Niðurstaða samráðs – Alþjónustukvöð Mílu ehf. ekki endurnýjuð
Niðurstaða samráðs – Alþjónustukvöð Mílu ehf. ekki endurnýjuð
Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 31/2017 var lögð alþjónustukvöð á Mílu ehf. um að útvega lögheimilum og vinnustöðum tengingu við hið almenna fjarskiptanet. Skyldi kvöðin gilda, með mögulegri framlengingu, til 31. desember 2022.
Áður en ákvörðun er tekin um hvort ástæða sé til að leggja á fjarskiptamarkaðinn einstakar alþjónustuskyldur, tengdar þjónustu innan alþjónustu, verðlagningu þjónustunnar og aðgengi að þjónustunni er gert ráð fyrir að Fjarskiptastofa (FST) framkvæmi markaðskönnun. Tilgangur hennar er fyrst og fremst að meta hvort markaðurinn sjálfur um land allt hafi leyst eftirspurn eftir alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og að verðlagning hennar sé viðunandi. Ef niðurstaða markaðskönnunar er á þá leið að neytendur hafi ekki aðgang að skilgreindri lágmarksþjónustu er gert ráð fyrir að FST geti útnefnt fjarskiptafyrirtæki með skyldu til að veita alþjónustu. Við málsmeðferð gilda almennar stjórnsýslureglur.
Þann 12. júlí s.l. efndi FST til almenns opins samráðs við hagaðila um hvort þörf væri á því að endurnýja alþjónustukvöð Mílu. Í samráðsskjalinu var lagt mat á aðgengi landsmanna að alþjónustu. Matið byggði á tölfræðilegum gögnum Fjarskiptastofu um útbreiðslu á fjarskiptaþjónustu á landinu, upplýsingum um hvernig markaðsforsendur væru að mæta þjónustueftirspurn notenda og hvort og þá hvaða sértæku aðgerða þyrfti mögulega að grípa til í þeim tilgangi að tryggja alþjónustu.
Frumniðurstaða FST var á þann veg að þróun fjarskiptamarkaðarins frá síðustu alþjónustuútnefningu og breytingar á lagaumhverfi alþjónustu leiddi til þess að ekki væri þörf á að endurnýja alþjónustukvöð Mílu ehf. um að útvega heimilum og vinnustöðum á landinu tengingu við almenna fjarskiptanetið. Það væri mat FST að nánast öll heimili og vinnustaðir landsins hefðu aðgang að fjarskiptaþjónustu sem uppfyllti þjónustukröfur innan alþjónustu. Í þeim örfáu tilvikum sem fjarskiptasamband heimila og vinnustaða teldist ekki vera fullnægjandi m.t.t. til alþjónustu að þá myndu alþjónustukvaðir Neyðarlínunnar grípa slík tilvik samkvæmt ákvörðun PFS nr. 9/2020. Fyrirséð væri að slík tilvik myndu eingöngu hlaupa á einhverjum tugum á landinu öllu.
Fjarskiptastofa barst umsögn frá Mílu ehf., dags. 15. ágúst 2022, þar sem félagið tók undir mat stofnunarinnar um að framboð fjarskiptaþjónustu innan alþjónustu væri fullnægjandi og að ekki væri þörf á því að endurnýja þá alþjónustukvöð sem hvílir á félaginu. Ekki komu fram neinar athugasemdir frá öðrum hagaðilum við frumniðurstöðu FST um að ekki væri þörf á að endurnýja alþjónustukvöð Mílu ehf. miðað við núverandi aðstæður á fjarskiptamarkaði. Matið er því óbreytt og endanlegt.
Á grundvelli framangreindrar markaðskönnunar hefur Fjarskiptastofa ákveðið að endurnýja ekki alþjónustuútnefningu Mílu ehf. og þá alþjónustukvöð sem hvílir á félaginu til 31. desember 2022.