Hoppa yfir valmynd

Alþjónustuframlag til Neyðarlínunnar vegna þeirrar skyldu að koma upp fjarskiptatengingum í sérstökum tilvikum.

Fréttasafn
27. mars 2023

Alþjónustuframlag til Neyðarlínunnar vegna þeirrar skyldu að koma upp fjarskiptatengingum í sérstökum tilvikum.

Með ákvörðun PFS nr. 9/2020 var lögð sú alþjónustukvöð á Neyðarlínuna ohf. að veita síma- og internetþjónustu til lögheimila og vinnustaða í sérstökum tilvikum.

Þann 1. október 2020 hófst fyrsti áfangi Símans við niðurlagningu PSTN kerfisins. Um er að ræða gamla rásaskipta talsímakerfið sem þjónað hefur landsmönnum síðast liðna áratugi. Við lokun á talsímakerfinu var fyrirséð að nokkur heimili myndu bætast í þann hóp heimila þar sem gera þurfi sérstakar ráðstafanir til að koma upp fjarskiptasambandi við. Á þetta einkum við þar sem ekki er búið að leggja ljósleiðara eða farsímasamband er ekki nægjanlega gott. Í þeim tilvikum þarf að tryggja tengingu, t.d. yfir örbylgju, gervihnött eða með því að gera ráðstafanir til að móttaka og magna farsímamerki, ef þess hefur verið kostur.

Í útnefningu Neyðarlínunnar ohf. er gert ráð fyrir að félagið geti fengið bættan útlagðan kostnað við að koma á símasambandi við þau lögheimili og fyrirtæki sem mögulega detta úr fjarskiptasambandi við niðurlagningu PSTN kerfisins.

Með ákvörðun FST nr. 1/2023 var samþykkt umsókn Neyðarlínunnar ohf. um alþjónustuframlag fyrir fjarskiptatengingar á árinu 2022 að upphæð 9.908.777. Um var að ræða sérstakar ráðstafanir fyrir 10 lögheimili en í viðauka með ákvörðuninni má sjá hvar á landinu viðkomandi tengingar eru sem og kostnað við hverja einstöku tengingu.