Hoppa yfir valmynd

Afstaða PFS til samstarfs farnetsfyrirtækja og Neyðarlínunnar um gagnkvæmt reiki og samþykki fyrir samnýtingu tíðna

Fréttasafn
14. apríl 2021

Afstaða PFS til samstarfs farnetsfyrirtækja og Neyðarlínunnar um gagnkvæmt reiki og samþykki fyrir samnýtingu tíðna

Með bréfi Neyðarlínunnar ohf., dags. 4. nóvember 2020, barst Póst- og fjarskiptastofnun erindi þar sem farið var fram á heimild félagsins til þess að starfa sameiginlega með Símanum hf., Sýn hf. og Nova ehf. (farnetsfyrirtækin) um að þau samnýti senda og tíðnir í fjarskiptaaðstöðu Neyðarlínunnar ohf.á stöðum þar sem ríkir markaðsbrestur. 

Fram kom í erindi Neyðarlínunnar ohf. að samstarfið ætti að taka til sendastaða á minni landsvæðum, sem oft eru staðsettir fjarri byggð eða á mjög strjálbýlum stöðum, og víða hafa verið byggðir upp með styrk frá fjarskiptasjóði. 

Neyðarlínan ohf. vísaði til þeirra skyldna sem hvíla á félaginu sem alþjónustuveitanda fyrir síma- og internetþjónustu í sérstökum tilvikum, sbr. ákvörðun PFS nr. 9/2020. Undir vissum kringumstæðum gæti verið hagkvæmast að útvega þjónustuna með farnetssambandi.  Væri þá ætlunin að semja við eitt fjarskiptafyrirtæki um að koma upp sendi í aðstöðu Neyðarlínunnar ohf., en til að gæta að jafnræði fjarskiptafyrirtækjanna yrði gerð krafa um reikiaðgang þeirra. Með þessu yrði tryggt gagnkvæmt reiki fjarskiptafyrirtækjanna á þeim sendastöðum Neyðarlínunnar ohf. sem byggðir eru upp með ríkisstuðningi eða eru virkjaðar í þágu alþjónustukvaðar sem hvílir á félaginu.

Það er ekki hlutverk PFS að samþykkja samstarf sem þetta. Stofnunin taldi á hinn bóginn rétt út frá hlutverki sínu  að taka afstöðu til áhrifa þessa samstarfs fyrir fjarskiptamarkaðinn almennt, auk þess sem áformað reikisamstarf kallaði á samnýtingu fjarskiptafyrirtækjanna á tíðnum af tæknilegum ástæðum, en slíkt krefst samþykkis PFS. 

PFS rýndi drög að fyrirhuguðum samstarfsamningi út frá leiðbeiningum frá evrópsku fjarskiptaeftirlitsstofnuninni BEREC þar sem m.a. er fjallað um þau sjónarmið sem eftirlitstjórnvöld ber að leggja til grundvallar við mat á samstarfsamningum fjarskiptafyrirtækja um samnýtingu á aðstöðu og tækjabúnaði.

Eftir að hafa yfirfarið samningsdrögin, m.a. um markmið samningsins og umfang, sem og hlutverk Neyðarlínunnar ohf. sem framkvæmdaraðila samstarfsins, var það niðurstaða PFS að fyrirhugað samstarf væri í samræmi við markmið fjarskiptalaga og áætlanir stjórnvalda um aðgengi landsmanna að háhraða farnetþjónustu, auk þess sem að samstarfið gæti falið í sér ávinning fyrir notendur á umræddum svæðum sem þeir fengju mögulega ekki notið ella. Að sama skapi var samþykkt tíðnisamnýting fjarskiptafyrirtækjanna vegna þessa verkefnis.

Afstaða og samþykki PFS