Niðurstaða samráðs um úthlutun á 5G tíðniheimildum
Niðurstaða samráðs um úthlutun á 5G tíðniheimildum
Þann 20. desember 2019 efndi Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) til opins samráðs um þá fyrirætlun sína að úthluta tíðniheimildum fyrir 5G þjónustu á 3,6 GHz tíðnisviðinu til þeirra þriggja fjarskiptafyrirtækja sem hafa nú til umráða 4G tíðniheimildir. Í samráðsskjalinu var farið yfir forsendur þess að úthlutað væri samkvæmt samráðsaðferð og til skamms tíma, eða til 31. desember 2021.
PFS hefur unnið úr umsögnum umsagnaraðila og birtir nú niðurstöður samráðsins. Segja má að umsagnaraðilar hafi almennt verið sáttir við forsendur úthlutunarinnar, enda þótt þeir hafi komið með athugasemdir við tiltekna þætti framkvæmdarinnar sem stofnunin gat að mestu leiti tekið tillit til. Niðurstaða PFS er því sú að úthluta 5G tíðniheimildum til eftirfarandi fjarskiptafyrirtækja: Nova ehf, Símans hf. og Sýnar ehf. (Vodafone). Úthlutun tíðnanna mun formlega eiga sér stað með útgáfu sérstakra tíðniheimilda.
Eftir þessa úthlutun eru eftir 100 MHz óráðstöfuð á 3,6 GHz tíðnisviðinu. PFS mun fylgjast með þróun á uppbyggingu á 5G fjarskiptanetum og framboði þeirrar þjónustu á næstu misserum og meta með hvaða hætti óráðstöfuðum tíðnum á 3,6 GHz verður úthlutað síðar.
Eins og niðurstöðuskjal samráðsins ber með sér tekur þessi úthlutun á 5G tíðniheimildum tillit til fyrirætlana stjórnvalda um að setja sérstakar reglur um öryggi 5G fjarskiptaneta og þjónustu. Slík laga- og reglusetning getur m.a. falið í sér tilteknar takmarkanir á því hvaða 5G búnað verður heimilt að nota fyrir slíka þjónustu hér á landi. Verður 5G tíðniheimildunum úthlutað til fjarskiptafyrirtækjanna þriggja með skýrum fyrirvara um þær takmarkanir á uppbyggingu 5G fjarskiptaneta sem slík reglusetning stjórnvalda kann að leiða af sér.
Samráðskjal PFS(19)-10
Niðurstöður samráðs PFS(20)-04
Umsögn GR
Umsögn Nova
Umsögn Símans
Umsögn Vodafone