Hoppa yfir valmynd

Samráð um áætlun um lokun GSM (2G) og 3G þjónustu

Fréttasafn
15. febrúar 2022

Samráð um áætlun um lokun GSM (2G) og 3G þjónustu

GSM kerfi

Farsnetslausnir sem kenndar eru við GSM (2G) og 3G eru komnar til ára sinna og nýjar tæknilausnir eru tilbúnar til að taka við hlutverki þeirra. Fjarskiptastofa telur að nú fari að koma að þeim tímamótum að 2G og 3G tækni víki fyrir nýrri tækni. Í flestum löndum er verið að leggja grunninn að lokun þessarar þjónustu á allra næstu árum og sums staðar er jafnvel búið að loka henni.

Fjarskiptastofa hefur að undanförnu unnið með þeim fjarskiptafyrirtækjum sem reka almenn farnetskerfi hér á landi, þ.e. Nova, Símanum og Vodafone, að því að móta áætlun um niðurlagningu 2G og 3G. Afrakstur þeirrar vinnu er sú áætlun sem hér er kynnt og felur hún í sér að unnið verði að útfösun 2G og 3G á næstu árum og að 2G þjónustu verði alfarið lokað í árslok 2024 og 3G í árslok 2025.

Fjölmörg rök eru fyrir því að leggja niður þessar tæknilausnir sem nú eru um 20-30 ára gamlar. Meðal annars má nefna eftirfarandi:

  • Rekstur og viðhald eldri kerfa er orðið óhagkvæmt
  • Þróun á kerfum hefur verið hætt og stuðningi við þau verður hætt á næstu árum
  • Óhagkvæmt er að reka mörg kerfi
  • Óþarfa umhverfisfótspor af því að reka mörg kerfi
  • Hagkvæmari nýting tíðnisviðsins
  • Útfösun á kerfum er áætluð víða um heim

 

Þar sem lokun þjónustunnar mun losa um tíðnisvið og gera rekstur farnetanna hagkvæmari er hún til þess fallin að hraða uppbyggingu 5G háhraða farneta um land allt.

Lokun kerfanna mun hafa áhrif á þjónustu þeirra aðila sem notast við búnað sem einungis styður við 2G eða 3G. Er hér t.d. um að ræða búnað eins og neyðarhnappa, innbrotakerfi og mælitæki, auk farsíma sem einungis styðja 2G og/eða 3G. Farnetsfyrirtækin munu vinna með viðskiptavinum sínum við að greina hvaða búnað þarf að uppfæra áður en til lokunar kemur.

Gripið verður til mótvægisaðgerða sem tryggja munu samfellu í þjónustu við notendur og efnt verður til víðtækrar kynningar á verkefninu í þeim tilgangi að gefa notendum góðan fyrirvara í þeim tilvikum sem þeir gætu þurft að skipta út endabúnaði.

Öllum sem telja sig hafa hagsmuni tengda lokun þjónustunnar er boðið að gera athugasemdir við meðfylgjandi áætlun. Frestur til að gera athugasemdir er til 8. mars nk.

Eftir að athugasemdafresti lýkur mun Fjarskiptastofa, í samráði við ofangreind fjarskiptafélög taka afstöðu til athugasemda. Stefnt er að því að birta endanlega áætlun um lokun 2G og 3G eigi síðar en 31. mars nk.

Tekið er við skriflegum umsögnum á fjarskiptastofa(hjá)fjarskiptastofa.is og nánari upplýsingar veita Þorleifur Jónasson thorleifur(hjá)fjarskiptastofa.is og Sigurjón Ingvason sigurjon(hjá)fjarskiptastofa.is.

Útfösun á eldri farnetstækni - Samráðsskjal.pdf