Hoppa yfir valmynd

Samráð um endurskoðun á reglum um númera- og þjónustuflutning

Fréttasafn
15. júlí 2022

Samráð um endurskoðun á reglum um númera- og þjónustuflutning

Þann 1. september nk. taka gildi ný lög um fjarskipti nr. 70/2022. Um er að ræða heildar endurskoðun á  lögunum sem byggir á fjarskiptatilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2018/1972/EB (Kóðinn). Eitt af markmiðum þessarar endurskoðunar á evrópska fjarskiptaregluverkinu var að bæta enn frekar neytendavernd á sviði fjarskipta. Meðal nýmæla má nefna eftirfarandi atriði:

  • Staðlað form fyrir samandregna viðskiptaskilmála
  • Aðgangur að samanburðartóli á áskriftarleiðum fjarskiptafyrirtækja
  • Neytendavernd í tengslum  við pakkatilboð fjarskiptafyrirtækja
  • Bótakerfi fyrir neytendur vegna tafa og/eða mistaka við númera- og þjónustuflutning

 

Að því er varðar síðast nefnda atriðið, þá hafa gilt ,samkvæmt eldri fjarskiptalögum, reglur Fjarskiptastofu um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum nr. 617/2010. Í nýju lögunum er gert ráð fyrir að bótakerfi fyrir neytendur vegna tafa og/eða mistaka við númera- og þjónustuflutning verði hluti af þeirri reglusetningu.

Í tilefni af gildistöku nýju laganna hefur Fjarskiptastofa nú endurskoðað reglur sínar um númera- og þjónustuflutning. Fyrir utan hugtaka- og nafnabreytingar eru helstu breytingar eftirfarandi:

  • Bótakerfi vegna tafa og/eða mistaka við númera- og þjónustuflutning
  • Skylda fjarskiptafyrirtækja til beita tæknilegum lausnum við númera- og þjónustuflutning til að gera flutninginn skilvirkan og hagkvæman
  • Fjarskiptafyrirtæki bera sönnunarbyrði fyrir gildu samþykki notanda fyrir númera- og þjónustuflutning
  • Samskipti fjarskiptafyrirtækja við notendur sem hafa óskað eftir númera- og þjónustuflutningi skulu ekki vera til þess fallin að hindra að flutningur eigi sér stað
  • Ekki heimilt að leggja sérstakt gjald á  notendur fyrir kostnaði af númera- og þjónustuflutningi

 

Fjarskiptastofa birtir nú drög að endurskoðuðum reglum um númera- og þjónustuflutning. Er hagaðilum, þ.m.t. neytendum, gefinn kostur á því að koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum við regludrögin.

Svarfrestur er til 16. ágúst nk.  

Reglur um númera- og þjónustuflutning_DRÖG.pdf