Hoppa yfir valmynd

Netöryggissveitin CERT-IS vann til verðlauna fyrir stafræna þjónustu

Fréttasafn
03. febrúar 2023

Netöryggissveitin CERT-IS vann til verðlauna fyrir stafræna þjónustu

Mynd með frétt

Netöryggissveitin CERT-IS vann til verðlauna fyrir stafræna þjónustu á UT messunni sem nú er haldin í tólfta sinn. UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011 að vísu á rafrænan máta árið 2021 þegar Covid faraldurinn stóð sem hæst.

Netöryggissveitin CERT-IS var tilnefnd fyrir að stuðla að bættu netöryggi og viðbragðsgetu innan íslenskrar netlögsögu og fyrir að vinna að aukinni samhæfingu viðbragða og forvarna gegn netvá meðal rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu á Íslandi. CERT-IS hefur auk þess aukið upplýsingaflæði um áhættur og atvik til þjónustuhópa og íslensk almennings meðal annar gegnum nýja heimasíðu sveitarinnar og samfélagsmiðilinn Twitter.

Auk CERT-IS voru tilnefnd til verðlauna fyrir stafræna þjónustu vefur Vegagerðarinnar www.umferdin.is sem er nýr gagnvirkur vefur sem hefur það hlutverk að auka aðgengi vegfarenda að upplýsingum um færð á vegum. Þá var einnig tilnefnt Landspítalaappið sem er smáforrit fyrir sjúklinga sem hefur það markmið að gefa sjúklingum betri innsýn inn í meðferðina, bæta upplifun og gera þeim kleift að taka virkari þátt í meðferðinni.

Fjarskiptastofa óskar starfsfólki netöryggissveitarinnar CERT-IS til hamingju með þennan árangur.

Á myndinni má sjá forseta íslands Guðna Th. Jóhannesson í pontu og Arnheiði Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra SKÝ auk Guðmundar Arnar Sigmundssonar hjá CERT-IS.