Ný fjarskiptalög taka gildi
Ný fjarskiptalög taka gildi
Í dag tóku gildi ný fjarskiptalög nr. 70/2022 sem samþykkt voru á Alþingi í júní s.l. og leysa af hólmi fjarskiptalög nr. 81/2003. Þótt gerðar hafi verið tíðar breytingar á eldri fjarskiptalögum í gegnum tíðina er þetta í fyrsta skipti í nærri tvo áratugi sem lögin hafa farið í gegnum heildarendurskoðun með endurútgáfu lagabálksins í heild sinni. Byggir lagasetningin á fjarskiptaregluverki Evrópusambandsins eða Kóðanum svo kallaða sem er tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2018/1972/EU.
Með þróun á fjarskiptatækni á síðustu árum og áratugum eða frá því að farsímatæknin og internetþjónusta ruddu sér til rúms eru fjarskiptainnviðir orðnir með mikilvægustu innviðum hvers tæknivædds nútíma samfélags. Mikilvægir innviðir eru orðnir samtvinnaðir og háðir hverjum öðrum, t.d. eru fjarskipti notuð til stýringar á öðrum innviðum t.d. á sviði vatns- og raforku, flugasamgangna og í vaxandi mæli í vegasamgöngum. Ýmsir mikilvægir þjónustuþættir sem eru almenningi nauðsynlegir og voru áður að mestu óháðir fjarskiptum reiða sig nú á fjarskiptaþjónustu. Má þar nefna sem dæmi greiðslumiðlunarþjónustu banka og kröfu um rafræna auðkenningu til aðgangs að fjölbreyttri þjónustu, t.d. í samskiptum aðila við skattayfirvöld, vefþjónustu heilsugæslu, banka og tryggingarfélög o.s.frv. Það er því þjóðfélagslega mikilvægt að fjarskiptanet séu örugg og skilvirk, að fjarskiptaþjónusta sé öllum aðgengileg og að samkeppni í framboði þjónustunnar tryggi góð gæði hennar á hagstæðu verði fyrir neytendur. Þessum markmiðum er nýjum fjarskiptalögum ætlað tryggja.
Evrópskt fjarskiptaregluverk gerir áfram ráð fyrir því að eftirlit á fjarskiptamarkaði sé í höndum sérstakrar og sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar til að koma á og efla samkeppni með þeim stjórntækjum sem þær hafa yfir að ráða ásamt því að hafa umsjón með sanngjarnri útdeilingu á þeim réttindum og gæðum sem fjarskiptatæknin byggir á, s.s. með úthlutun tíðna, númera og kóða. Jafnframt er slíku eftirlitsstjórnvaldi ætlað að tryggja ríka neytendavernd og að vera ákveðið öryggisnet fyrir almenning með því að sjá til þess að allur almenningur og fyrirtæki hafi aðgang, á viðráðanlegu verði, að tilteknum lágmarksþáttum fjarskiptaþjónustu sem nefnd er alþjónusta.
Á síðasta ári voru sett ný lög um Fjarskiptastofu nr. 75/2021. Með lagabreytingunni var ætlunin að gera stofnuninni kleift að aðlaga starfsemi sína að breyttu laga- og tækniumhverfi. Samhliða þessu innleiddi Fjarskiptastofa breytt skipulag innan stofnunarinnar til að svara áherslubreytingum í starfsemi hennar. Það er von Fjarskiptastofu að ný löggjöf á sviði fjarskipta, aðlögun á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar og skipulagsbreytingar innan hennar, til að mæta þessum breytingum, sé til þess fallin að skipa Íslandi áfram í fremstu röð ríkja heims varðandi stöðu fjarskiptamála.