. 29. desember 2022, breytti nefndin að hluta til ákvörðun Fjarskiptastofu (FST) nr. 5/2021, dags. 19. október 2021, um markaðsgreiningar á heildsölumarkaði fyrir staðaraðgang með fasttengingu (markaður 3a) og heildsölumarkaði fyrir miðlægan aðgang með fasttengingu fyrir fjöldaframleiddar vörur (markaður 3b). Úrskurðurinn byggði aðallega á þeirri breyttu forsendu sem fólst í sölu Símans hf. (Síminn) á Mílu hf. (Míla) sem Samkeppniseftirlitið heimilaði tæpu ári eftir að FST tók hina kærðu ákvörðun.

Hins vegar staðfesti nefndin hina kærðu ákvörðun í aðalatriðum, þ.m.t. að því er varðar skilgreiningu á viðkomandi þjónustumörkuðum, m.a. að því er varðar staðgöngu milli ljósleiðara og kopars, skilgreiningu landfræðilegs markaðar, þ.e. að landið væri skilgreint sem einn landfræðilegur markaður, útnefningu Mílu sem fyrirtækis með umtalsverðan markaðsstyrk og flestar kvaðir þær sem FST lagði á Mílu. Í kærum sínum lögðu Míla og Síminn mestu áherslu á að ekki væri lengur staðganga milli ljósleiðara og kopars og að aðgreina skyldi fleiri en einn landfræðilegan markað, en nefndin féllst ekki á það.  

Forsaga málsins er sú að með tveimur kærum, báðar dags. 15. nóvember 2021, kærðu Míla og Síminn framangreinda ákvörðun FST. Af hálfu Mílu var þess aðallega krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi í heild sinni en til vara að hún yrði felld úr gildi að hluta, eða henni breytt eftir atvikum, að því leyti sem nefndin teldi að ákvörðunin væri haldin ógildingarannmörkum. Að hálfu Símans var þess aðallega krafist að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi í heild sinni, en til vara að tilteknar kvaðir er vörðuðu svokallað efnahagslegt hermipróf (e. Economic Replicability Test, ERT) á Símasamstæðuna yrðu felldar brott. Umrætt próf fólst í því að tryggja að ekki væri of lítill munur á heildsöluverðum Mílu og smásöluverðum Símans.

Með úrskurði nefndarinnar frá 15. desember 2021, hafnaði nefndin kröfu Mílu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar FST í heild sinni, en féllst á að fresta réttaráhrifum kvaðar um skyldu félagsins til að setja upp, gegn hæfilegu gjaldi, bitastraumsbúnað á ljósleiðaranetum óskyldra aðila sem þess óskuðu, svo fremi sem Síminn semdi ekki beint við slíka aðila, sem og þeirrar kvaðar að bitastraumseiningu Mílu væri ekki heimilt að mismuna eftir undirliggjandi neti. Rökstuddi nefndin þá niðurstöðu að hafna því að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar í heild sinni með vísan til þess að þeir almanna- og einkahagsmunir sem undir væru í málinu vægju þyngra en hagsmunir Mílu. Væri hin kærða ákvörðun ekki haldin slíkum bersýnilegum annmörkum að nauðsyn væri á að fresta réttaráhrifum hennar í heild sinni.          

Þann 11. október 2022 barst nefndinni svo krafa frá Símanum um að nefndin lyki málinu þá þegar með ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og vísaði til þess að þann 15. september 2022 hefði Samkeppniseftirlitið samþykkt samruna sem fól í sér sölu Símans á Mílu til Ardian France SA (Ardian) og með þeirri sölu hafi verið slitið á eignatengsl Símans og Mílu og af þeim sökum fengist meginforsenda FST fyrir niðurstöðu málsins ekki staðist. Tók Míla undir þessa kröfu Símans.    

Með úrskurði áfrýjunarnefndar í framangreindu máli nr. 3/2021, dags. 29. desember 2022, felldi nefndin úr gildi þá þætti hinnar kærðu ákvörðunar sem byggðu á þeirri forsendu að Míla og Síminn tilheyrðu fyrirtækjasamstæðu. Tók nefndin fram í úrskurði sínum að enda þótt nokkur tengsl séu enn á milli Mílu og Símans vegna heildsölusamnings sem er í gildi milli fyrirtækjanna er ekki ljóst hvort unnt sé að beita vægari úrræðum, til þess að sporna gegn skaðlegum áhrifum þeirra tengsla á samkeppni á fjarskiptamarkaði. Taldi úrskurðarnefndin því rétt að ógilda álagningu kvaða sem snúa beinlínis að tilvist Símasamstæðunnar frá og með 15. september 2022 er samruninn var heimilaður. Fól það í sér að útnefning um að Síminn væri með umtalsverðan markaðsstyrk var felld úr gildi sem og þar með einnig kvaðir á félagið sem snéru fyrst og fremst að því að samstæðan stæðist framangreint efnahagslegt hermipróf. Eðli málsins samkvæmt var sú kvöð einnig felld brott gagnvart Mílu, sem og sú kvöð að félögin þyrftu að gæta þess að ekki væri of lítill munur milli heildsöluverðs Mílu og smásöluverðs Símans. Þess utan felldi nefndin niður þá kvöð sem lögð var á Mílu um að félagið skyldi tengja bitastraumsbúnað sinn við ljósleiðaraheimtaugar annarra netrekenda sem þess óskuðu gegn hæfilegu gjaldi, en kvöð þessari var ætlað að sporna gegn áhrifum lóðréttar samþættingar Símans og Mílu. Bent skal á að ofangreindar kvaðir komu aldrei til framkvæmda.

Í ljósi hins stutta gildistíma ákvörðunar nefndarinnar ákvað hún jafnframt að fella úr gildi allar tilvísanir til þess að FST endurskoðaði árlega lista þeirra sveitarfélaga þar sem vægari kvaðir skyldu gilda.

Úrskurður nefndarinnar tók gildi þann 29. desember 2022 og fellur úr gildi eigi síðar en 15. september 2023. Fyrir þann tíma ber FST að framkvæma nýja markaðsgreiningu á viðkomandi mörkuðum og taka nýja ákvörðun fyrir framangreint tímamark, sem leysir umrædda ákvörðun FST af hólmi. Málskostnaður var alfarið felldur á ríkissjóð.    

Úrskurðurinn 

Viðauki með frétt